571. fundur 14. júlí 2021 kl. 15:00 - 19:12 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS) formaður
  • Sævör Þorvarðardóttir (SÞ)
  • Rósa Guðmundsdóttir (RG)
    Aðalmaður: Jósef Ó. Kjartansson (JÓK)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Fundurinn hófst með heimsókn bæjarráðs, bæjarstjóra og formanns skólanefndar, Garðars Svanssonar, í húsnæði Grunnskóla Grundarfjarðar. Skoðuð voru ummerki eftir vatnstjón sem varð í skólahúsnæðinu í byrjun vikunnar.
Að því búnu var haldið í Ráðhús Grundarfjarðar.

Þar setti formaður fund og gengið var til dagskrár.

1.Lausafjárstaða 2021

Málsnúmer 2101039Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.

2.Greitt útsvar 2021

Málsnúmer 2101005Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-júní 2021. Skv. yfirlitinu hefur útsvar hækkað um 4,4% miðað við sama tímabil í fyrra. Á landsvísu er hækkunin 9,9% á sama tímabili.

3.Malbik 2021

Málsnúmer 2107007Vakta málsnúmer

Gestir fundarins undir þessum lið eru Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulags- og byggingarfulltrúi, Valgeir Magnússon verkstjóri áhaldahúss, Halldóra Hreggviðsdóttir hjá Alta og Lilja G. Karlsdóttir hjá VSB sem aðstoðað hafa við hönnun gangstétta/gatna/blágrænna svæða í götum.

Lagt var fram vinnuskjal með endurbættum tillögum um verkframkvæmdir í malbikun, sbr. fyrri umræðu í bæjarráði. Farið yfir listann og hann endanlega samþykktur.

Eftirfarandi eru framkvæmdir sem unnar verða í sumar/haust:

1. Grundargata:
a) Steypt gangstétt sunnanmegin í götunni frá Grundargötu 5 og að gatnamótum við Borgarbraut. Breidd 3 metrar. Graseyjur og eldri gangstétt fjarlægð.
b) Steypt gangstétt sunnanmegin í götunni frá gatnamótum við Eyrarveg, að gatnamótum við Fagurhólstún/Sæból, breidd 3 metrar. Graseyjur og eldri gangstétt fjarlægð.
c) Steypt gangstétt norðanmegin í götunni, frá gatnamótum við Sæból og að Gamla pósthúsi. Graseyjur og eldri gangstétt fjarlægð, en gert ráð fyrir grasi/hellum að hluta innan núverandi hliðarsvæðis.

Á Grundargötu stendur til að Vegagerðin malbiki framangreinda kafla götunnar (þjóðvegur í þéttbýli), Vegagerðin steypir einnig kantsteina en bærinn vinnur gangstéttar/stíga. Samtal hefur verið við Vegagerðina um endurnýjun hraðahindrana/gönguþverana, en reiknað er með að Vegagerðin endurnýi tvær slíkar á umræddum köflum. Framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar og bæjarins verða að haldast í hendur.

2. Borgarbraut:
a) Malbikaður gangstígur vestanmegin í götu, frá Grundargötu að Hlíðarvegi. Kantlaus. Breidd 2,7 metrar og blágrænt svæði (regnbeð) sett upp milli gangst. og götu. Eldri gangstétt fjarlægð.
b) Malbikuð gangstétt austanmegin í götu, frá Grundargötu að Hlíðarvegi. Kantlaus. Breidd 1,4 metrar. Eldri gangstétt fjarlægð. Bílastæði í götunni verði við hlið þeirrar gangstéttar.
c) Borgarbraut/Hlíðarvegur -
Horn á gatnamótunum malbikuð, í tengslum við umferðartengingar upp Borgarbraut. Til frekari útfærslu.

