Málsnúmer 2304004F

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 272. fundur - 11.05.2023

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 604. fundar bæjarráðs.
  • Bæjarráð - 604 Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.
  • Bæjarráð - 604 Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar í janúar til mars 2023. Samkvæmt yfirlitinu hefur greitt útsvar hækkað um 9,9% miðað við sama tímabil í fyrra.
  • .3 2304026 Launaáætlun 2023
    Bæjarráð - 604 Lagt fram yfirlit sem sýnir samanburð á útgreiddum launum Grundarfjarðarbæjar janúar-mars 2023. Farið yfir niðurbrot launaáætlunar og raunlauna eftir deildum. Raunlaun eru undir áætlun.
  • .4 2209025 Gjaldskrár 2023
    Lögð fram tillaga leikskólastjóra um "kortersgjald" í samræmi við fyrri umræðu í skólanefnd og bæjarstjórn, í því skyni að ná betri yfirsýn yfir þörf fyrir starfsfólk í aukakorter, þ.e. fyrir og eftir reglulegan dvalartíma.

    Bæjarstjórn vísaði umræðu um gjaldskrárbreytingu til bæjarráðs, að undangenginni umræðu sem fram fór í skólanefnd.

    Bæjarráð - 604 Lagðar fram upplýsingar um kortersgjald hjá nokkrum sveitarfélögum. Jafnframt lagt fram yfirlit um hlutfall kostnaðar foreldra af nettókostnaði við rekstur leikskóla, sem er 9% á móti 91% kostnaði bæjarins.

    Lagt til að tekið verði upp kortersgjald á Leikskólanum Sólvöllum og Leikskóladeildinni Eldhömrum í samræmi við framkvæmd hjá öðrum sveitarféllögum. Gjaldið verði 1.000 kr. á mánuði fyrir korterið, þ.e. fyrir kl. 8:00 að morgni og eftir kl. 16:00. Breyting á gjaldskrá tekur gildi nk. haust, frá og með nýju skólaári.

    Samþykkt samhljóða.
    Bókun fundar Bæjarstjórn staðfestir tillögu bæjarráðs um breytingu á gjaldskrá vegna Leikskólans Sólvalla og Leikskóladeildarinnar Eldhamra.
  • Gestir fundarins eru Óli Þór Jónsson, verkfræðingur hjá Eflu, Sigurbjartur Loftsson, verkefnisstjóri, báðir gegnum fjarfund, og Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstndafulltrúi Grundarfjarðarbæjar.

    Skóla- og íþróttamannvirki bæjarins, þar með talin sundlaug og heitir pottar, eru kynt með olíu. Unnið hefur verið að undirbúningi þess að skipta út olíukatli og setja upp varmadælubúnað, fyrir nýjan orkugjafa mannvirkjanna.

    Fyrr á árinu var leitað tilboða í borun á varmadæluholum og var fyrirtækið Borlausnir ehf. með lægsta tilboð. Um miðjan maí nk. er von á fyrirtækinu til að bora holurnar, sem munu liggja sunnan við íþróttahús, á svæðinu neðan (austan) við ærslabelginn. Leitað hefur verið tilboða í varmadælubúnað sem hentar og verður settur upp fyrir mannvirkin. Ætlunin er að framkvæmdir fari fram á þessu ári, að mestu, ef allt gengur eftir með niðurstöður úr borun og fleira.
    Bæjarráð - 604 Sparnaður við framkvæmdina er áætlaður um 20 millj. kr. á ári, skv. fyrirliggjandi forsendum í greinargerð með styrkumsókn sem send var til Orkusjóðs.

    Óli Þór og Sigurbjartur fóru yfir stöðu verkefnisins og þær ákvarðanir sem þarf að taka í tengslum við fyrirkomulag á varmadælum.

    Farið var yfir fyrirhugaða borun á holum og rætt um varmadælubúnað, sem komið er tilboð í. Rætt um leyfismál, sem eru í farvegi. Fram kom hjá bæjarstjóra að sótt hefur verið um framkvæmdaleyfi fyrir borun á allt að 12 varmadæluholum, í samræmi við verðkönnunargögn og skýringaruppdrætti, sem liggja fyrir fundinum.

