Málsnúmer 2212021

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 598. fundur - 07.12.2022

Lagðir fram til kynningar minnispunktar um sérsöfnun úrgangs í Snæfellsbæ og Grundarfjarðarbæ eftir spjallfund bæjarstjóra beggja sveitarfélaga með Stefáni Gíslasyni umhverfisráðgjafa Environice, þann 30. nóvember sl.

Bæjarstjóra veitt umboð til að vinna áfram í málinu.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarráð - 605. fundur - 26.05.2023

Lagðir fram minnispunktar frá fundi 23. maí sl. sem bæjarstjóri átti ásamt bæjarstjóra Snæfellsbæjar með Stefáni Gíslasyni hjá Environice ehf., en hann hefur veitt sveitarfélögunum ráðgjöf vegna breytinga í sorpmálum í samræmi við löggjöf þess efnis. Jafnframt lagður fram tölvupóstur Úrvinnslusjóðs og fleiri vinnugögn.

Bæjarstjóri sagði frá rýni- og undirbúningsvinnu með Snæfellsbæ varðandi sorpmálin að undanförnu.

Bæjarráð samþykkir að hefja undirbúning að útboði sorpmála með það fyrir augum að útboð fari fram á árinu. Bæjarstjóra og skrifstofustjóra veitt umboð til að vinna að undirbúningi opins útboðs á sorphirðu, rekstri gámastöðvar og tilheyrandi þjónustu, í heild eða hlutum, í samræmi við þá undirbúningsvinnu sem fram hefur farið. Útboð fari fram í samvinnu við Snæfellsbæ.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarráð - 606. fundur - 28.06.2023

Lagt fram minnisblað Stefáns Gíslasonar hjá Umís, úr umræðum og undirbúningi Grundarfjarðarbæjar og Snæfellsbæjar, vegna útboðs sorpmála.

Rætt um hluta þeirra atriða sem fram koma í greinargóðri samantekt í minnisblaði Stefáns, einkum:

- Fjöldi tunna heima við hús.
Valkostir eru fjórar tunnur (plast, pappi, lífrænt, almennt) eða þrjár tunnur þannig að lífrænt fari ofaní almennu tunnuna ("tunna í tunnu"). Bæjarstjóra falið að kanna tiltekin atriði, í samræmi við umræður fundarins.
- Gerð sorpskýla fyrir grenndargáma, er í vinnslu.
- Staðsetning grenndarstöðva, þar sem tekið yrði á móti - að lágmarki - málmi, gleri og textíl, en móttaka á öðrum flokkum gæti einnig verið æskileg, sbr. minnisblaðið.

Bæjarstjóra falið að vinna áfram að undirbúningi útboðsins.

Bæjarráð - 614. fundur - 16.11.2023

Lögð fram drög að útboðsgögnum.



Í gögnunum felast helstu ákvarðanir sem rædd voru á kynningarfundi með bæjarfulltrúum í síðustu viku, s.s. um tunnufjölda, fyrirkomulag og tíðni sorphirðu ofl.

Til endanlegrar samþykktar í bæjarstjórn í næstu viku.

Bæjarstjórn - 276. fundur - 23.11.2023

Gögn vegna sorpútboðs lögð fram til samþykktar.



Um er að ræða útdrátt úr útboðslýsingu og drög að nýrri sorpsamþykkt.



Allir tóku til máls.

Fyrir tveimur vikum var haldinn kynningarfundur bæjarfulltrúa með ráðgjöfum vegna sorpútboðsins. Helstu atriði í nýju fyrirkomulagi sorpmála eru:

- Fjórar tunnur við heimili séu meginreglan, en að heimili geti óskað eftir þremur tunnum (tvískipt tunna, og möguleikum á 140 L tunnu í stað 240 L)
- Sorphirðutíðni breytist þannig að grænar tunnur (pappi annars vegar og plast hinsvegar) verða losaðar á sex vikna fresti.
- Grenndarstöðvar verði settar upp á tveimur stöðum í dreifbýli og á einum stað í þéttbýli.
- Útboð fer fram með Snæfellsbæ skv. fyrirliggjandi skilmálum.
- Samningstími verði fimm ár með möguleika á framlengingu um tvö ár og síðan eitt ár í senn, að hámarki níu ár.
- Hætt verði með klippikort á söfnunarstöð og því munu einstaklingar og fyrirtæki greiða sérstaklega fyrir að losa sorp á söfnunarstöð.

