Málsnúmer 2110004

Vakta málsnúmer

Hafnarstjórn - 16. fundur - 05.10.2021

Hafnarstjóri kynnti yfirlit yfir komur skemmtiferðaskipa sumarið 2021. Alls voru 31 skipakoma skemmtiferðaskipa í höfnina.

Hafnarstjórn - 17. fundur - 08.03.2022

Hafnarstjóri fór yfir bókanir á komum skemmtiferðaskipa fyrir sumarið 2022.

Ennfremur ræddi hafnarstjórn um samkeppnisstöðu og markaðssetningu hafna fyrir skemmtiferðaskip.

Skráðar eru 41 komur skemmtiferðaskipa fyrir sumarið 2022.

Keyptir hafa verið tveir vaktgámar, sem nýttir verða á Norðurgarði vegna vöktunar skv. alþjóðlegum siglingaverndarreglum og ætlunin er að endurnýja flotbryggju fyrir farþega, eins og áður hefur komið fram.

Ennfremur ræddi hafnarstjórn um samstarfsverkefni sem Áfanga- og markaðssvið SSV ásamt Akraneskaupstað og Faxaflóahöfnum taka nú þátt í, varðandi gæði í móttöku á skemmtiferðaskipum á Akranesi. Verkefnið kemur í gegn um Ferðamálastofu og er samstarfsverkefni við The Association of Arctic Expedition Cruise Operators (AECO), þar sem þeir vinna með nokkrum höfnum á Íslandi, Noregi, Færeyjum og Grænlandi.

Bæjarstjóri hefur spurst fyrir um tilkomu þessa verkefnis í gegnum SSV.

Hafnarstjórn minnir á að lögð hefur verið mikil vinna og fjármagn í um tvo áratugi í markaðssetningu Grundarfjarðarhafnar, fyrir skemmtiferðaskip og uppbyggingu innviða sem þjóna því hlutverki. Snæfellsnes allt er áningarstaður farþeganna.

Bæjarstjóra er falið að leita frekari upplýsinga um bakgrunn þessa verkefnis og hvaða höfnum standi/hafi staðið til boða að taka þátt. Einnig upplýsinga sem varpað geti ljósi á áhrif verkefnisins á samkeppnisstöðu gagnvart Grundarfjarðarhöfn, sem kostað hefur sjálf sína markaðssetningu og gæðastarf í um tvo áratugi.

Hafnarstjórn - 18. fundur - 28.04.2022

Fram kom að í sumar eru bókaðar 43 komur skemmtiferðaskipa til Grundarfjarðarhafnar og að tekjur hafnar af skemmtiferðaskipum verða nú um 33% heildartekna, þrátt fyrir mikla aukningu tekna af þjónustu við fiskiskip.

Lagt var fram yfirlit hafnarstjóra um komur skemmtiferðaskipa í Grundarfjarðarhöfn frá árinu 2002.

Fjöldi skipa hefur aukist síðustu árin og tekjur hafnarinnar sömuleiðis. Þjónusta við skemmtiferðaskip kemur til yfir sumarið, þegar minnst hefur verið að gera í löndunum og þjónustu við fiskiskipin. Þannig nýtast hafnarmannvirki og mannskapur vel, án þess að skarast að ráði við þjónustuna við fiskiskip. Skemmtiferðaskipin hafa því leitt af sér aukna arðsemi hafnarmannvirkja og aðstöðu, og auknar tekjur og styrkingu hafnarsjóðs sem getur á móti veitt enn betri þjónustu. Auk þess hafa skipin þýtt atvinnutækifæri fyrir fólk á svæðinu, því fjöldi fólks á Snæfellsnesi vinnur við að þjónusta skip og gesti - sem fara í ferðir um allt Snæfellsnes.

Árið 2020 komu engin skip vegna Covid og árið 2021 voru komur skemmtiferðaskipa alls 31 talsins. Árið 2019 var síðasta ár fyrir Covid og voru komur skemmtiferðaskipa þá 50 talsins, samtals uppá 787.110 brúttótonn og var farþegafjöldi 17.681 manns. Áætlaður heildarfjöldi annarra gesta á Snæfellsnesi það ár var um 6-900.000 manns.

Í ár eru bókaðar 43 komur skemmtiferðaskipa, samtals uppá 1906 þús. brúttótonn og með um 50.000 farþega.

Sumarið 2023 eru nú þegar bókaðar 54 komur skemmtiferðaskipa, samtals uppá 2.330 brúttótonn og með áætlaðan gestafjölda 65.000 manns. Tekjur hafnar af þeim skipum gætu numið um 70 millj. kr. m.v. verðlag og gjaldskrá í dag.

Hafnarstjórn ræddi um þá þjónustuþætti hjá höfninni sem tengjast auknum komum skipanna og því að skipin eru stærri. Vilji hafnarstjórnar er að höfnin gæti vel að því hvernig skip og gestir eru þjónustaðir, að upplifun gesta sé ánægjuleg og að aðstaðan til móttöku gesta mæti kröfum þeirra. Auk þess sé mikilvægt að samfélagið takist á við verkefnið af jákvæðni, en ljóst er að aukinn gestafjöldi mun hafa áhrif í samfélaginu.

