Málsnúmer 2105005F

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 250. fundur - 10.06.2021

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 228. fundar skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Lóðarhafi að Ártúni 2 óskar eftir byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra útlitsbreytinga á húsinu sem nánar eru skilgreindar á teikningu.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 228 Í greinargerð fyrir samþykkt deiliskipulag iðnaðar- og athafnasvæðis vestan Kvernár er meðal annars kveðið á um samræmt útlit bygginga, sbr. gr. 3.7 um húsagerð og litaval. Hafa skal það til hliðsjónar við val á utanhússklæðningu.

    Þar sem um er að ræða umtalsverðar útlitsbreytingar á gluggum og innkeyrsluhurðum er rétt að vísa málinu í grenndarkynningu.

    Skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að grenndarkynna fyrirhugaðar breytingar til nærliggjandi lóðarhafa eða þeirra sem gætu átt hagsmuna að gæta sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Um er að ræða eigendur að Ártúni 1, Ártúni 3 og Ártúni 4.

    Skipulags- og byggingarfulltrúi lagði auk þess fram nýtt lóðarblað að umræddri lóð.

    Berist engar athugasemdir úr grenndarkynningu er skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi sbr. 2.4.4 gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 með síðari breytingum.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Lögð fram til afgreiðslu lokaútgáfa deiliskipulagsbreytingar vegna Ölkeldudals. Skipulags- og umhverfisnefnd - 228 Unnin hefur verið tillaga að breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals, dags. 13.3.2003 m.s.br.

    Í breytingunni felst að skipuleggja 3-4 nýjar lóðir við Ölkelduveg og 2 nýjar lóðir við Fellasneið. Mörk deiliskipulagsins stækka til vesturs um rúma 3200 m2. Breytingin er í samræmi við aðalskipulag.

    Samhliða breytingunni er uppdráttur uppfærður m.t.t. uppbyggingar á svæðinu seinustu ár.

    Breytingin verður auglýst í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 er lögð áhersla á að byggja í eyður í byggðinni til að nýta grunnkerfi sem best og skapa heildstæðari byggð með sem stystum vegalengdum í fyrirliggandi þjónustu, með hagsmuni íbúa og bæjarsjóðs í huga.

    Í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir nýjum lóðum fyrir íbúðarhúsnæði á reit ÍB-5 meðfram Ölkelduvegi í átt að Fellasneið.
    Reitur ÍB-5 er innan marka deiliskipulags Ölkeldudals.
    Við Fellasneið 5 og 7 hafa um langt skeið verið tvær lóðir fyrir sérbýli lausar til úthlutunar.
    Á lóð við Fellasneið 3 er nú ekki gert ráð fyrir uppbyggingu. Lóðirnar eru innan landnotkunarreits ÍB-3 og eru ódeiliskipulagðar. Þar sem talsverður áhugi er á uppbyggingu innan bæjarins og þörf er á fjölbreyttum íbúðum er lóðunum tveimur bætt við deiliskipulag Ölkeldudals og nánari skilmálar settir um þær.

    Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framlögð drög að tillögu um breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að auglýsa umrædda breytingu í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Bókun fundar Allir tóku til máls.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar, en óskar eftir því að skipulags- og umhverfisnefnd taki til skoðunar hugmynd sem upp hefur komið um að auka við lóðir inní umræddum deiliskipulagsreit.

    Á meðan það er skoðað verði auglýsingu deiliskipulagstillögu frestað.

    Samþykkt samhljóða.
  • Lögð fram beiðni vegna stækkunar á lóð að Ártúni 5 um 3 metra til suðurs, til að aðkoma verði að baklóð hússins. Eigandi lagði fram reyndarteikningar af húsnæðinu.


    Skipulags- og umhverfisnefnd - 228 Runólfur vék af fundi undir þessum lið

    Við samanburð á framlögðu lóðarblaði kemur fram að stærð lóðarinnar er í samræmi við þegar samþykkt deiliskipulag (breytingu) frá 2008.

    Nefndin gerir ekki athugasemdir við erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að samþykkja umrædda breytingu. Einnig felur hún skipulags- og byggingarfulltrúa að samþykkja reyndarteikningu af eldri helmingi hússins og nýrri grunnmynd að þegar byggðri viðbyggingu.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Lóðarhafi að Borgarbraut 9 leggur fram nýja reyndarteikningu vegna bílskúrs.
    Sótt er um breytta notkun þar sem bílskúrinn sem upphaflega var sótt um er nú nýttur sem geymsla og þvottahús fyrir gistiheimili.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 228 Á reyndarteikningum kemur fram að bílskúr/geymslu hefur verið breytt í geymslu/þvottahús. Fram hefur komið að rýmið hafi verið nýtt sem þvottahús til að þjónusta gistiheimili í eigu umsækjanda.