    Farið yfir valkosti varðandi staðsetningu og rými fyrir varmadælubúnað í eða við íþróttamannvirki. Rými/húsnæði fyrir varmadælurnar sjálfar þarf að vera 20-30 m2 að stærð. Farið var yfir valkosti og grófar kostnaðarhugmyndir við þá.

    Bæjarráð samþykkir að Sigurbjartur teikni upp þá tillögu sem rædd var á fundinum og geri kostnaðaráætlun fyrir þá útfærslu, til skoðunar hjá bæjarráði/bæjarstjórn.

    Samþykkt samhljóða.

    Gestum var þakkað fyrir komuna á fundinn og góðar upplýsingar og umræður.

    Bókun fundar Til máls tóku JÓK, LÁB, BÁ, ÁE og GS.
  • Bæjarráð - 604 BÁ vék af fundi undir þessum lið.

    Íbúð fyrir eldri borgara að Hrannarstíg 38 var auglýst laus til umsóknar í apríl. Þrjár umsóknir bárust. Við mat á umsóknum og gögnum með hliðsjón af reglum Grundarfjarðarbæjar um úthlutun íbúða fyrir eldri borgara, var leitað til Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga um frekara mat á umsækjendum.

    Bæjarráð samþykkir samhljóða að úthluta íbúðinni til Maríu Gunnarsdóttur. Skrifstofustjóra falið að ganga frá samningum.

    BÁ tók aftur sæti sitt á fundinum.
  • Bæjarráð - 604 Lögð fram beiðni Félags kraftamanna um styrk vegna gerðar sjónvarpsþáttarins Víkingsins 2023, um keppni sem haldin verður í sumar. Upptökur munu þá fara að hluta til fram í Grundarfirði. Óskað er eftir 250 þús. kr. fjárstyrk, auk gistingar og máltíða.

    Bæjarráð samþykkir samhljóða umbeðna styrkbeiðni.
  • Bæjarráð - 604 GS vék af fundi undir þessum lið.

    Lögð fram beiðni Golfklúbbsins Vestarr um styrk vegna sjónvarpsþáttagerðar um golf, þar sem upptökur færu fram á Bárarvelli. Óskað er eftir 250 þús. kr. fjárstyrk.

    Bæjarráð samþykkir samhljóða umbeðna styrkbeiðni að fjárhæð 250 þús. kr.

    GS tók aftur sæti sitt á fundinum.
  • .9 2301007 Framkvæmdir 2023
    Bæjarráð - 604 Farið yfir framkvæmdaverkefni tengd tjaldsvæði, skólalóð, gatnagerð, sem og önnur framkvæmdaverkefni.

    Bæjarstjóri og íþrótta- og tómstundafulltrúi skoðuðu nýlega salernisgám til kaups fyrir tjaldsvæðið, sbr. framlagðar ljósmyndir. Bæjarráð samþykkir kaup á gámnum skv. fyrirliggjandi tilboði.

    Fyrir fundinum lágu tillögur arkitekts um lóð grunnskóla og íþróttahúss, en vinnan er byggð á framlagi starfshóps, nemenda og starfsfólks.
    Starfshópur um skólalóðina mun fara yfir tillögurnar og ljúka við tillögugerð í næstu viku.

    Rætt um gatnagerð og gerð gangstíga. Kristín fór yfir vinnu sem Landslag, arkitektastofa, hefur unnið varðandi gangstétt/stíg á efri hluta Hrannarstígs í samræmi við aðalskipulag og fyrri tillögur um göngustíga/stéttir. Hún fór yfir þann hluta sem mögulegt væri að framkvæma á þessu ári. Rætt sérstaklega um hönnun fyrir neðri hluta Hrannarstígs, sem er hluti af „miðbæjarsvæði“ þar sem göngusvæði og göturými munu hafa annað útlit og efnisval. Tillögur um það svæði eru væntanlegar í næstu viku og verða til umræðu síðar.
    Farið yfir forgangsröðun í framkvæmdum og sett niður gróft plan, sem bæjarráð mun staðfesta á næsta fundi.

