Málsnúmer 2411010

Vakta málsnúmer

Hafnarstjórn - 15. fundur - 05.11.2024

Hafnarstjóri lagði fram til skoðunar og umræðu teikningar (vinnuskjöl) að viðbyggingu við hafnarhúsið, sem hafnarstjórn ræddi á síðasta fundi sínum í tengslum við fjárfestingar ársins 2025.



Stækkun hússins er á hugmyndastigi en væri aðallega hugsuð til að mæta þörfum fyrir aukna þjónustu á hafnarsvæðinu vegna móttöku skemmtiferðaskipa.
Hafnarstjórn fór yfir framlagðar vinnuteikningar og ræddi þær.

Hafnarstjórn mun taka saman helstu forsendur fyrir stækkuninni (þarfagreiningu), sem lið í undirbúningsvinnu. Samþykkt samhljóða.

Til áframhaldandi vinnslu á næsta fundi.

Hafnarstjórn - 16. fundur - 14.11.2024

Til umræðu eru áform um viðbyggingu þjónustuhúss við hús hafnarinnar við Nesveg 2.



Lagðar fram tillöguteikningar af viðbyggingu, unnar af W7 slf., Sigurbjarti Loftssyni.
Teikningarnar sýna mismunandi útfærslur húss, hvað varðar lögun og staðsetningu viðbyggingar, sem yrði um 125 m2 að stærð.
Viðbygging kæmi sunnan við núverandi hafnarhús, en á því svæði er byggingarreitur skv. gildandi deiliskipulagi, sem heimilar stækkun hússins á svæðinu.

Lögð fram frumdrög að þarfagreiningu sem hafnarstjóri hefur sett fram.
Hafnarstjórn fór yfir þær þarfir sem fyrir liggja vegna starfsemi hafnarinnar og kalla á betri aðstöðu, einkum til að þjónusta gesti skemmtiferðaskipa og starfsfólk sem kemur að móttöku skipa og gesta. Um er að ræða salernisaðstöðu, rými fyrir leiðsögumenn, bílstjóra, upplýsingagjöf o.fl.
Stækkun hafnarhúss er þó einnig hugsuð til að mæta þörf fyrir bætta aðstöðu starfsmanna hafnarinnar, vegna aukinna umsvifa en einnig vegna þess að kröfur til slíkrar aðstöðu hafa breyst frá því húsið var reist.

Með byggingu salerna í þjónustuhúsi skapast tækifæri til að hafa almenningssalerni á einum stað og þar með leggja af þá bráðabirgðaaðstöðu v. almenningssalerna, sem sett var upp í samkomuhúsinu 2019.


Hafnarstjórn vann nánar í þarfagreiningu, sem er grunnur og forsendur fyrir ákvörðun um viðbyggingu, stærð hennar og skipulagi.
Einnig fór hafnarstjórn yfir tillöguteikningarnar, sem eru til áframhaldandi vinnslu.

Hafnarstjórn hefur lagt til við bæjarstjórn að þessi viðbygging sé hluti af framkvæmdum Grundarfjarðarhafnar 2025.
Hafnarstjórn leggur til að allt kapp verði lagt á að byggingin rísi á næstu mánuðum og að hægt verði að nota hana, eða mestan hluta hennar, vorið 2025.

Hafnarstjórn - 17. fundur - 10.12.2024

Lagðar fram tillöguteikningar Sigurbjarts Loftssonar, W7, þar á meðal endurbætt teikning dagsett í dag.











Farið yfir framlagða teikningu að viðbyggingu.

Umræður um teikningu og byggingarmál.

Byggingaráform samþykkt skv. teikningu til áframhaldandi vinnslu.

Hafnarstjórn - 18. fundur - 03.02.2025

Farið var yfir stöðu byggingarframkvæmdar - bygging þjónustuhúss, sem er viðbygging við núverandi hafnarhús.



Lagðir fram endurbættir aðaluppdrættir og gluggateikningar.