3. Hrannarstígur:
a) Malbikuð gangstétt vestanmegin í götu, frá Sögumiðstöð og að Fagurhól. Kantlaus. Breidd 3,1 metrar. Eldri gangstétt og graseyjur fjarlægðar.
b) Sama, frá Fagurhól og uppfyrir hornið að lóð Dvalarheimilis. Breidd 3 metrar. Eldri gangstétt fjarlægð.

4. Sæból:
Malbikuð gangstétt sunnanmegin í götu, frá samkomuhúsi og að Sæbóli 25. Kantlaus. Breidd 1,5 metrar. Eldri gangstétt fjarlægð.

5. Smiðjustígur:
Gatan og gangstéttarsvæði verður malbikað sem ein heild (kantlaus) og eldri gangstétt verður fjarlægð.
Malbikuð verður göngutenging upp úr enda götunnar og yfir lóð Ráðhúss, en leiðin er mikið gengin, einkum af skólabörnum. Samtals rúmlega 500 m2.

6. Við Fellaskjól:
a) Malbikað bílastæði/botnlangi að heimilinu. Yfirlögn malbiks, ca. 600 m2.
b) Göngustígur malbikaður frá Fellaskjóli og yfir á malbikaða lóð kirkjunnar, ca. 120 m2.

7. Auk þess minniháttar viðgerðir hér og þar á malbiksskemmdum og á steyptum gangstéttum.


Farið var yfir fyrirliggjandi hönnunarvinnu, einkum rætt um fyrirkomulag í Sæbóli og Borgarbraut.

Hönnun gerir ráð fyrir blágrænum lausnum uppvið vestari hluta í Borgarbraut ofan Grundargötu, austantil í Hrannarstíg ofan Grundargötu, og norðanmegin í Sæbóli. Ekki eru blágræn svæði á framkvæmdasvæðum sumarsins/haustsins við Grundargötu og á Smiðjustíg.

Allar framkvæmdir falla undir markmiðið "Gönguvænn Grundarfjörður" í aðalskipulaginu nýja. Horft er til þess að við endurnýjun gangstétta sé umferðaröryggi haft í fyrirrúmi og hugsað fyrir góðum tengingum og aðgengi fyrir gangandi, hjólandi, barnavagna o.fl. Hluti af gangstéttum verður "kantlaus", þ.e. í plani við götu. Sumstaðar verða graseyjur (blágræn svæði) til afmörkunar, en annarstaðar verða markaðar línur, bólur eða kantar sem afmarka göngusvæði frá götu. Tekið er mið af 30 km leyfilegum hámarkshraða ökutækja.

Gönguþveranir/gangbrautir og staðsetning þeirra verður á nokkrum stöðum útfært síðar, eftir samtal við íbúa og nánari skoðun.

Þar sem að allmargar götur munu taka breytingum skv. þessu, er lagt til að hætt verði við aðkeyptar gatnamerkingar í ár.

Bæjarstjóra falið að vinna áfram að framkvæmdum og undirbúningi þeirra.

Samþykkt samhljóða.

4.Blágrænar ofanvatnslausnir í Grundarfirði

Málsnúmer 2102021Vakta málsnúmer

Gestir fundarins undir þessum lið eru Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulags- og byggingarfulltrúi, Valgeir Magnússon verkstjóri áhaldahúss, Halldóra Hreggviðsdóttir hjá Alta og Lilja G. Karlsdóttir hjá VSB sem aðstoðað hafa við hönnun gangstétta/gatna/blágrænna svæða í götum.

Dagskrárliður ræddur samhliða dagskrárliðnum "Malbik 2021".


