Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-júlí 2024.
Bæjarráð - 624Skv. yfirlitinu hefur greitt útsvar hækkað um 4,4% miðað við sama tímabil í fyrra.
Lögð fram tillaga að afskrift viðskiptakrafna að fjárhæð 48.354 kr. vegna afskráðrar eignar úr bókum sýslumanns sem unnið hefur verið að af hálfu bæjarins að fá í gegn.
Bæjarráð - 624Tillaga um afskrift viðskiptakrafna að fjárhæð 48.354 kr. samþykkt samhljóða.
Lögð fram gögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um gjaldfrjálsar skólamáltíðir.
Bæjarráð - 624Fyrir liggur ákvörðun bæjarstjórnar og bæjarráðs um að nemendur Grunnskóla Grundarfjarðar eigi kost á gjaldfrjálsum hádegisverði frá og með byrjun skólaársins 2024-2025.
Fyrr í sumar samþykkti Alþingi frumvarp innviðaráðherra um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem heimilar Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að greiða framlög til sveitarfélaga sem bjóða upp á skólamáltíðir.
Gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru liður í aðgerðum stjórnvalda til að styðja við nýgerða langtímakjarasamninga á vinnumarkaði og leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks.
Fyrir fundinum liggur tölvupóstur Sambands íslenskra sveitarfélaga sem og yfirlit um aðkomu Jöfnunarsjóðs að verkefninu fyrir þau sveitarfélög sem taka þátt. Í tölvupósti Sambandsins kemur fram að um er að ræða gjaldfrjálsan hádegisverð.
Viðbótarkostnaði sem af verkefninu hlýst fyrir Grundarfjarðarbæ er vísað til viðauka við fjárhagsáætlun.
Bæjarráð áréttar fyrri ákvörðun um að veita nemendum Grunnskóla Grundarfjarðar gjaldfrjálsan hádegisverð. Áfram verður boðið upp á gjaldfrjálsan hafragraut í grunnskólanum að morgni dags.
Gestir undir þessum dagskrárlið, vegna umræðu um áningarstað við Kirkjufellsfoss, eru Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulagsfulltrúi og Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hjá Landslagi ehf.
Bæjarráð - 624Bæjarstjóri kynnti fyrirhugaða verðkönnun um framkvæmdir við uppsetningu stiga og palla austanvert við Kirkjufellsfoss. Um er að ræða hluta af framkvæmdum við uppbyggingu áningarstaðarins og fyrir styrkfé úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Þráinn kynnti hönnun á svæðinu, sem unnið hefur verið með og landeigendur hafa þegar samþykkt.
Uppi hefur verið álitaefni um hverskonar stál ætti að nota í palla og handrið. Hönnunin gerir ráð fyrir að notað sé svart stál í palla og handrið, enda er það algengast í hönnun á sambærilegum stöðum.
Verkís hefur lagt fram ábendingar um að galvaniserað stál skuli nota í palla og handrið, skv. tæringarflokki 4 sbr. kafla 8.4. í byggingarreglugerð, þar sem svart stál kunni að tærast hraðar vegna nálægðar við seltu frá sjó.
Bæjarstjóri hafði leitað álits hjá HMS.
Við skoðun á þessu atriði hefur líka verið bent á grein 6.11.7. í byggingarreglugerð, um þjónustukjarna, sem segir að slíkar byggingar og mannvirki skuli hanna þannig að þau falli sem best að umhverfi sínu hvað varðar útlit, efnisval, litaval o.fl. nema skipulagsskilmálar kveði á um annað.
Þráinn fór yfir málið og sýndi dæmi um efnisnotkun á öðrum áningarstöðum, s.s. Saxhól, Svalþúfu, við Goðafoss, við hafnarbakkann í Hafnarfirði o.fl.
Einnig rætt um lit á steypu í steyptum pöllum við fossinn og svaraði Þráinn spurningum bæjarráðs um það.
Þráni var þakkað fyrir komuna og góða kynningu og yfirgaf hann fundinn.
Bæjarráð samþykkir að gengið sé út frá hönnunarforsendum Landslags og notað svart stál í grindur og handrið. Einnig óskar bæjarráð eftir því að notuð sé dekking á steypu, þannig að steyptir pallar falli betur að umhverfi sínu.
