Málsnúmer 2406005F

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 622. fundur - 27.06.2024

Bæjarráð samþykkir samhljóða 174. fundargerð skólanefndar.
  • Undir þessum lið var fjallað um innramats-skýrslu leikskólans og drög að skóladagatali komandi skólaárs ásamt tillögu um starfstíma.

    Gestir undir þessum lið voru Margrét Sif Sævarsdóttir, skólastjóri Leikskólans Sólvalla, Sigurborg Knarran Ólafsdóttir fulltrúi kennara og Katrín Elísdóttir fulltrúi foreldra. Auk þeirra Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson, ráðgjafi hjá Ásgarði, í fjarfundi.

    Skólanefnd - 174 1. Skólastjóri og Gunnþór kynntu skýrslu leikskólans um innra mat, sem nú liggur fyrir. Unnið er í samræmi við gæðaviðmið í skólastarfi sbr. nýja menntastefnu Grundarfjarðarbæjar sem samþykkt var 2023. Leikskólinn hefur þó unnið með þessi viðmið síðastliðin 2 ár, með stuðningi Ásgarðs.

    Að því loknu vék Gunnþór af fundi.


    2. Tekin var til umræðu annars vegar framlögð tillaga um skóladagatal leikskólans.
    Auk þess tillaga um lokun leikskóla kl. 14:00 á föstudögum og fylgdu útreikningar leikskólastjóra á vinnustundafjölda starfsmanna skv. kjarasamningum, annarsvegar skv. gildandi kjarasamningum og hinsvegar skv. fyrirliggjandi ósamþykktum samningstillögum milli BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem gerir ráð fyrir að vinnuvika verði 36 virkar vinnustundir fyrir 100% starf, en á samningaborði Sambandsins og Starfsgreinasambandsins er sambærileg tillaga.

    Mikil umræða varð, einkum um tillögu um lokun á föstudögum, um leiðir sem önnur sveitarfélög hafa farið til að mæta áskorunum á leikskólastiginu og um þarfir allra aðila í skólasamfélaginu.

    Skólanefnd ákvað að fresta umræðu og afgreiðslu á þessum lið. Boðað var til framhaldsfundar miðvikudaginn 26. júní.

    Hér viku gestir af fundinum og var þeim þakkað fyrir umræður og innlegg.
    ---

    Eftirfarandi er bókun skólanefndar af framhaldandi fundi sínum, sem haldinn var þann 26. júní 2024 kl. 17:00 og lauk kl. 19:00, auk þess sem nefndin vísar í framlagða tillögu sína til bæjarráðs:

    Undanfarin ár hefur leikskólastigið staðið frammi fyrir vanda sem felst í sér fækkun á faglærðu starfsfólki, erfiðleikum við að manna stöður og aukinni starfsmannaveltu. Vinnuumhverfið hefur breyst hratt, með þörf fyrir viðbótarmönnun vegna aukinna orlofsréttinda allra starfsmanna (30 daga orlof á ári), styttingu vinnuvikunnar, auknum undirbúningstíma í leikskólum o.fl. Þessi vandi er útbreiddur um allt land og hefur sannarlega komið niður á starfsemi leikskólastigsins og orðið til þess að þyngja allt starf hans.

    Ljóst er að skólanefnd Grundarfjarðarbæjar þarf og vill mæta þessum áskorunum leikskólastigsins með vel ígrunduðum aðgerðum og í takt við það sem önnur sveitarfélög hafa verið að grípa til á síðustu mánuðum og misserum.

    Í upphafi þessa árs lét skólanefnd gera könnun meðal foreldra leikskólabarna, þar sem könnuð var afstaða foreldra til styttingar starfstíma á Sólvöllum. Spurt var um tiltekna valkosti og hvernig þeir hentuðu fjölskyldum. Skólanefnd vildi hafa þau sjónarmið til hliðsjónar, auk samtals við leikskólastjórnendur, við umfjöllun um starfstíma leikskólans og afgreiðslu skóladagatals.

