Málsnúmer 2209022

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 592. fundur - 28.09.2022

Lagðar fram forsendur fjárhagsáætlana, sbr. minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Einnig lögð fram tímaáætlun funda bæjarráðs og bæjarstjórnar út árið 2022 vegna fjárhagsáætlunargerðar.

Bæjarráð stefnir á að hitta forstöðumenn stofnana miðvikudaginn 5. október nk.

Vísað til næsta fundar bæjarráðs.

Bæjarráð - 593. fundur - 05.10.2022

Á fundinn mættu forstöðumenn stofnana Grundarfjarðarbæjar, þau sem áttu heimangengt. Fleiri eiga eftir að koma á fund bæjarráðs.

Kl. 9:00, Sunna v. bókasafn og upplýsingamiðstöð
Kl. 9:30, Linda v. tónlistarskóli
Kl. 10.00, Valgeir v. áhaldahús og slökkvilið
Kl. 10:40, Ingibjörg v. leikskóli
Kl. 11:30, Anna Kristín v. grunnskóli
Kl. 12:00, Fannar Þór, byggingarfulltrúi v. ýmissa verka og framkvæmda
Kl. 12:40, Baldur, eignaumsjón

Farið var yfir starfsemi stofnana og óskir forstöðumanna vegna fjárhagsáætlunar 2023, einkum hvað varðar fjárfestingar og framkvæmdir.

Teknir voru niður minnispunktar úr umræðum, til úrvinnslu í áframhaldandi vinnu bæjarráðs að fjárhagsáætlun 2023.

Forstöðumönnum var þakkað fyrir komuna og góðar umræður.

Gestir

  • Ingibjörg E. Þórarinsdóttir - mæting: 10:40
  • Fannar Þór Þorfinnsson - mæting: 12:00
  • Valgeir Magnússon - mæting: 10:00
  • Baldur Úlfarsson - mæting: 12:40
  • Linda María Nielson - mæting: 09:30
  • Sunna Njálsdóttir - mæting: 09:00
  • Anna Kristín Magnúsdóttir - mæting: 11:30

Skólanefnd - 165. fundur - 10.10.2022

Farið gróflega yfir helstu málaflokka sem undir skólanefnd heyra m.t.t. fjárhagsáætlunargerðar fyrir 2023.

Skólanefnd mun funda áður en lokið verður við gerð fjárhagsáætlunar og mun fá til sín tillögur um fjárfestingar þeirra stofnana sem undir hana heyra.

Nefndin vonast til að bæjarstjórn taki vel í óskir skólastjórnenda varðandi þarfir skólanna í fjárhagsáætlun 2023.

Bæjarráð - 594. fundur - 17.10.2022


Vinnufundur bæjarráðs í tengslum við fjárhagsáætlun 2023.

Bæjarráð fór í heimsókn og ræddi við íþrótta- og tómstundafulltrúa og skoðaði aðstæður í íþróttahúsi, sundlaug og íþróttavelli.

Farið var yfir tækjabúnað, rætt um fyrirhugaðar framkvæmdir v. endurbóta á gólf- og loftaefni o.fl. í anddyri, gangi og tengibyggingu - en þar verður ennfremur skipt um glugga. Einnig farið yfir hljóðvist í íþróttasalnum og hvernig hægt væri að bæta hana.
Rætt var um áform um að setja upp gufubað og rennibraut við sundlaug. Sundlaugargarð þarf að skoða í heild sinni og skipuleggja, áður en farið er í slíkar framkvæmdir.

Bæjarráð - 595. fundur - 18.10.2022

Lögð fram rammaáætlun 2023 og tekjuáætlun 2023.

Jafnframt lögð fram staðgreiðsluáætlun sveitarfélaga frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tilkynning frá Jöfnunarsjóði vegna mögulegs framlags sökum fækkunar íbúa.

Vísað til næsta fundar bæjarráðs.

