Ragnheiður Agnarsdóttir, mannauðsráðgjafi, sat fundinn undir þessum lið.
Í kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gerðir voru á árinu 2020 var gert tímamótasamkomulag um styttingu vinnutíma starfsfólks. Markmið styttingar vinnutímans er að bæta lífskjör og auðvelda samræmi á milli vinnu og einkalífs. Styttingin hefur einnig það að markmiði að bæta vinnustaðamenningu og auka skilvirkni og þjónustu. Hún byggir á gagnkvæmum sveigjanleika og getur þannig stuðlað að bættum lífskjörum. Lagt var upp með að styttingin myndi hvorki skerða þjónustu né fela í sér kostnaðarauka fyrir viðkomandi sveitarfélag.
Grundarfjarðarbær kom á fót vinnutímanefnd með fulltrúum stofnana bæjarins. Í framhaldinu fór af stað vinna á stofnunum, gerðar voru tillögur að útfærslu og fyrirkomulagi, kosið um þær og þær sendar stjórnendum til umræðu.
Mikill áhugi var á því meðal starfsfólks að ná fram 36 klst. virkri vinnuviku, þ.e. að stytta vinnuvikuna um allt að 4 klst. á viku. Í þeirri útfærslu felst að starfsfólk afsali sér forræði yfir matar- og kaffitímum, en því séu eftir sem áður tryggð nauðsynleg neysluhlé. Einnig var meirihluti starfsfólks áhugasamur um að safna styttingunni upp í lengri tíma, t.d. innan mánaðar.
Bæjarráð þakkar það góða starf sem starfsfólk og stjórnendur hafa unnið á síðustu vikum, til að kanna möguleikann á því að útfæra fulla styttingu vinnuvikunnar, án þess að það leiði til kostnaðarauka eða þjónustuskerðingar.
Að teknu tilliti til þeirra fjölmörgu sjónarmiða sem komið hafa fram í samtali um styttingu vinnuvikunnar, leggur bæjarráð til að frá 1. janúar 2021 verði vinnutími starfsfólks Grundarfjarðarbæjar fyrir 100% starf styttur um 30 mínútur á dag eða 2,5 klst. á viku og að mögulegt sé að safna þeirri styttingu upp innan mánaðar. Starfsfólki sé áfram tryggt 20 mínútna kaffihlé á dag og að það sé á forræði starfsfólks. Virkur vinnutími starfsfólks í 100% starfi verður því 36 klst. á viku. Nánari útfærsla á vinnutímastyttingu sé í höndum starfsfólks og stjórnenda á hverri starfsstöð fyrir sig og taki mið af þeim tillögum sem liggja fyrir og kosið hefur verið um á flestum starfsstöðvum.
Bæjarráð telur að þessi viðmið um útfærslu séu mikilvægt fyrsta skref í þá átt að ná fram markmiðum samkomulagsins um styttingu vinnuvikunnar. Mikilvægt er að tryggja jafnræði á sama tíma og hver vinnustaður hefur frelsi til útfærslu á styttingu í nærumhverfi sínu, líkt og samkomulagið gerir ráð fyrir.
Fyrirkomulag þetta skal endurmetið í maí 2021 með tilliti til markmiða, þ.e. að fyrirkomulagið hafi jákvæð áhrif á vinnumenningu, starfsánægju starfsfólks og leiði ekki til kostnaðarauka fyrir sveitarfélagið eða þjónustuskerðingar fyrir íbúa. Verði þeim markmiðum náð á öllum vinnustöðum Grundarfjarðarbæjar, myndast forsendur til þess að ganga lengra í útfærslu á styttingu vinnudagsins, t.d. með því að gera neysluhlé að fullu sveigjanleg og að þau verði á forræði vinnuveitenda.
Samþykkt samhljóða.
Gestir
Ragnheiður Agnarsdóttir - mæting: 12:00
2.Fellaskjól - Sala og dreifing á hádegismat utan Fellaskjóls
Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól hefur ákveðið að hækka verð á matarskömmtum sem seldir eru út til eldri borgara, úr 850 kr. í 1.000 kr. skammtinn frá 1. janúar 2021, en gjaldið hefur verið óbreytt síðan árið 2012.
Bæjarráði þykir hækkun á matarskömmtum koma heldur seint fram, þar sem búið er að samþykkja fjárhagsáætlun næsta árs.
Lagt er til að Grundarfjarðarbær selji eldri borgurum matarskammtinn á 900 kr. og niðurgreiði hvern matarskammt þar með um 100 kr. Áætluð niðurgreiðsla á matarskömmtum fyrir eldri borgara er um 200-300 þús. kr. á árinu 2021 og yrði annar kostnaður lækkaður á móti.
Samþykkt samhljóða.
3.Ungmennafélag Grundarfjarðar - aðstaða fyrir rafíþróttir
Ungmennafélag Grundarfjarðar (UMFG) hefur óskað eftir því við Grundarfjarðarbæ að fá aðgang að húsnæði þar sem hægt væri að þjálfa og æfa rafíþróttir. Mikið hefur verið leitað að húsnæði og var fyrst talið að kjallari að Grundargötu 30 væri besti kosturinn. Eftir skoðun á loftræstingu og neyðarútgöngum kom í ljós að húsnæðið hentar ekki.
Eftir skoðun á öðru húsnæði bæjarins var talið að húsnæði félagsmiðstöðvar, að Borgarbraut 18, myndi henta vel fyrir rafíþróttir og annað húsnæði fundið fyrir félagsmiðstöð. Íþrótta- og æskulýðsnefnd, bæjarstjóri, formaður bæjarráðs og forstöðumaður félagsmiðstöðvar hafa farið yfir málið með skólastjóra grunnskólans, en grunnskólinn getur hýst félagsmiðstöð, til reynslu á vorönn. Skólastjóri grunnskólans og forstöðumaður félagsmiðstöðvar munu í byrjun árs 2021 gera með sér frekara samkomulag. Að reynslutíma liðnum yrði framhaldið ákveðið.
Bæjarráð felst á ofangreint fyrirkomulag, að Borgarbraut 18 standi UMFG til boða fyrir rafíþróttir og að félagsmiðstöð verði flutt í grunnskólann til reynslu.