Sigurður Valur yfirgaf fundinn og var honum þakkað fyrir komuna.
---
Rætt um göngustíg frá þéttbýli vestanverðu og að Kirkjufellsfossi sem þörf er á.
Fyrir liggur greinargerð frá 2020 um valkosti við legu göngustígs á þessari leið og um kostnað. Stígurinn lægi að mestu í gegnum land jarðarinnar Kirkjufells.
Bæjarráð leggur til að vinnu verði haldið áfram við að draga fram möguleika um legu slíks göngustígs. Fyrirhugað er samtal við landeigendur og aðra hagsmunaaðila.
Lögð fram drög að reglum Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga (FSS) um notendaráð málefna fatlaðs fólks á Snæfellsnesi.
Bæjarráð - 624Bæjarráð samþykkir drög að reglum um notendaráð málefna fatlaðs fólks á Snæfellsnesi.
Lagt fram bréf landeigenda í Hömluholti, með spurningum varðandi umsókn um að Snæfellsnes verði UNESCO vistvangur (Man and Biosphere).
Bæjarráð Snæfellsbæjar tók erindið fyrir þann 14. ágúst sl. og er svör að finna í bréfi Snæfellsbæjar, sem lagt er undir þennan fund.
Lögð fram drög svörum bæjarráðs Grundarfjarðarbæjar til fyrirspyrjenda.
Bæjarráð - 624Bæjarráð samþykkir að senda svarbréf til fyrirspyrjanda í samræmi við drög að svarbréfi sem fyrir fundinum liggur.
Lagt fram bréf Héraðssambands Snæfellsness- og Hnappadalssýslu (HSH), dags. 25. júní sl., ásamt greinargerð, varðandi rafmagn á svæði Skotfélags Snæfellsness í Kolgrafarfirði.
Bæjarráð - 624Rætt um málið.
Bæjarstjóri gerði grein fyrir málinu og samtölum við RARIK og við Skotfélagið um rafmagn á svæðið á undanförnum árum.
Bæjarráð hefur skilning á aðkallandi þörf fyrir rafmagn í takt við kraftmikla uppbyggingu á svæðinu. Ljóst er þó að lagning rafstrengs á svæðið er kostnaðarsöm.
Bæjarráð er að sjálfsögðu tilbúið til samtals við HSH um málið.
Bæjarráð óskar eftir uppfærðri kostnaðaráætlun fyrir lagningu rafstrengs á svæðið. Bæjarstjóri hefur verið í samband við stjórn félagsins um málið og er falið að halda því samtali áfram.
Lagðar fram til kynningar fréttir, annars vegar á vef stjórnarráðsins og hins vegar á vef bæjarins um 40 millj. kr. styrk úr Orkusjóði vegna orkuskiptaverkefnisins.
Bæjarráð - 624Bæjarráð fagnar tilkynningu um úthlutun styrks úr Orkusjóði til orkuskipta á vegum bæjarins.
Lagðir fram til kynningar undirritaðir verksamningar vegna framkvæmda ársins.
Bæjarráð - 624Lagðir fram samningar við eftirtalda aðila vegna framkvæmda í kjallara íþróttahúss vegna orkuskiptaverkefnis og annarra framkvæmda innanhúss, gerðir á grunni gefinna tilboða í einstaka verkþætti:
- Gráborg ehf. v. kerfisloft og einangrun. - Gráborg ehf. v. hljóðveggur og einangrun - Gráborg ehf. v. gluggasmíði - Aðalsteinn Jósepsson v. sögun - Smiðjan Fönix ehf. v. raflagnir og lampar - GG lagnir ehf. v. pípulagnavinnu
Einnig samningur við JK&Co slf. á grunni tilboðs í verðkönnun sem fram fór í júlí um 1. áfanga Hrannarstígur gangstéttir.
Lagt fram til kynningar bréf Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi (SHÍ), dags. 6. júní sl., vegna skipunar stýrihóps á vegum Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytisins og Matvælaráðuneytisins til að undirbúa áformaðar breytingar á fyrirkomulagi eftirlits.
Bæjarráð - 624
Lagður fram til kynningar tölvupóstur Ríkislögreglustjóra, dags. 28. júní sl., um árlega ráðstefnu Almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra sem haldin verður 31. október nk.
Bæjarráð - 624