    Þess ber einnig að geta að í gær, þann 25. júní, var samþykktur fyrrnefndur kjarasamningur BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem felur m.a. í sér að frá og með 1. nóvember nk. verður gert ráð fyrir 36 virkum vinnustundum starfsfólks (Kjölur) m.v. 100% starfshlutfall.

    Skólanefnd hefur farið yfir framlagðar tillögur, en leggur meðfylgjandi tillögu fyrir bæjarráð. Með henni vonast skólanefnd til að hægt sé að vinna að breytingum, í skrefum, leikskólastiginu til hagsbóta. Með tillögunni telst skóladagatal samþykkt, þó með fyrirvara um breytingu á haustfríi skv. framlagðri tillögu.

    Samþykkt samhljóða.

    Bókun fundar
    Umfjöllun bæjarráðs um þennan lið á fundi skólanefndar:

    Bæjarráð bauð gestum inná fund bæjarráðs undir þessum lið, þeim Margréti Sif Sævarsdóttur leikskólastjóra og Sigurborgu Kn. Ólafsdóttur, sem sat fund skólanefndar sem fulltrúi starfsfólks Leikskólans Sólvalla, sbr. einnig erindi hennar undir dagskrárlið nr. 7.

    Farið var yfir það atriði sem snýr að skóladagatali leikskólans og starfstíma, en stjórnendur leikskólans höfðu lagt til ákveðna tillögu fyrir fund skólanefndar.

    Leikskólastjóri og fulltrúi kennara gerðu athugasemdir við störf skólanefndar vegna umræðu um skóladagatal og tillögu leikskólans, og var það rætt á fundinum.

    Var þeim kynnt tillaga og afgreiðsla skólanefndar, sem nú liggur fyrir með 174. fundargerð nefndarinnar og farið yfir efni tillögunnar.
    Tillagan er í megindráttum eins og tillaga leikskólastjórnenda, fyrir utan nálgun um opnunartíma á föstudögum. Auk þess leggur skólanefnd til að dvalartími 12-16 mánaða barna verði að hámarki 6 dvalarstundir, þó með nánari útfærslu skólastjórnenda. Sjá nánar tillöguna undir fundargerð skólanefndar.

    Að loknum góðum umræðum var gestunum þakkað fyrir komuna á fundinn.

    Bæjarráð samþykkir samhljóða tillögu skólanefndar um skóladagatal og starfstíma, sbr. framlagt skjal/tillögu nefndarinnar.
    Fyrirkomulagið taki gildi 1. nóvember nk., samhliða breyttum forsendum sem felast í nýjum kjarasamningum, sem ná mun til meirihluta starfsmanna í leikskólanum, og gerir ráð fyrir 36 virkum vinnustundum á viku hjá þeim sem eru í 100% starfi.

    Fyrirkomulagið skv. tillögunni, einkum hvað varðar starfstíma á föstudögum, verði kynnt fyrir foreldrum og staðan síðan metin.
  • Farið var yfir framlögð gögn; skýrslu grunnskólans og Eldhamra um innra mat og tillögu um skóladagatal komandi skólaárs.

    Gestir fundarins voru Sigurður Gísli Guðjónsson, skólastjóri Grunnskólans og Sylvía Rún Guðnýjardóttir, fulltrúi foreldra. Fulltrúar kennara komust ekki á fundinn.

    Skólanefnd - 174 Skólastjóri kynnti framlagða skýrslu og starf við innra mat grunnskólans, sem unnið er í samræmi við gæðaviðmið í skólastarfi sbr. nýja menntastefnu.

    Framhald umræðu um skóladagatal, frá síðasta fundi nefndarinnar. Nefndin hefur lagt áherslu á samræmingu í skóladagatali allra skólastofnana bæjarins.

    Skólanefnd samþykkir framlagt skóladagatal fyrir grunnskólann 2024-2025.

  • Vísað er í umræður um næsta dagskrárlið á undan; framlögð innramatsskýrsla fyrir Eldhamra og grunnskóla.