Rætt var um útfærslu opinna svæða og götusvæða þar sem blágrænar lausnir verða nýttar til að taka við ofanvatni. Í göturýmum, þar sem við á, verður komið fyrir regnbeðum, sem eru mjög gegndræp og hafa það hlutverk að taka við ofanvatni. Regnvatn mun þannig seytla í grænu geirana og græn opin svæði, í staðinn fyrir að fara einungis í fráveitulagnir bæjarins. Með því er létt á fráveitukerfinu til framtíðar, göturými grænkað og ýtt undir frekara umferðaröryggi í leiðinni. Þetta er aðferðafræði sem mikið er beitt erlendis í borgum og bæjum og er farin að ryðja sér til rúms einnig á Íslandi, einkum hjá Reykjavíkurborg, Garðabæ og fleiri stærri sveitarfélögum.

Cowi, verkfræðistofa, hefur reiknað út vatnsmagn og skoðuð hefur verið "lekt" í jarðveginum sem bærinn er byggður á. Reiknað er út hver stærð grænu geiranna þarf að vera í göturýmum, auk grænna opinna svæða, sem ætlað er að taka við ofanvatni. Cowi hefur einnig gert tillögu um hönnun grænu geiranna í göturýmum þeirra gatna sem nú eru að hefjast framkvæmdir við. Farið var yfir þá hönnun, samanber umræðu um gangstéttar/stíga undir dagskrárlið 3.

Hér viku Valgeir, Halldóra og Lilja af fundi og var þeim þakkað fyrir komuna.

5.Framkvæmdir 2021

Málsnúmer 2104022Vakta málsnúmer

Verklegar framkvæmdir og sumarverkefni.

Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulags- og byggingarfulltrúi var gestur fundarins undir þessum dagskrárlið.

Farið var yfir stöðu helstu framkvæmda á vegum bæjarins.

Framkvæmdir við "Gönguvænan Grundarfjörð", þ.e. malbikun, gangstéttir/stíga og blágrænar lausnir voru ræddar undir dagskrárliðum 3 og 4.

Skipulags- og byggingarfulltrúi og bæjarstjóri sögðu frá framkvæmdum utanhúss við grunnskólahúsnæði undir dagskrárlið nr. 6, en unnið er að áframhaldandi múrviðgerðum utanhúss á suðausturhlutum skólahúsnæðis. Í haust verður einnig málað utanhúss.

Skipt verður um glugga á neðri hæð þeirrar byggingar og í kennaraálmu og verður það gert fyrrihluta ágústmánaðar.

Innanhúss er viðhald í nokkru uppnámi vegna lekatjóns sem upp kom í byrjun vikunnar, en til stóð m.a. að málarameistari ynni að málun á hluta svæðis innanhúss. Framkvæmdir innanhúss eru nú í endurskoðun, enda ljóst að þörf verður á umfangsmiklum endurbótum í kjölfar tjónsins.

Byggingarfulltrúi sagði einnig frá helstu verkefnum bæjarins sem tengjast nýbyggingum í Grundarfirði, en allnokkuð af íbúðarhúsnæði er nú í byggingu eða á undirbúningsstigi, auk þess sem netaverkstæðisbygging er farin af stað.

Bæjarstjóri sagði frá öðrum framkvæmdum:

- Leikskóli:
Unnið hefur verið að viðhaldi innanhúss í sumarlokun leikskóla. Ennfremur er unnið að því að lagfæra lóð á nokkrum stöðum, fara á í viðhald/umhirðu leiktækja, málun og fleira þegar þurrt veður gefst til þess. Til stendur að skipta um net á austurhluta girðingar á lóð, ekki fékkst verktaki í verkið og er vinna við verkið í skoðun.

- Grundarfjarðarhöfn:
Framkvæmdir við að steypa þekju á lengingu Norðurgarðs ganga vel, búið er að steypa um 55% af þekjunni. Skemmtiferðaskip lagðist í fyrsta sinn að hinni lengdu bryggju þann 1. júlí sl., en heimatogari hafði áður lagst að til að prófa viðleguna.

- Verkefni við orkuskipti í skólahúsnæði og sundlaug:
Bærinn fékk 10 millj. kr. styrk úr Orkusjóði 2020, en verkefnið er í bið vegna samvinnu við Veitur ohf. um skoðun á orkumálum. Sótt var um viðbótarstyrk til Orkusjóðs í júní sl. vegna frekari áfanga verksins.

