Sótt er um að breyta hluta eldra atvinnuhúsnæðis við Nesveg 21 (mhl. 020101) í gistiheimili. Húsnæðinu verður skipt upp í þrjár einingar. Hvert gistirými verður sér brunahólf með sér salernisaðstöðu. Inngangar verða að austan- og norðanverðu.
Í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 er lóðin á svæði sem skilgreint er sem athafnasvæði (AT-1). Á svæðinu er í dag ýmiskonar starfsemi, þ.m.t. ferðaþjónusta og gisting. Í almennum skilmálum fyrir svæðið segir m.a. að vegna legu svæðisins í beinu framhaldi af miðbæ og vegna staðsetningar þess við ströndina með frábæru útsýni yfir fjörðinn og á Kirkjufellið, sé það tilvalið fyrir frekari uppbyggingu í ferðaþjónustu.
Þar segir einnig að á svæðinu sé gert ráð fyrir ýmiskonar atvinnustarfsemi sem falli undir landnotkunarflokkinn athafnasvæði en einnig er ýmiskonar ferðaþjónusta heimil á svæðinu í samræmi við áherslur undir „Markmið og leiðir“. Fram kemur að nánari útfærsla blöndunar og byggðarmynsturs verði ákveðin í deiliskipulagi.