Hafnarstjórn ræddi um deiliskipulagsmál á hafnarsvæði.
Brýn þörf er á að endurskoða deiliskipulag Framness austan Nesvegar og ljúka deiliskipulagi á svæðinu á og við Norðugarð.
Breyta þarf stærð og fyrirkomulagi lóða á nýju uppfyllingunni austan Nesvegar, hanna þarf framtíðarlegu vegar sem liggur yfir á hafnarsvæðið í beinu framhaldi af Bergþórugötu og ákveða legu lagna á svæðinu. Auk þess þarf að gera ráð fyrir og setja niður fyrirkomulag á um 800 metra göngustíg sem liggja mun frá enda Norðurgarðs, að Torfabót, meðfram grjótvörninni. Til að þetta sé unnt þarf að endurskoða deiliskipulag svæðisins og gera ráð fyrir breytingum.
Rætt um hvar rétt sé að mörk deiliskipulagssvæðis liggi, taka þarf Norðurgarð með í deiliskipulagið og mögulega Miðgarð og hafnarvog.
Nauðsynlegt er að huga að tengingum hafnarsvæðis við nærliggjandi svæði.
Bæjarstjórn hefur samþykkt tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um að skoða gerð deiliskipulags fyrir hluta Framness, m.a. inná hafnarsvæðið, í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar 2021 og umræðu um aðalskipulagsmál.
Með lengdum Norðurgarði og nýrri landfyllingu á austanverðu Framnesi, auk nýrra umferðartenginga á Framnesi, Bergþórugötu og væntanlegrar áframhaldandi tengingar norður hafnarsvæðið, skapast ný tækifæri á svæðinu. Stærri skip munu geta athafnað sig í Grundarfjarðarhöfn og landsvæði skapar nýja möguleika. Eitt af því sem einnig þarf að leysa, er umferð gangandi fólks á svæðinu, m.a. gesta skemmtiferðaskipa.
Gert er ráð fyrir að gönguleið frá Torfabót og meðfram Framnesinu, liggi áfram meðfram sjóvarnargarði yfir nýja landfyllingu og út eftir Norðurgarði, bak við byggingar sem staðsettar eru á Norðurgarði. Um er að ræða ca. 800 metra strandleið, sem býður einstaka upplifun, með útsýni til hafs og strandar, til Kirkjufellsins og yfir fjallgarðinn allt í kring.
Rætt var um þær áskoranir sem huga þarf að í skipulagsmálum á svæðinu til framtíðar. Ennfremur lagðar línur um sameiginlegan skilning á verkefnislýsingu, sem send verður í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, og nær að hluta til inná hafnarsvæðið. Skipulagsráðgjafar eru bæ og höfn til aðstoðar við skilgreiningu þess verkefnis.