- Þríhyrningur:
Leiktæki sem pöntuð voru munu koma til okkar öðru hvoru megin við mánaðamótin júlí/ágúst. Leiktæki eru styrkt að stærstum hluta með gjöf frá fyrirtækinu Guðmundur Runólfsson hf. frá því í október 2020.
Búið er að kanna og treysta lagnir á svæðinu, jarðvegsskipta fyrir eldstæði og "sviði", jarðvegsskipt verður undir leiktækjasvæði á næstunni.
Allt upptekna efnið fer í jarðvegsmön eða "orminn" sem mótaður verður á suðurhluta svæðisins, í samræmi við hönnun Þríhyrningsins.
Hleðsla á eldstæði er í undirbúningi.
Íþrótta- og æskulýðsnefnd hefur samið við Skógræktarfélagið og Kvenfélagið um aðkomu að gróðri og ræktun á svæðinu.

Gestir

  • Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulags- og byggingarfulltrúi

6.Grunnskólinn, húsnæði - Ástandsskýrsla Eflu

Málsnúmer 2107006Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lá stöðuskýrsla, unnin í lok maí 2021, af Eflu, verkfræðistofu, um utanhússviðgerðir grunnskólahúsnæðis. Höfð er hliðsjón af skýrslu sem Efla vann árið 2017 um ástand húss og viðhaldsþörf, en unnið hefur verið eftir henni síðan.

Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulags- og byggingarfulltrúi var gestur fundarins undir þessum dagskrárlið.


Byggingarfulltrúi fór yfir stöðu viðhaldsframkvæmda við utanhússviðgerðir á grunnskóla, einkum múrviðgerðir.

Bæjarstjóri og byggingarfulltrúi áttu verkfundi 29. júní og nú í morgun með verktaka, Þ.G. Þorkelsson verktaka ehf.

Farið var yfir það sem búið er að vinna af utanhússviðgerðum, múrviðgerðum, endurbótum á þakkanti til að varna því að vatn flæði niður á glugga og veggi, málun o.fl.

Mikilvægt er að við gluggaskipti í húsinu verði séð til þess að múrviðgerðir fari fram samhliða í gluggaopum og á súlum við glugga, að það haldist í hendur.

Byggingarfulltrúi mun fara betur yfir stöðuna og næstu skref þegar hann verður með viðveru 20. júlí nk., eftir sumarfrí.

Hér vék Sigurður Valur af fundi og var honum þakkað fyrir komuna.

Gestir

  • Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulags- og byggingarfulltrúi

7.Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, Kirkjufellsfoss, styrkur 2018

Málsnúmer 1803061Vakta málsnúmer

Undirritaður samningur við Sanna landvætti lagður fyrir bæjarráð til endanlegrar staðfestingar.
Bæjarstjóri skýrði breytingar sem gerðar hafa verið síðan drög að samningi voru lögð fyrir bæjarstjórn, einkum á 1. og 4. gr. samnings.

Samningurinn samþykktur samhljóða.

8.Sýslumaðurinn á Vesturlandi - Hátíðarfélag Grundarfjarðar tækifærisleyfi

Málsnúmer 2107004Vakta málsnúmer

Sýslumaðurinn á Vesturlandi hefur sent bæjarstjórn ósk um umsögn vegna umsóknar Hátíðarfélags Grundarfjarðar um tækifærisleyfi fyrir dansleik í Snæfellingshöllinni í Grundarfirði 23. júlí nk.

Rósa Guðmundsdóttir vék af fundi vegna aðkomu að undirbúningi umsóknarinnar.
Slökkviliðsstjóri hefur veitt jákvæða umsögn um erindið.

Með vísan til 17. gr. laga um veitinga- og gististaði gerir bæjarráð ekki athugasemd um umbeðið leyfi.

