Málsnúmer 2203038

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 585. fundur - 22.03.2022

Kristín Þorleifsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsmála og skipulagsfulltrúi er gestur undir þessum dagskrárlið.

Formaður bauð Kristínu velkomna á fundinn.
Kristín fór yfir helstu verkefni við uppbyggingu nýs sameiginlegs skipulags- og umhverfissviðs, sem bærinn stendur að í samvinnu við Stykkishólmsbæ, Eyja- og Miklaholtshrepp og Helgafellssveit.

Kristín tók til starfa í ágúst sl. og Fannar Þór Þorfinnsson, sem er byggingarfulltrúi, í október sl. Að auki er Þuríður Gía Jóhannesdóttir í 50% starfi sem aðstoðarmaður á sviðinu með aðsetur í Grundarfirði og í Stykkishólmi er annar aðstoðarmaður í 50% starfi. Undir sviðið heyra áhaldahús og fasteignaumsjón og hafa Kristín og Fannar Þór verklega yfir þeim einingum að segja, en bæjarstjórarnir fara með það sem lýtur að ráðningar- og starfsmannahluta eininganna. Lagt hefur verið uppúr því að koma á skilvirku verklagi og verkaskiptingu. Haldnir eru mánaðarlegir sviðsfundir þar sem farið er yfir verkefnastöðu sviðsins, auk þess sem Fannar vinnur með verkstjórum og fasteignaumsjón og fylgist með framgangi verkefna þeirra.

Komið hefur verið á fastri viðveru skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa í Grundarfirði og Stykkishólmi, og í hinum sveitarfélögunum tveimur eftir þörfum.

Unnið hefur verið að því að uppfæra ýmis grunngögn, sem nauðsynleg eru í starfseminni. Fram kom t.d. að skipulagsvefsjá Grundarfjarðarbæjar sé að nýtast mjög vel og alltaf sé að bætast við virkni og gögn. Sjá hér: https://geo.alta.is/grundarfjordur/vefsja/

Gjaldskrár mun þurfa að endurskoða og samræma að einhverju leyti.

Kristín sagði ennfremur frá skipulagsverkefnum sem eru í gangi í Grundarfirði.

Unnið hefur verið að endurskoðun á deiliskipulagi Ölkeldudals. Í samræmi við aðalskipulag, verður gert ráð fyrir nýjum íbúðarlóðum upp eftir Ölkelduvegi. Auk þess verður bætt við lóðum vestan við dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól, fyrir íbúðir ætlaðar fólki 60 ára og eldri. Fram kom hjá bæjarstjóra að lóðirnar eru innan eignarlóðar Fellaskjóls og að stjórn Fellaskjóls óski eftir því að bærinn kaupi svæðið út úr lóð Fellaskjóls.

Í undirbúningi er vinna við nýtt deiliskipulag á Framnesi, sem bæjarstjórn hefur ákveðið að láta vinna. Auk þess endurskoðun á gildandi deiliskipulagi Framness austan Nesvegar (hafnarsvæði). Ætlunin er þá að útvíkka skipulagið þannig að það nái yfir Norðurgarð og athafnalóðirnar þar, og mögulega stærra svæði einnig.
Kristín sagði frá vali á skipulagsráðgjöfum í þessi tvö deiliskipulagsverkefni sem fara eiga af stað á næstunni. Það er orðið mjög aðkallandi að breyta deiliskipulagi Framness austan Nesvegar (hafnarsvæðis). Áhersla er á að ljúka því sem fyrst - og á undan deiliskipulagi Framness - þó í upphafi séu svæðin rýnd samhliða.

Rætt var um uppbyggingu og lóðir fyrir íbúðarhúsnæði og um miðbæjarreit (Grundargata/Hrannarstígur/Hamrahlíð) og möguleika til uppbyggingar þar, sjá reit innan miðbæjarsvæðis, M-1 í skipulagsuppdrætti - sjá hér:
https://www.grundarfjordur.is/static/files/Byggingarfulltrui/Ask_2019_2039/ask-grfj-thettbylisuppdrattur.pdf

Einnig rætt um tækifæri tengd frístundabyggð (F-2) sem skipulögð er sunnan hesthúsabyggðar.

Að lokum voru einnig ræddar hugmyndir um að fegra miðbæjarreitinn ("Víkingasvæðið" og nærliggjandi plan) með einföldum hætti í sumar, en bæjarstjórn gerði ráð fyrir fjármunum í einfaldar aðgerðir í því skyni.

Kristínu var þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar og vék hún hér af fundinum.

Gestir

  • Kristín Þorleifsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsmála og skipulagsfulltrúi - mæting: 16:35