Bæjarstjóri fór yfir breytingar á lögum um málefni aldraðra og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga hvað varðar öldungaráð. Rætt var um hlutverk ráðsins og verkefni.
Fram fór kosning formanns og varaformanns ráðsins.
Ragnheiður Sigurðardóttir tók að sér formennsku og Sunneva Gissurardóttir tók að sér varaformennsku í öldungaráði.
Rætt var um helstu helstu verkefni bæjarins, þjónustu og hagsmunamál sem snúa að eldri íbúum.
- Bæjarstjóri rifjaði upp þau hagsmunamál sem verið hafa á borði öldungaráðs á síðustu árum, en mörg þeirra hafa fengið góðan framgang. Hún fór yfir ýmis mál sem eru í gangi hjá Grundarfjarðarbæ um þessar mundir sem snúa að eldri borgurum, svo sem snjómokstri á stígum og götum, félagsþjónustu, matarsendingar eldri íbúa, heilsueflingu og fleira.
- Ingveldur Eyþórsdóttir hjá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga kom inn á fundinn og kynnti verkefni sem unnið er að á Vesturlandi undir fyrirsögninni „Gott að eldast“. Aldurssamsetning þjóðarinnar breytist nú hratt. Eldra fólk lifir lengur en áður og er virkara og hraustara en nokkru sinni fyrr. Þjónusta við eldra fólk þarf að þróast í takt við þetta. Mikilvægt er að hafa virkt samstarf á milli ríkis og sveitarfélaga, milli stofnana sem koma að þjónustu við eldri íbúa. Verkefnið "Gott að eldast" snýst um samstarf stofnana á Vesturlandi og hvernig taka megi utan um málefni og þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti. Grunnhugsunin er sú að eldra fólk sé ekki byrði á samfélaginu heldur hefur það ótvírætt virði, eins og segir í verkefnislýsingu.
Sjá nánar á vefnum https://island.is/lifsvidburdir/ad-eldast
- Ingveldur svaraði ýmsum fyrirspurnum um verkefnið og um félagsþjónustu og þjónustu við aldraða, á vegum FSS.
Vék hún síðan af fundi og var henni þakkað fyrir upplýsingarnar.
- Olga fór yfir samantekt sína um félagsstarf aldraðra, en Olga er í hlutastarfi hjá Grundarfjarðarbæ sem tengiliður vegna málefna eldri borgara og stendur m.a. að vikulegri samkomustund í Sögumiðstöðinni á miðvikudögum. Allir eru velkomnir, en einkum er höfðað til þess að eldra fólk hittist og eigi notalega samverustund. Olga fór einnig yfir annað félagsstarf sem fram fer í Sögumiðstöðinni. Bæjarstjóri rifjaði upp hugmyndafræði hússins og þeirra breytinga sem þar hafa verið gerðar og þeirra sem eru á döfinni.
- Rætt um heilsueflingu 60 ára og eldri og þeirra sem búa við örorku, en Félag eldri borgara í Grundarfirði er í forsvari fyrir verkefnið, með stuðningi Grundarfjarðarbæjar, sem m.a. greiðir allan húsnæðis- og leigukostnað vegna þess. Skipulagðir eru fjórir íþróttatímar í viku, tveir í íþróttahúsinu og tveir í Líkamsrækt Grundarfjarðar. FEBG ræður þjálfara og hefur að hluta til fengið styrki út á starfsemina. Mikil ánægja er með verkefnið.
- Rætt um aðgengi og snjómokstur og mikilvægi hans fyrir eldra fólk, bæði gangandi og akandi. Rætt um fyrirkomulag til að auka öryggiskennd fólks þegar snjór er mikill og álag vegna snjómoksturs. Til frekari skoðunar.
Gestir
Ingveldur Eyþórsdóttir hjá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga - mæting: 11:35
Heilsuefling 60 ára og eldri og þeirra sem búa við örorku er verkefni sem Félag eldri borgara í Grundarfirði er í forsvari fyrir og Grundarfjarðarbær styrkir. Sameinað í umræðum undir dagskrárlið 3.
Gengið er frá fundargerð í kjölfar fundar og rafræns samþykkis aflað frá fundarfólki.
Guðbjörg Jóhanna er fulltrúi heilsugæslu í ráðinu (Heilbrigðisstofnun Vesturlands).
Ólafur Ólafsson íþrótta- og tómstundafulltrúi verður starfsmaður ráðsins.