Framlagðar tillögur samþykktar samhljóða og bæjarstjóra veitt áframhaldandi umboð til framkvæmdar á útboði sorpmála skv. framlögðum skilmálum.

Lögð fram drög að samþykkt Grundarfjarðarbæjar um meðhöndlun úrgangs, en í lögum og reglugerð um meðhöndlun úrgangs segir að í samþykkt skuli sveitarstjórn ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Þar skuli tilgreind atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í sorpsamþykkt sé heimilt að kveða á um fyrirkomulag sorphirðu, skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang, stærð, gerð, staðsetningu og merkingu sorpíláta og sambærileg atriði.

Framlögð tillaga að nýrri sorpsamþykkt fyrir Grundarfjarðarbæ er samþykkt með fyrirvara um minniháttar lagfæringar skv. fyrirliggjandi tillögu bæjarstjóra.

Bæjarstjóra falið að óska eftir umsögn heilbrigðisnefndar um samþykktardrögin og að því loknu kemur samþykktin til lokaafgreiðslu hjá bæjarstjórn og verður síðan send til ráðherra til staðfestingar og að lokum birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 279. fundur - 11.01.2024

Í nóvember sl. voru lögð fram drög að nýrri sorpsamþykkt Grundarfjarðarbæjar og rædd við fyrri umræðu.



Samþykktin fór í yfirlestur Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og hefur síðan í desember verið í samþykktarferli í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Bæjarstjórn samþykkir samþykktina við aðra umræðu og felur skrifstofustjóra að senda ráðuneytinu samþykktina til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 279. fundur - 11.01.2024

Lögð fram til kynningar auglýsing á útboði sorphirðu sem Ríkiskaup annast fyrir Grundarfjarðarbæ og Snæfellsbæ. Tilboð verða opnuð 24. janúar nk.

Bæjarstjórn - 284. fundur - 11.04.2024

Lögð fram samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Grundarfjarðarbæ til þriðju umræðu í bæjarstjórn, með örlitlum breytingum skv. ábendingum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.



Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Grundarfjarðarbæ samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 289. fundur - 12.09.2024

Bæjarstjóri kynnti stöðu mála vegna breytinga í sorpmálum.



Allir tóku til máls.

Lagður fram bæklingur þar sem kynntar eru breytingar í sorpmálum, en bæklingnum verður dreift í hvert hús á næstu dögum.

Breytingar felast m.a. í eftirfarandi:

- dreifing á fjórðu tunnunni til heimila fer fram í lok september
- merking á tunnum, með límmiðum
- uppsetning grenndarstöðva á 2 stöðum í dreifbýli (fjórir flokkar, fyrir sumarhúsin í dreifbýli - sömu flokkar og fyrir heimilin)
- uppsetning grenndarstöðvar á 1 stað í þéttbýli (gler, málmar)

Rætt um móttöku á textíl (vefnaðarvöru, fatnaði og líni) en það er nú lagaskylda sveitarfélaga að taka á móti textíl. Ekki er úrvinnslugjald á textíl og er það klárlega atriði sem þarf að endurskoða.

Bæjarstjórn - 290. fundur - 08.10.2024

Lögð fram til umræðu samþykkt um meðhöndlun úrgangs, með örfáum viðbótarbreytingum að tillögu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.



Samþykkt Grundarfjarðarbæjar um meðhöndlun úrgangs, með framlögðum breytingum, samþykkt samhljóða.