Lögð fram til afgreiðslu fyrirspurn Elvars Þórs Alfreðssonar og Arons Freys Ragnarssonar, f.h. Ölfushús ehf., um afnot af u.þ.b. 5000 m2 reit við Hellnafell (L-136614),sem er í eigu Grundarfjarðarbæjar, til að minnsta kosti fimm ára.
Á reitnum er fyrirhugað að koma þar fyrir 6-8 litlum færanlegum frístundahúsum/smáhýsum sem leigð verða út í skammtímaleigu. Aðkomuleið verði frá útsýnisplani vestan við Hellnafell og þaðan að bílaplani við húsin. Fráveita verður útfærð með hreinsistöð. Síðar, þegar frístundabyggð ofan bæjarins er tilbúin, verði frísundahúsin/smáhýsin flutt þangað, verði gert ráð fyrir slíkri/slíkum lóðum.
Í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 er umræddur reitur á svæði sem skilgreint er fyrir létta ferðaþjónustu og afþreyingarstarfsemi (AF-1). Í skipulagsskilmálum segir einnig að öll umgengni skuli vera til fyrirmyndar og snyrtilega gengið um svæðið, sem er mjög vel sýnilegt við innkomuna í þéttbýlið. Staðinn verði vörður um lífríki og landslag í fjörum og gönguleið meðfram strönd verði tryggð. Meta skuli umsóknir m.t.t. landnotkunar og nærliggjandi íbúðarhverfis.
Bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa er falið að taka saman minnisblað í samræmi við umræður á fundinum um heimildir til ráðstöfunar lands á umræddu svæði.