Málsnúmer 2108011

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 574. fundur - 30.08.2021

Lögð fram tillaga bæjarráðs, byggð á vinnu bæjarfulltrúa, um skipulagsbreytingar sem snerta íþrótta- og æskulýðsmál, fræðslumál, forvarnir og félagsstarf.

Eftirfarandi tillaga lögð fram og jafnframt bókuð í trúnaðarmálabók (sjá breytingu hér fyrir neðan).

„Í stefnumótunarvinnu bæjarstjórnar voru íþrótta-, æskulýðs- og skólamál, forvarnir og félagsstarf, m.a. til skoðunar. Í drögum að heildarstefnu, sem m.a. tekur yfir málefni fjölskyldustefnu o.fl., er að finna áform um að sinna með markvissari hætti þessum viðfangsefnum, stuðla að auknum tengslum við frjáls félagasamtök og vinna að því að efla lýðheilsu íbúa.

Í rekstrar- og stjórnsýsluúttekt HLH ráðgjafar ehf., sem unnin var fyrir Grundarfjarðarbæ 2020, voru lagðar fram fjölmargar tillögur sem snúa að rekstrarþáttum, fjárhag og stjórnsýslu Grundarfjarðarbæjar.
Í tillögum sem snúa að stjórnsýslu og stjórnskipulagi er m.a. að finna tillögu um að stofnað verði nýtt starf íþrótta- og tómstundafulltrúa, með skipulagsbreytingu.

Hér er lögð fram slík tillaga, með starfslýsingu fyrir hið nýja starf. Starfsþættir eru úr störfum sbr. starfslýsingar forstöðumanns íþróttamannvirkja, menningar- og markaðsfulltrúa og frístundaleiðbeinanda (forstöðumaður félagsmiðstöðvar), auk þess sem bætt er við nýjum þáttum, sem ekki hefur áður verið sinnt og/eða ekki verið skýrt kveðið á um í starfslýsingum í stjórnkerfi Grundarfjarðarbæjar.

Í kjölfar fyrrgreindrar vinnu er nú lagt til að innleidd verði skipulagsbreyting með stofnun nýs starfs íþrótta- og tómstundafulltrúa. Samhliða, að lagt verði niður 100% starf forstöðumanns íþróttamannvirkja og 32,15% starf frístundaleiðbeinanda (forstöðumanns félagsmiðstöðvar). Um hið nýja starf fari skv. 2. gr. starfsreglna bæjarstjórnar við ráðningu starfsmanna.

Breytingin taki gildi þann 1. desember 2021 og miðast starfslok starfsmanna í störfum sem lögð verða niður þannig við 30. nóvember 2021, nema samkomulag verði gert um annað fyrirkomulag við umrædda starfsmenn, í kjölfar uppsagnar. Bæjarstjóra verði falið að annast frágang starfsloka, auglýsingu nýs starfs og umsjón ráðningarferlis þannig að gerð verði tillaga til bæjarstjórnar um ráðningu í starfið að undangengnu rökstuddu mati.

Bæjarstjóra verði falið að uppfæra skipurit bæjarins til samræmis við samþykkt bæjarstjórnar. Þá verði bæjarstjóra falið að uppfæra stjórnskipulag og innri reglur til samræmis við samþykktina.“

Framlögð gögn;
- Greinargerð bæjarráðs, dags. 19. ágúst 2021, með tillögu um nýja starfslýsingu
- Stefnumótunarvinna bæjarstjórnar, sbr. vinnuskjal og efni vinnu með Capacent 2019-2020
- Tillaga HLH ráðgjafar ehf. til bæjarstjórnar, 2020, um málefnið
- Erindisbréf íþrótta- og æskulýðsnefndar, sjá hér: https://www.grundarfjordur.is/static/files/files/erindisbref-fyrir-ithrotta-og-aeskulydsnefnd-april-2014.pdf
- Erindisbréf öldungaráðs, sjá hér:
https://www.grundarfjordur.is/static/files/erindisbref-oldungarads-grundarfjardar.pdf
- Erindisbréf ungmennaráðs, sjá hér:
https://www.grundarfjordur.is/static/files/erindisbref-ungmennarads.pdf
- Starfslýsing menningar- og markaðsfulltrúa, maí 2018
- Starfslýsing forstöðumanns íþróttamannvirkja, júní/júlí 2012


--

Bæjarráð samþykkir samhljóða að stofna nýtt starf íþrótta- og tómstundafulltrúa. Samhliða verði lagt niður 100% starf forstöðumanns íþróttamannvirkja og 32,15% starf frístundaleiðbeinanda (forstöðumanns félagsmiðstöðvar). Nýtt skipulag skv. bókun þessari taki gildi þann 1. desember 2021.