Samþykkt samhljóða.

Hér tók Rósa aftur sæti sitt á fundinum.

9.Landsnet hf - Kerfisáætlun 2021-2030 í opið umsagnarferli

Málsnúmer 2107011Vakta málsnúmer

Landsnet hefur sent drög að Kerfisáætlun 2021-2030 til umsagnar.

Með tölvupósti dagsettum 10.06 2021 var sveitarfélögum gefinn kostur á að veita umsögn um Kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2021-2030.

Fyrir fundinum liggja drög SSV að umsögn stjórnar SSV um Kerfisáætlunina. Einnig vinnupóstar bæjarstjóra til Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Bæjarráð tekur undir umsögn SSV og leggur sérstaka áherslu á eftirfarandi:

"Þegar horft er til langtímaáætlunar Landsnets er afar mikilvægt að setja nú þegar inn á framkvæmdaáætlun uppbyggingu á svæðisflutningskerfinu á Snæfellsnesi. Landsnet hefur framkvæmt úttekt á tiltæku skerðanlegu afli, varaafli og framkvæmt kerfisgreiningar í þeim tilgangi að meta svæðisbundna flutningskerfið á Snæfellsnesi. Niðurstöður greininga koma ekki vel út þar sem kerfið þolir í flestum tilfellum ekki útleysingu á Vegamótalínu 1 út frá Vatnshömrum þó svo að nóg raunaflsframleiðsla sé fyrir hendi í eyjunni. Úrbætur á kerfinu eru nauðsynlegar til að geta tryggt afhendingaröryggi og eyjakeyrslu á Snæfellsnesi. Sveitarfélögin telja að nauðsynlegt sé að ráðast nú þegar í ákveðnar aðgerðir til þess að tryggja afhendingaröryggi, en þær felast í;
- Endurnýjun á Vegamótalínu, frá Vatnshömrum að Vegamótum, endurnýjun á Vogaskeiðslínu og endurnýjun á Ólafsvíkurlínu.
- Hringtenging á Snæfellsnesi með því að tengja Vogaskeið við Glerárskóga með jarðstreng, sæstreng eða loftlínu. Í kerfisáætlun segir „að sé þessi útfærsla borin saman við tvöföldun Vegamótalínu þá fæst hærra skammhlaupsafl á Snæfellsnesi, meiri álagsaukning og áreiðanleiki afhendingar er talsvert hærri“. Þessi tenging er því í alla staði betri.
Þá er endurnýjun tengivirkisins að Vatnshömrum í Borgarnesi ein af forsendum þess að hægt sé að tryggja afhendingaröryggi á Snæfellsnesi þar eð Vegamótalínan liggur frá Vatnshömrum."

Bæjarráð leggur einnig áherslu á að þar til flutningskerfi raforku að og á Snæfellsnesi hefur verið styrkt með viðeigandi aðgerðum, séu gerðar ráðstafanir til að auka og tryggja nægjanlegt varaafl á svæðinu.

Bæjarráð tekur undir lokaorð umsagnar SSV þar sem segir:

"Það er ljóst að nægjanleg orkuframleiðsla og traust afhendingaröryggi á rafmagni er nauðsynleg forsenda þessa að byggðir geti eflst og dafnað. Uppbygging Landsnets á stofn- og svæðislínukerfi á Vesturlandi hefur því mikil áhrif á tækifæri landshlutans til vaxtar og viðgangs."

Bæjarráð samþykkir að senda þessa bókun sem umsögn sína um Kerfisáætlunina.

10.Rarik - Afsal fyrir spennistöð

Málsnúmer 2107003Vakta málsnúmer

Lagt fram afsal RARIK ohf. til Grundarfjarðarbæjar fyrir 77,8% eignarhluta RARIK í aðveitustöð við Borgarbraut 21, Grundarfirði. Um er að ræða hús, lóðarréttindi og girðingu.

