Lagt fram til kynningar viðauki við Landsskipulagsstefnu 2015-2026 sem lagður var fram á Alþingi vorið 2021 en náði ekki fram að ganga. Með nýrri skipan stjórnarráðsins færðust skipulagsmál undir nýtt embætti innviðaráðherra en heyrðu áður undir umhverfis- og auðlindaráðherra.
Nú hefur innviðaráðherra ákveðið að hefja vinnu við endurskoðun Landsskipulagsstefnu 2015-2026. Skipulagsstofnun vill því vekja athygli aðila á samráðsvettvangi á breytingum sem gerðar voru á skipulagslögum nr. 123/2010 með nýjum lögum um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála. Breytingarnar snerta m.a. gildistíma stefnunnar og ferlið við gerð landsskipulagsstefnu.
Í nýjum lögum er kveðið á um skipun sérstaks húsnæðis- og skipulagsráðs sem vinnur, í samstarfi við Skipulagsstofnun, tillögu að landsskipulagsstefnu ásamt aðgerðaáætlun í samræmi við áherslur ráðherra. Ráðgjafarnefnd, skipuð af ráðherra, verður húsnæðis- og skipulagsráði og Skipulagsstofnun til ráðgjafar og samráðs við gerð tillögunnar eftir sem áður.
Í lögunum er jafnframt kveðið á um að landsskipulagsstefna skuli unnin til fimmtán ára, í stað tólf ára áður. Þá er þar einnig að finna nýmæli um aðgerðaáætlun sem lögð skal fram samhliða framlagningu tillögu að landsskipulagsstefnu og hefur að geyma aðgerðir sem ráðast skal í á fyrstu fimm árum gildistíma landsskipulagsstefnu.
Stefnan verður unnin eftir sporbaug stefnumótunar hjá stjórnarráðinu, þ.e. unnið verður stöðumat sem sett er fram í svokallaðri grænbók og drög að stefnu sem sett er fram í hvítbók. Að því loknu leggur innviðaráðherra fram tillögu að þingsályktun um endurskoðaða landsskipulagsstefnu.
Gert er ráð fyrir að grænbók og hvítbók verði kynnt á samráðsgátt stjórnvalda innan tíðar.