Bæjarstjóra er falið að annast frágang starfsloka skv. ákvörðun þessari, auglýsingu nýs starfs og umsjón ráðningarferlis þannig að gerð verði tillaga til bæjarstjórnar um ráðningu í starfið að undangengnu rökstuddu mati. Bæjarstjóra er falið að uppfæra skipurit bæjarins til samræmis við samþykkt bæjarráðs. Þá er bæjarstjóra falið að uppfæra stjórnskipulag og innri reglur til samræmis við samþykktina.


Bókun þessi er gerð í trúnaðarmálabók bæjarstjórnar. Trúnaði af bókuninni verði aflétt þegar viðkomandi aðilum hefur verið kynnt þessi ráðstöfun. Samþykkt samhljóða.

// Kl. 23:00 þann 30. ágúst 2021: Trúnaði aflétt og bókun birt.

Íþrótta- og tómstundanefnd - 102. fundur - 03.09.2021

Samþykkt bæjarráðs frá 30. ágúst 2021 er lögð fyrir til kynningar. Þar á meðal eru drög að starfslýsingu nýs starfs íþrótta- og tómstundafulltrúa til umsagnar.


Íþrótta- og æskulýðsnefnd fagnar ákvörðun um stofnun nýs starfs íþrótta- og tómstundafulltrúa og telur að það hafi verið tímabært. Nefndin telur þetta jákvætt skref í átt að öflugu og faglegu starfi á sviði íþrótta- og tómstundamála. Nefndin er ánægð með að lýðheilsumál komi nú inn sem sérstakt viðfangsefni á málefnasviðinu. Ennfremur telur nefndin mjög af hinu góða að íþrótta- og tómstundafulltrúi hafi frumkvæði að auknu samstarfi milli félagasamtaka og mögulegri samræmingu í íþrótta- og forvarnastarfi í bænum.

Bæjarstjórn - 253. fundur - 18.11.2021

Fyrir fundinum lágu umsóknargögn allra umsækjenda og greinargerð með mati á umsóknum og viðtölum vegna nýs starfs íþrótta- og tómstundafulltrúa.

Starfið var auglýst laust til umsóknar og sóttu átta um starfið, í gegnum ráðningarvefinn alfred.is.

Öllum var boðið í forviðtal gegnum ráðningarvefinn alfred.is og tóku fimm þátt. Byggt á gögnum og mati eftir viðtölin var þremur umsækjendum boðið í annað viðtal vegna starfsins með fulltrúa Attentus, bæjarstjóra og tveimur fulltrúum bæjarstjórnar, þ.e. formanni bæjarráðs og varabæjarfulltrúa/varafulltrúa í íþrótta- og æskulýðsnefnd.

Að þeim viðtölum loknum var unnin fundargerð og matstafla, byggð á öllum umsóknargögnum og viðtölunum tveimur.

Niðurstaða úr því mati var að Ólafur Ólafsson taldist hæfastur til að gegna starfinu.

Bæjarfulltrúum var veitt tækifæri til að skoða öll gögnin þann 12. nóvember sl. og setja fram spurningar til fulltrúanna sem tóku viðtölin, út frá fyrirliggjandi gögnum um umsóknir og ráðningarferlið.

Farið yfir fyrirliggjandi gögn, ekki síst matstöflu.

Allir tóku til máls.

Lagt er til að gengið verði frá ráðningu Ólafs í starfið. Bæjarstjóra falið að ganga frá ráðningarsamningi í samræmi við ákvörðun bæjarstjórnar.

Samþykkt samhljóða.