Formaður bauð gesti velkomna, þá Hafstein Mar og Loft Árna.
Nefndin hafði óskað eftir að fá þá til fundar við sig til að ræða um möguleika á því að koma upp aðstöðu fyrir frisbígolf í Grundarfirði.
Gestir
- Loftur Árni Björgvinsson
- Hafsteinn Mar Sigurbjörnsson
Hafsteinn og Loftur fóru yfir það hvernig aðstöðu þarf fyrir frisbígolf, en fyrir nokkrum árum höfðu þeir félagar komið upp einni heimatilbúinni körfu í Paimpolgarði í þessu skyni.
Skoðaðar voru myndir og rætt um hvernig þessi íþrótt fer fram. Ennfremur farið yfir kort af bænum og rætt um heppilega staðsetningu á körfum. Paimpolgarður og svæði ofan byggðar koma helst til greina, en æskilegt er að það sé þokkalegt landrými í kringum körfurnar og ennfremur að landslag og umhverfi sé aðlaðandi fyrir útivist og hreyfingu.
Nefndin er mjög áhugasöm um að hægt sé að koma upp heilsársaðstöðu til að stunda frisbígolf. Nefndin telur að það sé til þess fallið að ýta undir hreyfingu og útivist hjá fólki á öllum aldri.
Ákveðið var að hefja undirbúning að því að þetta geti orðið að veruleika.
Hafsteinn og Loftur munu leita tiltekinna upplýsinga sem snúa að búnaði og aðstöðu, auk þess að skoða betur staðsetningu fyrir körfur.
Nefndin mun sömuleiðis vinna nánar í hugmyndinni, m.a. byrja að ræða hugmyndina við hagsmunaaðila.
Gestunum var þakkað fyrir komuna og fyrir að taka vel í óskir nefndarinnar um samstarf við að þróa þetta áfram.