Þann 6. apríl sl. áttu bæjarfulltrúar fund í samkomuhúsinu með starfsfólki leikskólans. Fundurinn var liður í þeirri vinnu sem nú fer fram við endurskoðun og uppbyggingu innra starfs í leikskólanum. Samtalið var mjög gagnlegt og snerist um (1) hvernig mætti styrkja leikskólastigið, (2) hvernig megi auka skilning (allra) á tilgangi leikskólastarfs, skv. lögum og aðalnámskrá, og (3) hvernig megi styrkja starfsumhverfið og samvinnu. Umræður fóru fram í fjórum hópum og í lokin deildu hóparnir niðurstöðum úr umræðum sínum.
Það sem einkum er til skoðunar nú er "skipulag og barngildi" þar sem unnið er með starfsfólki leikskólans að því að rýna fyrirkomulag starfseminnar og finna bestu útfærslur m.v. starfið í dag. Auk þess er unnið að endurskoðun verklags við veitingu sérkennslu og stuðnings.
Út úr vinnunni kemur eftirfarandi:
i) dagsskipulag, sett niður eftir rýni starfsfólks (mögulega breytt frá því sem nú er)
ii) tillaga um endurskoðuð barngildisviðmið, þ.e. mönnun og skipulag út frá viðmiðum um barngildi fyrir leikskólastig,
iii) tillaga um fyrirkomulag við að meta sérkennsluþörf nemenda og viðmið um stuðning, og um stjórnskipulag og verklag skólans við að veita þá þjónustu
og
iv) svokallaðar "fáliðunarreglur", sem eru bindandi viðmið um hvernig unnið er þegar margir starfsmenn eru forfallaðir eða þegar ekki tekst að ráða leikskólakennara/starfsfólk. Slíkar reglur hafa verið settar hjá mörgum sveitarfélögum/leikskólum, m.a. hjá Reykjavíkurborg.
Liðir ii), iii) og iv) eru teknir til umsagnar í skólanefnd og bæjarráði, og til staðfestingar hjá bæjarstjórn. Ætlunin er að þær tillögur verði tilbúnar og teknar fyrir í bæjarráði og skólanefnd fyrir páska.
Rætt var um mönnun í leikskólanum. Þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar eftir starfsfólki hefur ekki tekist að ráða að fullu í afleysingar vegna þeirra starfsmanna sem nú eru í leyfi vegna fæðingarorlofs og í lækkuðu starfshlutfalli vegna náms.
Á þessu ári hefur einnig gengið erfiðlega að manna stöður í eldhúsi.
Af þessum sökum hefur ekki verið unnt að taka inn tvö 12 mánaða gömul börn nú í mars. Tvö börn verða síðan 12 mánaða í apríl.
Bæjarráð tekur undir með leikskólastjóra, um að ekki sé hægt að fórna gæðum leikskólastarfsins með því að taka inn börn umfram það sem mönnun leyfir. Inntaka 12 mánaða barna í leikskólann sé því alltaf háð þeim skilyrðum að hægt sé að tryggja öryggi og gæði í leikskólastarfi.
Leikskólastjóri ræddi sérstaklega um starfsemi eldhúss í leikskólanum, um mönnun og fyrirkomulag, sem hefur verið talsverð áskorun undanfarnar vikur.
Heiðdísi var þakkað fyrir komuna og góðar umræður og vék hún hér af fundinum.