Hafnarstjórn - 2. fundur - 25.10.2022

Drög hafnarstjóra að fjárhagsáætlun Grundarfjarðarhafnar fyrir árið 2023 lögð fram til afgreiðslu.
Staða 2022:

Hafnarstjóri kynnti fjárhagsstöðu hafnarinnar, skv. framlögðu yfirliti og stöðu í lok september 2022.
Tekjur voru áætlaðar samtals 118 millj. kr. árið 2022 (hafnargjöld og þjónustugjöld) og mun höfnin standast þá áætlun og gott betur.
Útgjöld voru áætluð 66,3 millj.kr. en reiknað er með að þau verði eitthvað yfir því, einkum vegna fjölgunar starfsmanna á árinu, sem til eru komin vegna verulega aukinna umsvifa hafnarinnar.

Framkvæmdakostnaður var áætlaður um 69 millj. kr. fyrir árið 2022, án mótframlaga Vegagerðarinnar.

Hafnarstjórn lýsir yfir ánægju með góða afkomu og þakkar hafnarstjóra fyrir gott utanumhald.


Rekstraráætlun 2023:

Hafnarstjóri fór yfir fyrirliggjandi drög að fjárhagsáætlun 2023.
Tekjur eru áætlaðar um 153 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að af bókuðum komum skemmtiferðaskipa ársins muni nær allar skila sér, m.v. núverandi forsendur. Bókuð eru stærri skip í meira mæli en áður hefur verið og tengist það beint framkvæmdum við lengingu Norðurgarðs og fleira.
Útgjöld eru áætluð rúmlega 85 millj. kr., með markaðsstarfi.
Gert er ráð fyrir rúmum 53 millj.kr. í rekstrarafgang, eftir afskriftir (fjármagnskostnaður er enginn).

Sett er fram áætlun um framkvæmdir í nokkrum liðum, þannig að framkvæmdakostnaður ársins 2023 verði samtals allt að 70-80 millj. kr., en inní það vantar mótframlag Vegagerðarinnar.

Helstu framkvæmdir felast í viðgerð á eldri hluta stálþils og á þekju Norðurgarðs, kaupum á "fenderum" og á nýrri hafnarvog. Áfram er gert ráð fyrir fjármunum í deiliskipulagsvinnu á hafnarsvæði, sem er mjög brýnt að halda áfram, og í undirbúning umsóknar um efnistöku úr sjó, sem unnið er að.

Hafnarstjórn samþykkir samhljóða framlagða tillögu að fjárhagsáætlun Grundarfjarðarhafnar fyrir árið 2023, en fyrirvari er um leiðréttingar á launaáætlun (rekstraráætlun) og mótframlagi vegna hafnargerðar (fjárfestingar).
Hafnarstjórn vísar áætluninni, með framangreindum fyrirvörum um breytingar, til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.

Bæjarráð - 596. fundur - 09.11.2022

Kristín Þorleifsdóttir var í fjarfundi, en Ólafur Ólafsson og Hafsteinn Garðarsson komu á fund bæjarráðs.
Rætt var um verkefni og stöðu mála á þeim sviðum sem undir viðkomandi forstöðumenn heyra. Farið var yfir óskir/þarfir m.t.t. fjárhagsáætlunargerðar 2023.

Ennfremur lögð fram gögn frá N4 um markaðsefni, m.t.t. fjárhagsáætlunargerðar 2023.

Gestum fundarins var þakkað fyrir komuna og góðar umræður á fundinum.

Gestir

  • Kristín Þorleifsdóttir sviðsstjóri/skipulagsfulltrúi
  • Hafsteinn Garðarsson hafnarstjóri
  • Ólafur Ólafsson íþrótta- og tómstundafulltrúi

Bæjarráð - 597. fundur - 17.11.2022

Fannar Þór Þorfinnsson byggingarfulltrúi, var gestur fundarins. Einnig Kristín Þorleifsdóttir sviðsstjóri/skipulagsfulltrúi í fjarfundi.
Farið yfir fjárfestingatillögur með Fannari og Kristínu og þær kostnaðaráætlanir sem fyrir liggja um fasteignir og verklegar framkvæmdir.

