31. fundur 10. nóvember 2021 kl. 20:00 - 21:45 á fjarfundi
Nefndarmenn
  • Sigurrós Sandra Bergvinsdóttir (SSB)
  • Linda María Nielsen (LMN)
  • Ólöf Guðrún Guðmundsdóttir (ÓGG)
  • Guðmundur Pálsson (GP)
  • Sigurborg Knarran Ólafsdóttir (SKÓ)
Starfsmenn
  • Þuríður Gía Jóhannesdóttir (ÞGJ) starfsmaður
Fundargerð ritaði: Þuríður Gía Jóhannesdóttir Starfsmaður menningarnefndar
Dagskrá
Fundurinn er haldinn í gegnum fjarfundarbúnað. Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Rökkurdagar 2021

Málsnúmer 2109012Vakta málsnúmer

Rökkurdagar 2021 voru haldnir vikuna 25.- 31. október sl. Ýmsir viðburðir voru á dagskrá þessa vikuna sem hentuðu bæði ungum sem öldnum.
Hinir árlegu Rökkurdagar fóru fram í vikunni 25. - 31. október 2021.

Leikskólinn Sólvellir setti upp listasýningu sína í glugga Bókasafnsins. Sögumiðstöðin var vel nýtt undir viðburði og má þar nefna, handavinnu eldri borgara, Molakaffi á miðvikudegi, Kvenfélagið hélt sinn árlega haustmarkað og bíókvöld. Græna Kompaníið var með upplestur fyrir börnin, kósý prjónakvöld og hélt utan um hrekkjavöku hitting á starfsstað sínum.

Krabbameinsfélagið Von í Grundarfirði stóð fyrir ljósagöngu í minningu þeirra sem fallið hafa frá.

Þá var einnig boðið upp á fjölskylduratleik, fjölskyldufótbolta í íþróttahúsinu, pub quiz og ball á Kaffi 59.

2.Jólaundirbúningur 2021

Málsnúmer 2111015Vakta málsnúmer

Farið yfir undirbúning viðburða menningarnefndar fyrir aðventuhátíðina 2021.
Menningarnefnd fór yfir hugmyndir af viðburðum sem halda skal á aðventunni.

Þar á meðal er hin árlega jólamyndasamkeppni, í ár verður óskað eftir þátttöku barna í grunn- og leikskóla Grundarfjarðarbæjar í að útbúa jólamynd ársins 2021.

Jólahús Grundarfjarðar hefur verið fastur liður á aðventunni og verða verðlaun veitt fyrir fallegasta jólahúsið þann 22. desember 2021.

Aðventugluggarnir slógu í gegn á síðasta ári og ákveðið hefur verið að halda því verkefni áfram. Þuríði Gíu er falið að auglýsa eftir þátttakendum í það verkefni.

Jólalögin áttu sinn stað í aðventuundirbúning árið 2020. Ákveðið var að halda þessu verkefni áfram og er Þuríði Gíu falið að auglýsa eftir áhugasömum einstaklingum sem vilja taka þátt í þessu verkefni og ljá sína rödd.

Einnig var farið yfir ljósmyndasamkeppnina, þar sem þema ársins er "Litagleði". Skilafrestur mynda er til 20. nóvember. Linda María og Guðmundur Pálsson, ásamt Þuríði Gíu munu fara yfir innsendar myndir þann 24. nóvember n.k og fá með sér útvalinn dómara við val á mynd ársins 2021. Verðlaun fyrir ljósmynd ársins verða veitt á aðventudegi Kvenfélagsins Gleym mér ei þann 28. nóvember 2021.

Haldinn var opinn fundur, þar sem íbúum var boðið að taka þátt í umræðum um aðventuundirbúning. Margar góðar hugmyndir komu fram á þessum fundi sem teknar verða til skoðunar og framkvæmdar.

3.Menningarverkefni 2022

Málsnúmer 2111016Vakta málsnúmer

Opið er fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Vesturlands til og með 17. nóvember 2021.
Um er að ræða styrki til atvinnuþróunnar og nýsköpunar, verkefnastyrki til menningarmála og stofn- og rekstrarstyrki til menningarmála.
Menningarnefnd fer yfir fyrirhugaðar umsóknir í Uppbyggingarsjóð.
Skönnun á ljósmyndasafni Bærings hefur gengið mjög vel. Um mikinn fjölda mynda er að ræða þar sem Bæring hafði unun af því að taka myndir og var ötull í að mynda hina helstu viðburði í bænum.

Nefndin leggur til að sótt verði um framhaldsstyrk í þetta verkefni, skönnun ljósmynda, þar sem mikill fjársjóður og saga liggur að baki þessara mynda.

Menningarnefnd telur mikilvægt að sótt sé um styrki og hvetur íbúa Grundarfjarðarbæjar og félagasamtök að sækja um í sjóðinn.
Fundargerð var send til nefndarmanna til rafrænnar samþykktar að fundi loknum. Fundarmenn sendu staðfestingu á fundargerð í tölvupósti.

Fundi slitið - kl. 21:45.