Málsnúmer 2110002

Vakta málsnúmer

Menningarnefnd - 30. fundur - 13.10.2021

Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri kom inná fund nefndarinnar að hluta til undir dagskrárlið 2.
Fyrir nefndinni liggur endurskoðuð menningarstefna Vesturlands, sem haustþing Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) vísaði til sveitarstjórna til umsagnar og lögð hefur verið fyrir menningarnefnd til skoðunar og umsagnar.
Aðdragandinn er sá að í samningi á milli stjórnvalda og SSV er kveðið á um að Sóknaráætlun Vesturlands 2020-2024 skuli marka stefnu landshlutans í menningarmálum. Menningarstefna frá 2016 hefur nú verið endurskoðuð og er áfram eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Vesturlands. Um vinnuna sá fagráð skipað fulltrúum allra sveitarfélaga á Vesturlandi og fjórum einstaklingum með menningartengdar atvinnugreinar sem aðalstarf. Fagráðið hafði til hliðsjónar framtíðarsýn Sóknaráætlunar Vesturlands um menningu, þ.e. að auka hlutdeild skapandi greina í atvinnulífinu, efla menningarstarfsemi og gera áþreifanlega í verðmætasköpun landshlutans. Leitað var til íbúa á Vesturlandi og haldnir fimm opnir samráðsfundir um tiltekin viðfangsefni stefnunnar. Afraksturinn er nú kominn í stefnuform og til umsagnar sveitarstjórna á svæðinu.

Í inngangi stefnunnar segir m.a. eftirfarandi:

Vesturland er eftirsóknarvert landsvæði sem iðar af mannlífi og menningu. Í stöðumati Sóknaráætlunar segir að Vesturland hafi yfir að búa öflugu menningarstarfi sem eykur lífsgæði íbúa og dregur að gesti. Framlegð skapandi greina til heildarinnar sé þar einna hæst á landinu og að á Vesturlandi liggi gríðarleg tækifæri í að tengja matvælaframleiðslu, menningu og þjónustu við ferðafólk.
Sífellt meiri fjölbreytni færist í atvinnulíf svæðisins en í framtíðarsýn Sóknaráætlunar Vesturlands segir að ný atvinnutækifæri hafi stutt við fólksfjölgun á svæðinu. Ungt fólk sjái landshlutann sem aðlaðandi kost til búsetu í krafti góðrar þjónustu, sterkra innviða, öflugs atvinnulífs og menningarstarfs. Þar að auki má ætla að það svigrúm sem víða hefur myndast með störfum án staðsetningar gæti skapað ný tækifæri og haft jákvæð áhrif á mannfjöldaþróun svæðisins og samsetningu íbúa.
Fagráð var sammála um að leggja sérstaka áherslu á atvinnugreinar menningar, menningu minnihlutahópa eins og t.d. Vestlendinga af erlendum uppruna og að stefnan sé mótuð út frá Vesturlandi sem heild.
Menningarstefnunni er ætlað að mynda grunn fyrir ákvarðanatöku SSV í menningarmálum, þ.m.t. við úthlutun verkefnastyrkja og stofn- og rekstrarstyrkja úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Jafnframt er ætlunin að Menningarstefna Vesturlands verði fyrirmynd sveitarfélaganna í landshlutanum í stefnumótun menningarmála á sínum svæðum.

