556. fundur
28. september 2020 kl. 16:30 - 20:14 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
Rósa Guðmundsdóttir (RG)formaður
Sævör Þorvarðardóttir (SÞ)
Jósef Ó. Kjartansson (JÓK)
Aðalmaður: Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS)
Björg Ágústsdóttir (BÁ)bæjarstjóri
Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS)skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði:Björg Ágústsdóttirbæjarstjóri
Dagskrá
Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.
Formaður lagði til að bætt yrði við, með afbrigðum, dagskrárlið um vinnu við styttingu vinnuvikunnar hjá Grundarfjarðarbæ. Liðurinn verður nr. 4 á dagskránni og færist lokaliður dagskrár aftar sem því nemur. Samþykkt samhljóða.
Unnið hefur verið að endurskoðun fjárhagsáætlunar 2020. Lögð er fram útkomuspá vegna ársins 2020 ásamt samanburði við upphaflega fjárhagsáætlun ársins og sundurliðun niður á deildir.
Jafnframt lagt fram yfirlit yfir stöðu eignfærðra fjárfestinga.
Áætlað tekjutap A-hluta, miðað við upphaflega áætlun ársins, er ríflega 40 millj. kr. og munar þar mest um lækkun á áætluðum tekjum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, eða um rúmar 30 millj. kr.
Bæjarráð ítrekar fyrri bókanir bæjarráðs og bæjarstjórnar og lýsir vonbrigðum sínum með lækkun tekna bæjarins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, enda standa þær tekjur undir mikilvægri lögskyldri grunnþjónustu sveitarfélagsins.
Tekjutap A- og B-hluta er gróflega áætlað rúmlega 50 millj. kr. að lágmarki. Útsvarstekjur eru háðar mikilli óvissu, einkum vegna þess hve haldlitlar upplýsingar sveitarfélagið fær um samsetningu og þróun útsvarstekna. Á árinu hafði bæjarstjórn samþykkt viðauka, einkum fjárfestingu, uppá um 50 millj. kr., m.a. sem viðbrögð við áhrifum Covid-19.
Áætlað tekjutap og viðbótarfjárfesting, umfram upphaflega áætlun, gera því samtals yfir 100 millj. kr. lakari niðurstöðu samstæðunnar (rekstur og fjárfestingar) en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir.
Eftir yfirferð á fjárhagsstöðu og fjárhagsáætlun ársins 2020, eru gerðar tillögur um endurskoðun/breytingar á rekstrarhluta, sem færðar verða í viðauka við fjárhagsáætlun ársins og lagðar fyrir bæjarstjórn. Með breytingunum er dregið úr rekstrargjöldum, til að mæta rekstrarhalla sem við blasir, sbr. það sem fyrr segir um áætlað tekjutap.
Eins og staðan lítur út eftir þá yfirferð er rekstrarniðurstaða A- og B-hluta áætluð um 15 millj. kr. lakari en upphafleg áætlun (rekstur, ekki fjárfestingar). Sú niðurstaða er þó miklum fyrirvörum háð, eins og áður sagði, einkum vegna óvissu um þróun útsvarstekna það sem eftir er ársins.
Einnig var farið yfir stöðu eignfærðra fjárfestinga og mat lagt á svigrúm til lækkunar þeirra, út frá upphaflegri fjárhagsáætlun.
Vinnu við þessa yfirferð og endurskoðun fjárhagsáætlunar ársins verður framhaldið fram að fundi bæjarstjórnar.
---
Í tengslum við þessa yfirferð er lagt til það verklag, að öll aukning í stöðugildum, héðan í frá, verði lögð fyrir bæjarráð til afgreiðslu, jafnvel þó svo fyrir þeim séu heimildir í fjárhagsáætlun ársins.
Samþykkt samhljóða.
Bæjarráð færir forstöðumönnum þakkir fyrir þessa yfirferð áætlunarinnar.
Skrifstofustjóri vék af fundi undir þessum lið, kl. 17:45.
Farið yfir vinnuskjal með tillögum Haraldar Líndal Haraldssonar úr úttekt hans á fjármálum, rekstri og stjórnsýslu Grundarfjarðarbæjar, sem hann vann að beiðni bæjarstjórnar.
Tillögurnar snúa að gagnaöflun vegna fjárhagsáætlunar 2021 og því að koma á stefnumiðaðri fjármálastjórn til næstu ára. Í því felst að setja markmið um helstu lykilvísa í rekstri.
Samþykkt að undirbúa vinnu í samræmi við þessar tillögur. Bæjarstjóra og skrifstofustjóra falið að skoða betur þær tillögur sem bæjarráð fór yfir í vinnuskjali fundarins.
Bæjarráð mun vinna áfram að skoðun og úrvinnslu tillagnanna.
Grundarfjarðarbær fékk styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppsetningar á skiltum um öryggismál, í samræmi við markaða skiltastefnu.
Lögð fram tillaga að uppsetningu tveggja upplýsinga- og fræðslu/öryggisskilta, vestan og austan megin þéttbýlis, í stað þeirra sem fyrir eru.
Bæjarstjóra falið að vinna áfram að útfærslu á skiltum og gerð þeirra. Bæjarráð samþykkir breytta staðsetningu skiltis austan byggðar, en að sú staðsetning verði borin undir Grundarfjarðarhöfn og skipulags- og umhverfisnefnd.
Formaður lagði til að bætt yrði við, með afbrigðum, dagskrárlið um vinnu við styttingu vinnuvikunnar hjá Grundarfjarðarbæ. Liðurinn verður nr. 4 á dagskránni og færist lokaliður dagskrár aftar sem því nemur. Samþykkt samhljóða.
Skrifstofustjóri sat fundinn undir dagskrárlið 1.