    Einnig lagt fram skóladagatal leikskóladeildarinnar Eldhamra.

    Sömu gestir og undir dagskrárlið 2.

    Skólanefnd - 174 Undir dagskrárlið 2 var farið yfir innramatsskýrsluna.

    Skóladagatal Eldhamra lagt fram og rætt.
    Í ljósi umræðu um skóladagatal Leikskólans Sólvalla leggur skólanefnd áherslu á að endanlegt dagatal Eldhamra taki einnig mið af nýjum, komandi kjarasamningum og að höfð verði þá hliðsjón af dagatali Leikskólans Sólvalla.

    Skólastjóri mun uppfæra dagatalið með hliðsjón af umræðum fundarins.

  • Rætt um endurbætur á húsnæði Tónlistarskólans og lagðar fram teikningar yfir breytingar í húsnæðinu.

    Ennfremur lagt fram skóladagatal komandi skólaárs og minnispunktar aðstoðarskólastjóra um starfið í vetur.

    Linda María Nielsen aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans er gestur undir þessum lið, auk skólastjóra og fulltrúa foreldra.
    Skólanefnd - 174 Farið var yfir þær breytingar sem gerðar verða á rými tónlistarskólans, en þær eru hluti af endurbótum á húsnæðinu í kjallara íþróttahúss, sem tengjast orkuskiptum skóla- og íþróttamannvirkja, o.fl. Framkvæmdirnar gætu haft áhrif á skólastarf tónlistarskólans í upphafi komandi skólaárs.

    Linda María fór yfir framlagða minnispunkta sína um starfsemina og rætt var um starfið.

    Framlagt skóladagatal tónlistarskólans fyrir komandi skólaár var samþykkt.

    Hér vék Linda María af fundi og var henni þakkað fyrir komuna og innlegg á fundinn.

  • Framlagt bréf með undirskriftum foreldra nemenda við Grunnskóla Grundarfjarðar með áskorun til skólanefndar um að Grunnskólinn verði símalaus grunnskóli frá og með næsta skólaári.

    Sigurður Gísli og Sylvía Rún sitja fundinn áfram undir þessum lið.


    Skólanefnd - 174 Umræður um erindið og farið yfir þær reglur sem gilda um símanotkun í grunnskólanum í dag.

    Skólanefnd þakkar fyrir erindið og tekur undir áhyggjur foreldra af áhrifum af símanotkun nemenda, en skilur ennfremur þörfina fyrir að skólastarf og daglegt líf nemenda byggi þó að hluta til á notkun símtækja.
    Skólanefnd leggur til að innan grunnskólans verði farið í það á haustdögum, að efna til samtals allra aðila um símanotkun og skólabrag, með það að leiðarljósi að nemendurnir sjálfir séu virkir þátttakendur í að móta það fyrirkomulag sem heppilegast þykir með farsæld þeirra í huga.


    Hér viku Sigurður Gísli og Sylvía Rún af fundi og var þeim þökkuð koman og innlegg þeirra á fundinum.

    Bókun fundar Umfjöllun bæjarráðs um þennan lið á fundi skólanefndar:

    Bæjarráð fór yfir erindi foreldra og afgreiðslu skólanefndar.

    Bæjarráð lýsir sig hlynnt tillögu foreldra um símabann í grunnskóla.

    Bæjarráð fellst engu að síður á tillögu skólanefndar sem byggir á þeim rökum að málefnið verði tekið til uppbyggilegrar umræðu með öllum þeim sem símabann snertir, ekki síst nemendum sjálfum, eins og gert hefur verið í fjölmörgum grunnskólum. Samþykkt samhljóða.

  • Lögð fram tilkynning um úthlutun úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla, en Grunnskóli Grundarfjarðar hlaut 200.000 kr. styrk til endurmenntunarverkefnis.
    Skólanefnd - 174
  • Lögð fram til kynningar Íbúakönnun landshlutanna 2023, könnun gerð af Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi meðal innflytjenda, en niðurstöður snerta m.a. skólastarf.

    Skólanefnd - 174