Í Sögumiðstöðinni er verkefni í vinnslu sem Ingi Hans Jónsson heldur utan um. Breyta á rýmum hússins og gera þar betri aðstöðu fyrir félags- og menningarstarf margvíslegt.
Í lok febrúar sl. fór menningarnefnd að skoða aðstæður og leist vel á þær breytingar sem hafa átt sér stað. Í Sögumiðstöðinni eiga hópar og félagasamtök að geta haft greiðan aðgang og fastan samastað í nýrri aðstöðu.
Í þessu ferli verður seinna meir sett upp ný sýning, þar sem hægt verður að bóka tíma og fá leiðsögn í gegnum sýninguna.
Bókasafnið hefur einnig grisjað vel til og er nú alfarið flutt yfir í vestari helming hússins.
Menningarnefnd lýsir ánægju með þær breytingar sem eru að verða í húsinu, en óskar eftir upplýsingum um hversu margir geta verið í húsinu og rýmum þess eftir breytingar.
Ákvörðun um þema ljósmyndasamkeppni Grundarfjarðarbæjar árið 2021.
Ljósmyndasamkeppni Grundarfjarðarbæjar verður haldin í 12. sinn í ár.
Þema keppninnar í ár er "Litagleði".
Sigurvegarar keppninnar árið 2020 voru, í 1. sæti Olga Sædís Aðalsteinsdóttir, í 2. sæti var Olga Sædís Einarsdóttir og í 3. sæti var Salbjörg Nóadóttir. Þeim voru færð verðlaunin heim í lok nóvember sl. þar sem aðventudagur Kvenfélagsins var ekki haldinn í desember sl. Menningarnefnd óskar þeim innilega til hamingju með verðlaunin. Í dómnefnd voru Eygló formaður og Ólöf Guðrún úr menningarnefnd, auk Lúðvíks Karlssonar meðdómara, sem nefndin þakkar fyrir samstarfið.
Rúmlega 90 myndir bárust í keppnina á sl. ári og þakkar menningarnefnd öllum ljósmyndurum fyrir þátttökuna og sýndan áhuga.
Almenn umræða um menningarstarf Grundarfjarðarbæjar síðustu mánuði, á tímum Covid.
Farið var yfir menningarstarf liðins árs. Sökum Covid-19 var ekki hægt að halda úti hefðbundnu menningarstarfi en ýmsar nýjungar spruttu upp, þar sem hugsa þurfti í lausnum.
Rökkurdagar - menningarhátíð Hinir árlegu Rökkurdagar fóru fram með breyttu sniði. Haldnar voru listsýningar utandyra og voru íbúar hvattir til þess að fara í göngu og huga að heilsunni. Stærsti þátturinn á Rökkurdögum voru "Rökkurlögin". Leitað var með þátttöku til nokkurra heimamanna, sem bæði eru vanir og óvanir söngvarar. Lögin voru tekin upp í Sögumiðstöðinni og send út á netinu. Þetta heppnaðist með eindæmum vel. Menningarnefnd vill þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessu verkefni og gerðu þetta að veruleika.
Jólalögin á aðventu Vegna samkomutakmarkana var ekki hægt að halda jólatónleika og standa að viðburðum á aðventu, eins og oft áður. Því leitaði menningarnefnd eftir samstarfi við Listvinafélag Grundarfjarðarkirkju. Það samstarf skilaði sér í fimm tónleikum sem sendir voru út hvern sunnudag á aðventu. Þar var einnig leitað til heimamanna sem sungu okkur inn í jólin og hægt var að njóta ljúfu tónanna heima. Enn er hægt að hlýða á fallegu tónana á Youtube-rás Grundarfjarðarbæjar. Öllum þeim sem tóku þátt í þessu verkefni eru færðar kærar þakkir; söngvurum, Listvinafélaginu, Þorkeli Mána hljóðmanni og upptökustjóra og fulltrúum í menningarnefnd.
Jólagluggarnir Grundarfjarðarbær stóð að spennandi nýjung á aðventunni og fékk til liðs við sig fólk og fyrirtæki í bænum til að bjóða uppá skreytta jólaglugga. Frá 1. til 24. desember voru "opnaðir" eða afhjúpaðir jólagluggar, einn gluggi á dag eins og í jóladagatali. Þetta voru gluggar hér og þar í bænum, hjá stofnunum bæjarins, í fyrirtækjum og á öðrum vinnustöðum. Hver og einn réð sinni skreytingu, en þemað var að sjálfsögðu jólin og dagsetning hvers dags. Mynd var sett á vef/Facebook bæjarins þannig að fólk gæti giskað og farið í göngu til að leita að jólaglugganum. Að kvöldi hvers dags var síðan upplýst hvar gluggi dagsins væri. Með þessu var efnt til þátttöku margra bæjarbúa og íbúar einnig hvattir til að taka sér göngu í bænum og skoða fallegt handverk húseigendanna. Íbúar á öllum aldri gátu notið. Menningarnefnd þakkar öllum þátttakendum fyrir sitt framlag til þessa skemmtilega verkefnis.
Jólakort og jólahús Menningarnefnd efndi til samkeppni um fallega skreytt jólahús á aðventunni og valdi hús Elínar H. Ottósdóttur og Kristins Ólafssonar, að Fagurhólstúni 5 sem jólahúsið 2020.
Ekki var næg þátttaka í piparkökuhúsakeppni sem efnt var til og féll hún niður.
Jólakort Grunnskólans var á sínum stað, nemendur teiknuðu jólamyndir og valin var mynd tveggja drengja í 2. bekk sem jólakort Grundarfjarðar 2020. Bæjarstjóri færði drengjunum viðurkenningu að morgni aðfangadags.
Menningarnefnd vill færa Grundarfjarðarkirkju og sóknarnefnd Setbergsprestakalls sérstakar þakkir fyrir að bregðast hratt við breyttum aðstæðum og halda úti vefathöfnum kirkjunnar, með miklum gæðum í tónlist og hljómgæðum.
Aðventudagur Kvenfélagsins Gleym-mér-ei hefur verið fastur liður í menningarlífi í upphafi aðventunnar hjá okkur. Kvenfélagi leysti málin skemmtilega þegar ekki var hægt að halda daginn með hefðbundnu sniði og færði leikfangahappdrættið í beina vefútsendingu.
4.Byggðasafn Snæfellinga - Öndvegisstyrkur úr Safnasjóði 2020
Eygló Bára formaður menningarnefndar hefur tekið þátt í undirbúningi nýrrar grunnsýningar Byggðasafns Snæfellinga í Norska húsinu. Ný grunnsýning er gerð á 10-20 ára fresti.
Eygló sagði frá vinnu á vegum Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla um nýja grunnsýningu í Norska húsinu, sem hún hefur tekið þátt í.
Eygló sagði einnig frá því að nú sé í undirbúningi að yfirfara menningarstefnu Vesturlands. SSV fer af stað með fundaherferð til að leita efniviðar og hugmynda við mótun stefnunnar. Eygló hefur tekið þátt f.h. Grundarfjarðarbæjar í fundi til undirbúnings þessari vinnu.