Bæjarráð fagnar og þakkar fyrir þennan samning.

11.Umsókn Grundarfjarðarbæjar um styrk til fráveituframkvæmda 2021

Málsnúmer 2104020Vakta málsnúmer

Svarbréf umhverfis- og auðlindaráðuneytis 9. júlí 2021 við tveimur umsóknum bæjar og hafnar um styrki vegna fráveituframkvæmda.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsti nýja styrki til fráveituverkefna sveitarfélaga fyrr á árinu. Þeir eru liður í átaki í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga enda er þörf á verulegri uppbygginu í þessum málaflokki. Styrkirnir teljast liður í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar.

Grundarfjarðarbær sótti annars vegar um styrk vegna blágrænna ofanvatnslausna, þ.e. tvöföldun fráveitukerfis í skólp- og regnvatnslagnir með blágrænum lausnum. Sótt var um styrk vegna regnvatnslagna í formi blágrænna ofanvatnslausna.
Hins vegar var sótt um vegna útrásar á hafnarsvæðinu sem lengd var fyrr á árinu.

Báðar umsóknir voru samþykktar að fullu og með 30% styrkveitingu.

Bæjarráð fagnar þessum styrkjum, m.a. til útfærslu á blágrænum ofanvatnslausnum sem hluta af fráveitukerfi bæjarins.

12.Styrkvegir - Umsóknir um styrk 2021

Málsnúmer 2107002Vakta málsnúmer

Sótt var um styrki til Vegagerðarinnar vegna viðhaldsverkefna vegarins í Kolgrafafirði, til viðgerða við Hrafnsá og vegna vegarins kringum (austan við) Eyrarfjall.
Vegagerðin hefur úthlutað styrk til bæjarins að fjárhæð 7 millj. kr.

Bæjarráð fagnar styrkveitingunni.

13.Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga - Fundargerð 119. fundar stjórnar

Málsnúmer 2107012Vakta málsnúmer

Fundargerð 119. fundar stjórnar Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga lögð fram.

Þar kemur m.a. fram að stjórn FSS veiti heimild til að auglýsa lausar til umsóknar nýjar þjónustuíbúðir fyrir fatlað fólk, sem verið er að byggja í Ólafsvík. Umsóknarfrestur var til 10. júlí um þær, en ekki liggur þó fyrir hvenær starfsemi getur hafist.

14.Creditinfo - Fjölmiðlaskýrsla janúar-júní 2021

Málsnúmer 2107009Vakta málsnúmer

Lögð fram samantekt Creditinfo á fjölmiðlaumfjöllun um Grundarfjörð fyrstu sex mánuði ársins.

15.Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið - Varðandi innheimtu dráttarvaxta af kröfum vegna fasteignaskatta og beiðni um upplýsingar

Málsnúmer 2106030Vakta málsnúmer

Lögð fram fyrirspurn samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá 28. júní sl., sbr. leiðbeiningar ráðuneytisins frá 23. júní sl., um innheimtu sveitarfélaga á dráttarvöxtum vegna fasteignaskatta, í þeim tilvikum þegar skuldari hefur sótt um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara og þar til umboðsmaður hefur tekið afstöðu til umsóknarinnar. Kröfuhöfum er óheimilt að taka við greiðslum á kröfum sínum á því tímabili (greiðsluskjól) og í leiðbeiningum ráðuneytisins er komist að þeirri niðurstöðu að sveitarfélögum sé ekki heldur heimilt að reikna dráttarvexti á kröfur um fasteignaskatta á því tímabili og að þau sérsjónarmið sem eiga við um fasteignaskatta breyti engu þar um.

Einnig lagt fram svar Grundarfjarðarbæjar.
Gengið var frá fundargerð að loknum fundi og hún send nefndarmönnum til rafrænnar samþykktar.

Fundi slitið - kl. 19:12.