---
Í stefnunni eru sett mælanleg markmið til að auðvelda mat á árangri og framvindu aðgerða. Markmiðin snúa að eftirtöldum þáttum:
I.
Menningaruppeldi
1.
Fjölbreyttir möguleikar á Vesturlandi til menntunar í menningu og listum
2.
Áhersla á menningu allra aldurshópa
3.
Börn og ungmenni njóti menningar óháð búsetu, efnahag eða uppruna
II.
Listir
1.
Listir fái aukið vægi í daglegu lífi á Vesturlandi
2.
Áhersla á fjölbreyttar listir og samtímalist
3.
Stefnt að eflingu listahátíða á Vesturlandi
III.
Nýsköpun og skapandi greinar
1.
Greiður aðgangur að ráðgjöf og fjárstuðningi við nýsköpunarverkefni í menningarmálum og skapandi greinum
2.
Þverfaglegt samstarf fyrirtækja í öllum atvinnugreinum á Vesturlandi við aðila í nýsköpun og menningargreinum
3.
Hvatt til menningartengdrar nýsköpunar, menningarstarfs eða fjárfestingar í menningu með verðlaunum eða viðurkenningum
4.
Kynning á nýsköpun ásamt menningartengdum og skapandi atvinnugreinum
IV.
Menningararfur
1.
Menningararfur Vesturlands verði áberandi þáttur í markaðssetningu svæðisins
2.
Góð aðstaða sé til menningarstarfs á Vesturlandi og metnaðarfullt safnastarf
3.
Merkingar við þjóðleiðir og alla helstu staði á Vesturlandi sem hafa sögu- og menningarlegt gildi
4.
Menningarlandslag Vesturlands verði kortlagt og kynnt
5.
Áhersla á verndun gamalla húsa og annarra mannvirkja er hafa sögu- og menningarlegt gildi
V.
Samvinna
1.
Samstarf sveitarfélaga um menningarviðburði, skapandi greinar og skipulag menningarmála á svæðinu
2.
Samstarf sveitarfélaga um safnamál á Vesturlandi
3.
Félagsheimili og annað vannýtt húsnæði í opinberri eigu nýtt enn frekar til menningarstarfs og skapandi greina.
4.
Stuðlað að uppbyggingu menningarhúsa á Vesturlandi í samræmi við þróun í öðrum landshlutum.
Menningarnefnd fagnar endurskoðaðri menningarstefnu fyrir Vesturland og þakkar fyrir þá vinnu sem að baki býr. Menning er mikilvægur þáttur í atvinnulífi samfélaga eins og Grundarfjarðar og í framtíðinni má búast við fjölgun á beinum og afleiddum störfum í menningu og listum. Menningarnefnd telur að það geti falist stuðningur í því fyrir nefndina að vinna með þær aðgerðir sem fram eru settar í stefnunni, einkum þær aðgerðir sem tala beint til einstakra sveitarfélaga og inná verksvið menningarnefnda. Einnig telur nefndin mjög jákvætt að aðgerðir gangi út á að bæta stuðningsnet og upplýsingamiðlun, eins og fyrir nýliða í rekstri og um fjármögnunarmöguleika fyrir nýsköpunarverkefni, sjóði o.fl., kynna tækifæri í menningartengdum atvinnugreinum, að auka samstarf á svæðinu og efla tengslanet.

Menningarnefnd bendir á að í Svæðisskipulagi Snæfellsness er að finna fjölmargar aðgerðir með svipaðan tilgang sem tækifæri er þá til að vinna að, samhliða því sem menningarstefna Vesturlands gerir ráð fyrir. Nefndin leggur áherslu á að menning eigi að ná til allra hópa samfélagsins. Nefndin lýsir sérstakri ánægju með að myndaður sé hvati til að safna munnlegri geymd með viðtölum og halda skráningu sagna frá eldri íbúum Vesturlands. Nefndin telur ekki tímabært að stofna Listasafn Vesturlands, með fyrirvara um að útfærslu vantar á þessu verkefni í stefnunni. Nefndin sér hins vegar tækifæri í auknu samstarfi safna á svæðinu og telur mikilvægt að styðja við þau söfn, setur og sýningastarf sem þegar er haldið úti á svæðinu.
Nefndin bendir á að hagkvæmt gæti verið að númera aðgerðir undir hverju markmiði, til að auðvelda umfjöllun og vinnu með stefnuna.

Gestir

  • Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri

Bæjarstjórn - 252. fundur - 14.10.2021

Bæjarstjórn vísar í bókun á fundi menningarnefndar þann 13. október sl., en nefndin tók menningarstefnu Vesturlands til umsagnar.

Bæjarstjórn tekur undir með menningarnefnd og fagnar endurskoðaðri stefnu. Bæjarstjórn gerir umsögn menningarnefndar að sinni. Umsögnin verður send til SSV.

Samþykkt samhljóða.

Allir tóku til máls.