Málsnúmer 2102021

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 571. fundur - 14.07.2021

Gestir fundarins undir þessum lið eru Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulags- og byggingarfulltrúi, Valgeir Magnússon verkstjóri áhaldahúss, Halldóra Hreggviðsdóttir hjá Alta og Lilja G. Karlsdóttir hjá VSB sem aðstoðað hafa við hönnun gangstétta/gatna/blágrænna svæða í götum.

Dagskrárliður ræddur samhliða dagskrárliðnum "Malbik 2021".


Rætt var um útfærslu opinna svæða og götusvæða þar sem blágrænar lausnir verða nýttar til að taka við ofanvatni. Í göturýmum, þar sem við á, verður komið fyrir regnbeðum, sem eru mjög gegndræp og hafa það hlutverk að taka við ofanvatni. Regnvatn mun þannig seytla í grænu geirana og græn opin svæði, í staðinn fyrir að fara einungis í fráveitulagnir bæjarins. Með því er létt á fráveitukerfinu til framtíðar, göturými grænkað og ýtt undir frekara umferðaröryggi í leiðinni. Þetta er aðferðafræði sem mikið er beitt erlendis í borgum og bæjum og er farin að ryðja sér til rúms einnig á Íslandi, einkum hjá Reykjavíkurborg, Garðabæ og fleiri stærri sveitarfélögum.

Cowi, verkfræðistofa, hefur reiknað út vatnsmagn og skoðuð hefur verið "lekt" í jarðveginum sem bærinn er byggður á. Reiknað er út hver stærð grænu geiranna þarf að vera í göturýmum, auk grænna opinna svæða, sem ætlað er að taka við ofanvatni. Cowi hefur einnig gert tillögu um hönnun grænu geiranna í göturýmum þeirra gatna sem nú eru að hefjast framkvæmdir við. Farið var yfir þá hönnun, samanber umræðu um gangstéttar/stíga undir dagskrárlið 3.

Hér viku Valgeir, Halldóra og Lilja af fundi og var þeim þakkað fyrir komuna.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 235. fundur - 12.04.2022

Halldóra Hreggviðsdóttir, jarðfræðingur og hagverkfræðingur og ráðgjafi hjá Alta, kynnti hugmyndafræði og útfærslur blágrænna ofanvatnslausna.

Bæjarfulltrúum hafði verið boðið að sitja fund skipulags- og umhverfisnefndar undir þessum síðasta lið á dagskrá, vegna kynningar Halldóru og umræðna að kynningunni lokinni.
Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar Halldóru Hreggviðsdóttur fyrir góða kynningu til upprifjunar á kostum blágrænna ofanvatnslausna.

Gestir

  • Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri - mæting: 18:05
  • Halldóra Hreggviðsdóttir, Alta - mæting: 18:05
  • Valgeir Þór Magnússon, verkstjóri áhaldahúss - mæting: 18:15
  • Rósa Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi - mæting: 18:05