Eftir að þau yfirgáfu fundinn var farið yfir drög að launaáætlun 2023 og kynntar helstu niðurstöður í fjárhagsáætlun 2023, til frekari úrvinnslu fyrir fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 24. nóvember nk.

Gestir

  • Fannar Þór Þorfinnsson, byggingarfulltrúi
  • Kristín Þorleifsdóttir, sviðsstjóri/skipulagsfulltrúi

Bæjarstjórn - 265. fundur - 24.11.2022

Lögð fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun ársins 2023 ásamt þriggja ára áætlun áranna 2024-2026, sem innifelur rekstraryfirlit, málaflokkayfirlit, efnahagsyfirlit og sjóðsstreymi. Jafnframt lagt fram rekstraryfirlit með samanburði á deildum milli áætlana 2022 og 2023 ásamt fjárfestingaáætlun fyrir 2023.

Allir tóku til máls.

JÓK áréttar að fjárfestingahlutann þurfi að skoða vel milli umræðna og leitast við að lækka heildarfjárfestingu ársins.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa fjárhagsáætlun 2023 og þriggja ára áætlun áranna 2024-2026 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarráð - 598. fundur - 07.12.2022

Lagður fram og farið yfir samantekinn lista yfir helstu kennitölur sem bæjarráð fylgist með. Jafnframt farið yfir rekstrarbreytingar frá fyrri umræðu.

Lögð fram ýmis gögn um fjárfestingar og farið yfir drög að fjárfestingaáætlun 2023. Gerðar breytingar á fjárfestingum frá fyrri umræðu.

Rætt um bílakaup og framlagðar upplýsingar vegna þeirra. Bæjarstjóra veitt umboð til að kaupa nýja bifreið fyrir áhaldahús/eignaumsjón, skv. umræðum fundarins.

Skólanefnd - 167. fundur - 14.12.2022

Bæjarstjóri kynnti tillögu að fjárfestingaáætlun 2023 fyrir þær stofnanir sem undir skólanefnd heyra, þ.e. húsnæði og lóðir leikskóla og grunnskóla, auk íþróttahúss. Hún kynnti einnig að fjármunir væru áætlaðir í vinnu við endurskoðun skólastefnu/setningu nýrrar menntastefnu, en vinna við hana hefst á nýju ári.

Fjárhagsáætlun verður afgreidd við 2. umræðu í bæjarstjórn á morgun, 15. desember.

Bæjarstjórn - 266. fundur - 15.12.2022

Haraldur Líndal Haraldsson, ráðgjafi, sat fundinn undir hluta af þessum lið, en hann tók út rekstur sveitarfélagsins og starfsemi árin 2012 og 2020. Hann fór yfir helstu kennitölur um fjárhag bæjarins og þróun þeirra með bæjarfulltrúum.

Lögð fram og kynnt til síðari umræðu fjárhagsáætlun ársins 2023, listi yfir helstu kennitölur, samanburður milli fjárhagsáætlunar 2022 og 2023 og útlistun á breytingum sem gerðar hafa verið milli umræðna. Jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2024-2026.

Bætt hefur verið inn í A-hluta áætlunarinnar byggðasamlögum, í samræmi við eignarhluta Grundarfjarðarbæjar í þeim.

Skv. rekstraryfirliti fjárhagsáætlunar 2023 fyrir A- og B-hluta eru heildartekjur áætlaðar 1.514,1 millj. kr. Áætlaður launakostnaður er 828,8 millj. kr., önnur rekstrargjöld 472,4 millj. kr. og afskriftir 73,0 millj. kr. Fyrir fjármagnsliði er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma verði 139,8 millj. kr. Gert er ráð fyrir 125,0 millj. kr. fjármagnsgjöldum. Áætlun 2023 gerir ráð fyrir 14,8 millj. kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu.

