Lagt fram erindi um bætt aðgengi fyrir gangandi vegfarendur, sem eru gestir af skemmtiferðaskipum, bæði að Kirkjufellsfossi og Grundarfossi. Fram kemur í bréfinu að malbikaða göngustíga vanti að þessum náttúruperlum, en slíkir stígar myndu einnig skapa möguleika til hjólreiða. Áhyggjum er lýst af því að þeir sem fara fótgangandi haldi sig á þjóðveginum og þar stafi þeim hætta af umferð sem um sumartímann er mikil beggja vegna við Grundarfjörð á báðum akreinum.
Hafnarstjórn tekur undir áhyggjur bréfritara af umferð gangandi vegfarenda á umræddum leiðum og telur brýnt að stígar verði lagðir fyrir gangandi og hjólandi, að bæði Kirkjufellsfossi og Grundarfossi.
Formaður sagði frá því að undirbúningur hefði farið fram á vegum bæjarstjórnar fyrir nokkrum árum og leiðir þessar verið skoðaðar, sem og kostnaður við lagningu stíga. Þrátt fyrir að fyrir lægi loforð um mótframlag Vegagerðarinnar, þá væri um kostnaðarsamar framkvæmdir að ræða og hefði bæjarstjórn forgangsraðað gangstéttum innanbæjar framar en framkvæmdum við stígagerð út úr bænum.
Formaður rifjaði upp fjárhæðir sem innheimtar eru sem farþegagjöld, einkum af gestum skemmtiferðaskipa, og ákvæði um þau.
Hafnarstjórn hvetur bæjarstjórn til að undirbúa framkvæmdir við gerð göngustíga sem fari fram eins fljótt og kostur er.