Lagðir fram minnispunktar hafnarstjóra, með upplýsingum um hönnuði, byggingarstjóra, meistara, byggingarefni o.fl.

Einnig lögð fram tvö tilboð í smíði húseininga (sökklar, veggeiningar og tilheyrandi).



Skipulag og leyfismál:

Fyrir liggur heimild skipulagsfulltrúa til byggingaráforma, en áformin voru kynnt eigendum nærliggjandi húsa í desember sl.

Teikningar:

Farið yfir framlagðar teikningar að viðbyggingu, sem eru nánari útfærsla af teikningum sem lagðar voru fram á síðasta fundi í desember. Frágangi annarra teikninga er að mestu lokið.

Byggingateikningar eru unnar af W7 ehf., hönnunarstjóri er Sigurbjartur Loftsson.

Burðarþolsteikningar og neysluvatns-, loftræsiteikningar, hita- og fráveitulagnateikningar eru unnar af Verkfræðistofu Þráins og Benedikts (Hjörleifur Sigurþórsson), rafmagnsteikningar eru unnar af Rafmagnsverkfræðistofunni Tera slf. Brunahönnun er í vinnslu hjá Gunnari Kristjánssyni hjá Brunahönnun slf.

Hafnarstjórn gerir ekki athugasemdir við framlagða aðaluppdrætti, aðra en eina tillögu um smávægilega breytingu/viðbót á þaki yfir inngangi á vesturhlið (salernishluti). Hafnarstjóri fylgir því atriði eftir.

Teikningar voru sendar til yfirferðar hjá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, á undirbúningsstigi, og komu þaðan gagnlegar ábendingar sem hafðar eru til hliðsjónar við hönnun.

Byggingarstjórnun og eftirlit:

Byggingarstjóri var ráðinn frá Eflu, Fannar Þór Þorfinnsson. Meistarar að verkinu eru, sem búið er að semja við, Eiður Björnsson byggingarmeistari, Guðni Guðnason pípulagningarmeistari, Sigurður Þorkelsson rafvirkjameistari og Eymar Eyjólfsson múrarameistari.

Steinar Þór Alfreðsson, starfsmaður hafnar, verður með daglegt eftirlit á byggingarstigi.

Byggingarefni, framkvæmd, tilboð o.fl.:

Leitað var tilboða í forsteypta sökkla, veggeiningar og tilheyrandi, frá BM Vallá og Steypustöðinni.

Vegna breytinga er veðurkápa á austurhlið tekin niður að gangbraut og á veggjum anddyris á suðurhlið.

Hafnarstjórn samþykkir að taka hagstæðara tilboðinu í húseiningar með veðurkápu, sem er frá BM Vallá. Hafnarstjórn felur hafnarstjóra umboð til að undirrita samning við bjóðanda, BM Vallá, um verkið.

Gerð var verðkönnun um jarðvinnu, sem farin er af stað og langt komin. Tilboði var tekið frá Almennu umhverfisþjónustunni ehf.

Fyrir liggur tilboð í gluggasmíði, frá Gráborg ehf. (Eiður Björnsson), en gluggar verða smíðaðir í Grundarfirði og settir í húseiningar þegar þær hafa verið reistar.

Hafnarstjóri lætur vinna hugmyndir um frágang útisvæða.

Framkvæmdatími:

Jarðvinna er langt komin, púði undir sökkla er tilbúinn.
Uppsetning sökkla er áætluð að geti orðið fyrir miðjan febrúar, fer eftir veðri, en "púði" er tilbúinn.
Uppsetning húseininga er áætluð í fyrri hluta marsmánaðar.

Gert er ráð fyrir að húsið verði tilbúið til notkunar, a.m.k. salernishlutinn, í byrjun komandi sumars.

Umboð:

Með hliðsjón af framangreindu og í samræmi við fjárhagsáætlun ársins, felur hafnarstjórn hafnarstjóra umboð til að ganga til samninga um smíði húseininga, gluggasmíði, hönnun og aðra verkþætti sem tilheyra byggingunni. Samþykkt samhljóða.