Málsnúmer 2211011

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 596. fundur - 09.11.2022

Lagt fram erindi frá Skíðadeild UMFG varðandi hugmynd að nýju þjónustuhúsi fyrir skíðasvæði, sem jafnframt myndi nýtast sem þjónustuhús fyrir tjaldsvæði á sumrin. Í erindinu er óskað eftir samtali við stjórnendur Grundarfjarðarbæjar um hugmyndina.
Bæjarráð þakkar fyrir vel unna fyrirspurn og hugmynd Skíðadeildarinnar og samþykkir að bjóða fulltrúum Skíðadeildarinnar til fundar um málið. Skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa, ásamt íþrótta- og tómstundafulltrúa, verði jafnframt boðið til fundarins.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 242. fundur - 15.11.2022

Lagt fram erindi frá Skíðadeild UMFG vegna mögulegrar uppbyggingar á þjónustuhúsi sem nýst geti skíðasvæðinu og tjaldsvæðinu.

Forsaga:
Árið 2020 markaði bæjarstjórn fjármuni í deiliskipulagsvinnu fyrir útivistarsvæði ofan byggðar, þ.e. skíðasvæði undir Eldhömrum (ÍÞ-3), Frístundahúsabyggð (F-2) ásamt vegi sem liggja eigi frá Grundargötu austan við hestahúsahverfi (ÍÞ-1) og tengir svæðin saman.
Vegna heimsfaraldurs og fleira varð ekki úr þeirri vinnu.

Á 596. fundi sínum þann 9. nóvember sl. tók bæjarráð fyrir erindi Skíðadeildar UMFG, sem hér er einnig framlagt, og samþykkti að bjóða fulltrúum Skíðadeildarinnar til fundar um málið með skipulagsfulltrúa, byggingarfulltrúa og íþrótta- og tómstundafulltrúa.

Skipulags- og umhverfisnefnd tekur fyrir sitt leyti vel í erindi Skíðadeildar UMFG og telur vera þörf fyrir slíkt þjónustuhús.

Nefndin leggur á það áherslu að skoða þurfi vel staðsetningu þjónustuhúss þannig að það nýtist fjölbreyttri árstíðabundinni notkun.

Nefndin leggur áherslu á að hefja þurfi deiliskipulagsvinnu fyrir framtíðarskíðasvæðið uppundir Eldhömrum (ÍÞ-3) og frístundahúsabyggð (F-2) og veg sem liggi frá Grundargötu fram hjá hesthúsabyggð (ÍÞ-1) og að nýju skíðasvæði, og að tekin verði ákvörðun um framtíðarstaðsetningu þjónustuhúss í þeirri vinnu.

Þar sem deiliskipulag fyrir ofangreind svæði taki tíma, leggur nefndin til að skoðuð verði staðsetning til bráðabirgða á núverandi skíðasvæði (ÍÞ-4) þannig að það samnýtist afþreyingar- og ferðamannasvæðinu (AF-2 tjaldsvæðið) og sundlaugar- og íþróttasvæðinu (ÍÞ-5). Nefndin leggur til að annaðhvort verði valin bygging sem mögulegt verði að flytja á nýtt skíðasvæði þegar þar að kemur eða að byggingunni verði valinn staður til frambúðar þannig að hún nýtist í framtíðinni sem þjónustuhús fyrir tjaldsvæðið.

Bæjarráð - 617. fundur - 28.02.2024

Lögð fram gögn skíðadeildar UMFG með hugmynd að þjónustuhúsi.

Rut Rúnarsdóttir og Jón Pétur Pétursson frá skíðadeildinni sátu fundinn undir þessum lið, ásamt Sigurði Val Ásbjarnarsyni og Ólafi Ólafssyni.

Jón Pétur og Rut gerðu grein fyrir hugmynd að uppsetningu þjónustuhúss og uppbyggingu skíðasvæðisins.

Rætt um möguleika á að samnýta þjónustuhúsið með þjónustu bæjarins.

Einnig rætt um bókun skipulags- og umhverfisnefndar varðandi það að losa jarðvegsefni til uppfyllingar á skíðasvæði til hagsbóta fyrir svæðið.

Bæjarráð tekur vel í hugmynd um nýtt þjónustuhús á svæðinu og felur skipulagsfulltrúa og íþrótta- og tómstundafulltrúa að vinna með fulltrúum skíðadeildar að nánari tillögu um bæði framangreind efni sem bæjarráð mun taka til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða.

Gestunum var þakkað fyrir komuna á fundinn.

Gestir

  • Jón Pétur Pétursson - mæting: 08:30
  • Rut Rúnarsdóttir - mæting: 08:30
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi - mæting: 08:30
  • Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi - mæting: 08:30

Skipulags- og umhverfisnefnd - 257. fundur - 21.03.2024

Fulltrúar Skíðadeildar (Skíðasvæði Snæfellsness) komu til viðræðna við bæjarráð á fundi 28. febrúar sl. Á þeim fundi var farið yfir hugmyndir þeirra um aðstöðuhús fyrir skíðasvæðið, rætt hvort og hvernig mætti nýta jarðvegsefni til fyllingar í brekkur svæðisins, um aðkomu að svæðinu og fleira.



Í framhaldi af fundi bæjarráðs fóru skipulagsfulltrúi, íþrótta- og tómstundafulltrúi og verkstjóri áhaldahúss í vettvangsferð með fulltrúum deildarinnar og eru lagðir fram minnispunktar skipulagsfulltrúa um það samtal og auk þess uppfærðar teikningar frá Skíðasvæði Snæfellsness af aðstöðuhúsi og mögulegri staðsetningu þess.



Skipulagsfulltrúi og bæjarstjóri sögðu frá samtölum við fulltrúa Skíðadeildarinnar.

Rætt var um skipulag á svæðinu, m.a. með hliðsjón af umræðu síðustu vikna um breytingar á deiliskipulagi Ölkeldudals og sunnanverðu skóla- og íþróttasvæði og áhrif á nærliggjandi svæði.

Skipulags- og umhverfisnefnd tekur jákvætt í hugmyndir Skíðadeildar um staðsetningu aðstöðuhúss og er skipulagsfulltrúa falið að vinna áfram að málinu með fulltrúum Skíðadeildar.

Gestir

  • Þóra Kjarval skipulagsráðgjafi v. Ölkdeldudals