    SGG vék af fundi kl. 9:55. JÓK tók við stjórn fundarins.

  • Lögð fram gögn frá vinnufundi bæjarstjórnar um deiliskipulag iðnaðarhverfisins, sem haldinn var þann 25. apríl sl.
    Bæjarráð - 604 Rætt um framgang deiliskipulagsverkefnisins og um lóðafyrirkomulag.

    Vegna fyrirspurna um lóðir á iðnaðarsvæðinu var rætt um mögulegar frekari breytingar á deiliskipulagi svæðisins og að þær breytingar verði hluti af deiluskipulagsbreytingum í yfirstandandi áfanga.

    Sviðsstjóra falið umboð til að láta gera nauðsynlega útreikninga í tengslum við gatnagerð á svæðinu, sbr. umræður á fundinum og vinnufundi bæjarstjórnar með skipulagsráðgjöfum fyrr í vikunni.

    Samþykkt samhljóða.

    Kristínu var þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar.


  • Bæjarráð - 604 Lögð fram til kynningar eftirlitsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vesturlands á Grunnskóla Grundarfjarðar, eftir úttekt dags. 28. mars sl.
  • Bæjarráð - 604 Lögð fram til kynningar eftirlitsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vesturlands á Þríhyrningi, eftir úttekt dags. 29. mars sl.
  • Bæjarráð - 604 Lögð fram til kynningar skýrsla Slökkviliðs Grundarfjarðar; niðurstöður úr eldvarnaskoðun á húsnæði grunnskóla, íþróttahúss og kjallara, sem framkvæmd var 21. mars sl.
  • Bæjarráð - 604 Lagt fram til kynningar fundarboð aðalfundar Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga sem haldinn verður 2. maí nk.

    Jafnframt lagður fram ársreikningur FSS vegna ársins 2022.
  • Bæjarráð - 604 Lagður fram til kynningar tölvupóstur innviðaráðuneytisins þar sem kjörnum fulltrúum og starfsfólki sveitarfélaga er boðið til fræðslufundar um hinsegin málefni. Samtökin ´78 munu sjá um fræðsluna.
  • Bæjarráð - 604 Lagt fram bréf Samtakanna 22, dags. 11. apríl sl., varðandi hinsegin fræðslu í Grunnskóla Grundarfjarðar.
  • Bæjarráð - 604 Lagt fram minnisblað SSV um fræðsluferð til Skotlands fyrir sveitarstjórnarfulltrúa á Vesturlandi og Norðurlandi vestra, en stefnt er að ferðinni í lok sumars.
    Frestur er gefinn til 10. maí (framlengdur frá því sem fram kemur í bréfi) til að skrá í ferðina.

    Samþykkt að kanna áhuga bæjarfulltrúa á þátttöku.
  • Bæjarráð - 604 Lagður fram tölvupóstur forsætisráðuneytis varðandi fundarferð forsætisráðherra til að kynna Grænbók um sjálfbært Ísland, ásamt auglýsingu um tímasetningar og staðsetningu fundanna víða um land.
  • Bæjarráð - 604 Lagður fram tölvupóstur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, dags. 21. apríl sl., um fundi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um nýtingu vindorku, ásamt auglýsingu um tímasetningar og staðsetningar fundanna víða um land.
  • Bæjarráð - 604 Lagður fram tölvupóstur Samtaka orkusveitarfélaga, dags. 26. apríl sl., um Orkufund 2023 sem haldinn verður í Reykjavík þann 10. maí nk.
  • Bæjarráð - 604 Lögð fram undirrituð samstarfsyfirlýsing Grundarfjarðarbæjar og Snæhopp ehf. um rafhjólaleigu í Grundarfirði, í samræmi við afgreiðslu bæjarstjórnar þann 13. apríl sl.