Skv. sjóðsstreymisyfirliti áætlunarinnar er veltufé frá rekstri 181,1 millj. kr. þegar leiðrétt hefur verið fyrir afskriftum og áföllnum en ógreiddum verðbótum og gengismun, auk annarra breytinga á skuldbindingum. Þessi fjárhæð nýtist síðan til afborgana lána og nauðsynlegra fjárfestinga sem brýnt er að ráðast í á árinu 2023. Ráðgert er að fjárfestingar verði 224,4 millj. kr., afborganir lána 172,7 millj. kr. og að tekin verði ný lán að fjárhæð 200 millj. kr. Miðað við þær forsendur er gengið á handbært fé um 11,2 millj. kr. Handbært fé í árslok ársins 2023 er því áætlað 45,5 millj. kr. gangi fjárhagsáætlun ársins 2023 fram eins og ráðgert er.

Allir tóku til máls.

Fjárhagsáætlun 2023 og þriggja ára áætlun 2024-2026 samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Haraldur Líndal Haraldsson, rekstrarráðgjafi - mæting: 17:15

Bæjarstjórn - 276. fundur - 23.11.2023

Lagður fram viðauki við fjárhagsáætlun ársins 2023.



Einnig lagt fram skýringarskjal með viðauka við fjárhagsáætlun 2023, sem sýnir stöðu fjárfestinga þann 16.11.2023 í einstökum verkefnum m.v. áætlun 2023.



Gert er ráð fyrir hækkun skatttekna og framlaga Jöfnunarsjóðs á árinu 2023 og öðrum hærri tekjum á móti fjármagnsgjöldum umfram áætlun vegna hárrar verðbólgu, auk annarra breytinga.

Viðauki 1 við fjárhagsáætlun 2023 kynntur.

Áætluð lántaka ársins 2023 er lækkuð úr 200 í 100 millj. kr.
Áætluð rekstrarniðurstaða fer úr 14,8 millj. kr. í 6,2 millj. kr. í A- og B-hluta.

Áætlaðar fjárfestingar A og B hluta fara úr 224,4 í 205,2 millj. kr.

Áætlað sjóðssteymi fer úr 45,5 millj. kr. í 48,5 millj. kr.

Allir tóku til máls.

Viðauki 1 við fjárhagsáætlun 2023 samþykktur samhljóða.

Hafnarstjórn - 8. fundur - 04.12.2023

Hafnarstjóri fór yfir framlagt yfirlit um stöðu hafnarsjóðs í lok nóvember 2023, samanborið við fjárhagsáætlun 2023 og viðauka nr. 1 (breytingu) við fjárhagsáætlun, sem bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 23. nóvember sl.







Tekjur voru áætlaðar samtals 153 millj. kr. árið 2023 (hafnargjöld og þjónustugjöld) og mun höfnin standast þá áætlun og gott betur, en tekjur fyrstu ellefu mánuði ársins eru ríflega 12 millj. kr. yfir áætlun ársins.
Við gerð viðauka 1 við fjárhagsáætlun var tekjuáætlun hafnarinnar 2023 breytt og hún hækkuð í 182,4 millj.kr. Á móti er rekstrarkostnaður hafnarinnar einnig hærri, einkanlega launakostnaður, vegna aukinna umsvifa o.fl., og var sömuleiðis hækkaður í viðauka 1.

Framkvæmdakostnaður var áætlaður um 60 millj. kr. fyrir árið 2023, með fyrirvara um uppgjör vegna framkvæmda. Að teknu tilliti til kostnaðarframlags Hafnabótasjóðs, þá er áætlun um nettó framkvæmdakostnað ársins 2023 lækkuð verulega.

Hafnarstjórn lýsir yfir ánægju með góða afkomu og færir hafnarstjóra þakkir.