Í komum skemmtiferðaskipa felast jafnframt atvinnutækifæri fyrir íbúa og þjónustufyrirtæki í bænum og svæðinu öllu, til að veita þjónustu og afþreyingu og mikilvægt er að íbúar þekki og nýti tækifærin sem felast í ferðaþjónustu af þessu tagi.

Hafnarstjórn - 1. fundur - 05.07.2022

Hafnarstjóri sagði frá komum skemmtiferðaskipa í sumar og nk. sumar.

Lagt fram yfirlit hafnarstjóra um fjölda/komur skemmtiferðaskipa og tekjur á liðnum árum.
Rætt var um aðstöðu fyrir gesti skemmtiferðaskipa, en þeim fer verulega fjölgandi. Hafnarstjóri telur þörf á að auka skjól við flotbryggjuna með einum eða öðrum hætti. Einnig var rætt um salernisaðstöðu á svæðinu. Þessi atriði verða rædd nánar í tengslum við deiliskipulagsvinnu þá sem nú er í gangi, sbr. fyrri dagskrárlið.

Einnig lagt fram erindi Áfangastaða- og markaðssviðs SSV en höfnin hyggst fara í vinnu með sviðinu um gæði í móttöku á skemmtiferðaskipum.

Auk þess lögð fram eldri skjöl um sambærilegt verkefni sem sviðið kom að.

Hafnarstjórn - 2. fundur - 25.10.2022

Lagt var fram uppfært skjal hafnarstjóra um komur skemmtiferðaskipa, fjölda skipa, tekjur og fleira.
Hafnarstjóri sagði frá skemmtiferðaskipakomum sumarsins og ræddi horfur til næstu tveggja ára. Sl. sumar voru komur skemmtiferðaskipa til Grundarfjarðar 42 talsins og skipin samtals rétt rúmlega 1,5 millj. brúttótonn að stærð. Á næsta ári hafa þegar verið bókaðar 68 skipakomur, með skipum sem eru samtals um 3 millj. brúttótonn að stærð.

Hafnarstjóri sótti stóra kaupstefnu skemmtiferðaskipa í Malaga í september sl. og var mjög mikill áhugi kaupenda á því að bóka komur skipa til Íslands.

Til stendur að höfnin boði til fundar með hagsmunaaðilum tengdum þjónustu og komum skemmtiferðaskipa, á næstunni, til að fara yfir reynslu sumarsins og undirbúa komandi sumar/sumur.

Hafnarstjórn - 8. fundur - 04.12.2023

Lagt var fram uppfært skjal hafnarstjóra um komur skemmtiferðaskipa, fjölda skipa, tekjur og fleira.



Hafnarstjóri sagði frá skemmtiferðaskipakomum sumarsins og ræddi horfur til næstu ára.

Sl. sumar voru komur skemmtiferðaskipa til Grundarfjarðarhafnar 62 talsins og skipin samtals rétt rúmlega 2,9 millj. brúttótonn að stærð.

Á næsta ári hafa verið bókaðar 75 skipakomur, nokkuð er enn um afbókanir og breytingar, og að skráningar séu að rokka til og frá. Sumarið 2025 hafa verið bókaðar 78 komur og sumarið 2026 er 21 koma bókuð.

Í gangi er samstarfsverkefni hafna og sveitarfélaga á Snæfellsnesi, með aðkomu SSV, um samtal við þjónustuaðila á svæðinu, íbúa og hagaðila vegna skemmtiferðaskipa á Snæfellsnesi. Verkefnið var unnið fyrri hluta þessa árs, en mun halda áfram.

Hafnarstjórn - 11. fundur - 29.04.2024

Hafnarstjóri fór yfir stöðuna.

Skemmtiferðaskipakomur voru 62 á síðasta ári og farþegar 47.000 talsins.
Um 77 skipakomur eru bókaðar fyrir árið 2024, með farþegafjölda um 57.000 talsins. Svipaður fjöldi bókana er fyrir árið 2025 og fyrir árið 2026 hafa þegar verið bókaðar 60 komur.

Á aðalfundi Cruise Iceland fyrir skömmu varð breyting á stjórn og á árgjöldum. Gjöldin miðast við fjóra flokka, út frá stærð hafna (fjöldi móttekinna gesta). Grundarfjarðarhöfn er í flokki II, þ.e. með farþegafjölda á bilinu 10-50.000 og verður gjaldið því 690.000 kr. í ár.

Formaður sagði frá því að menningarnefnd, sem sér einnig um markaðsmál, og forstöðumaður bókasafns og menningarmála hafi skoðað möguleikann á að nýta menningarhúsin betur í sumar, þegar gestafjöldinn er sem mestur. Er það í takt við það sem fram hefur komið í samtali við Margréti Björk, forstöðumann Áfangastaða- og markaðsstofu Vesturlands, sem stýrt hefur verkefni með höfnum og sveitarfélögum á Snæfellsnesi vegna móttöku skemmtiferðaskipa. Einnig er ætlunin að auka framboð menningarviðburða í Sögumiðstöðinni á komandi mánuðum.