    Í þessu ljósi telur nefndin skylt að grenndarkynna starfsemina og breytt not húss fyrir íbúum nærliggjandi húsa, þ.e. að Borgarbraut 7, Borgarbraut 10, Hlíðarvegi 8, Hlíðarvegi 10, Hlíðarvegi 15 og Hlíðarvegi 17.

    Byggingar- og skipulagsfulltrúa er falið að ganga úr skugga um að breytingin sé í samræmi við kröfur sem settar eru um hljóð, lykt, umferð o.fl. í þegar byggðum íbúðarhverfum.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Í apríl sl. fóru byggingarfulltrúi ásamt formanni og varaformanni skipulags- og umhverfisnefndar, verkstjóra áhaldahúss og hafnarstjóra í skoðunarferð um iðnaðar- og athafnasvæðið við Kverná með það fyrir augum að finna hentugan stað fyrir geymslusvæði/bílastæði fyrir stærri bíla og vinnutæki.

    Tillaga þar að lútandi er lögð fyrir nefndina. Tillagan gerir ráð fyrir að lóðin að Ártúni 4 (neðan gámastöðvar) verði tekin undir þessi not, auk þess sem tómar bátakerrur megi geyma þar. Fyrirkomulagið verði til reynslu út júní 2022, til að byrja með. Framhaldið verði metið í ljósi þeirrar reynslu sem þá hefur fengist.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 228 Tillagan hefur skírskotun í 4. mgr. 18. gr. lögreglusamþykktar fyrir Grundarfjarðarbæ, þar sem kveðið er á um að þar til greindum stærri ökutækjum og vinnuvélum megi ekki leggja á götum eða almenningsbifreiðastæðum í þéttbýli.

    Svæðið er ætlað sem bílastæði fyrir lagningu stærri ökutækja, þungavinnuvéla og tækja, á númerum, sem og fyrir bátakerrur meðan þær standa tómar.

    Nefndin leggur áherslu á að ekki safnist rusl eða lausamunir á svæðið og að því verði haldið snyrtilegu. Ennfremur leggur nefndin áherslu á að þegar sett verður upp eftirlitskerfi á geymslusvæði bæjarins við Hjallatún, verði samtímis sett upp myndavélavöktun á Ártún 4.

    Tillagan samþykkt og verður reynslan metin, a.m.k. að loknu umræddu tímabili.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Farið verður í þakskiptingu á Nesvegi 1, þar sem einföldun verður á þaki fyrir saltgeymslu. Telst umrædd framkvæmd til tilkynningaskyldrar framkvæmdar, sbr. 2.3.4. gr byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

    Staðfesting hefur verið gefin út af byggingarfulltrúa.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 228
  • Lagt fram til kynningar bréf bæjarstjóra þar sem kynnt er að listaverk er nú sett upp á lóðinni að Hrannarstíg 18.

    Sólrún Halldórsdóttir hefur afsalað Grundarfjarðarbæ listaverki sínu, í varanlegu formi. Verkið byggir á 112 íslenskum orðum um vind og veður og verður það afhjúpað föstudaginn 4. júní nk.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 228
  • Bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar, f.h. bæjarins, tilkynnir efnistöku á 49.500 m3 efnis af 24.900 m2 svæði, úr Hrafná í landi Hrafnkelsstaða í Grundarfjarðarbæ, í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. nr. 106/2000, til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar. Fyrirhuguð efnistaka fellur undir framkvæmdir í flokki C, sbr. 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

    Jafnframt er sótt um framkvæmdaleyfi fyrir efnistökunni á grunni stefnu Aðalskipulags Grundarfjarðar 2019-2039, sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Framkvæmdaraðili er Grundarfjarðarbær, sem jafnframt er eigandi þess lands sem um ræðir, þ.e. jarðarinnar Hrafnkelsstaða.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 228 Ákvörðun um matsskyldu vegna efnistöku í Hrafná:

    Fyrirhugaðri framkvæmd, svo og umhverfisáhrifum og mati á þeim, er lýst í fylgigagni; Áætlun um efnistöku: Efnistaka í Hrafná í landi Hrafnkelsstaða. Í 5. kafla áætlunarinnar liggur fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar, sem unnið er á grunni gátlista Skipulagsstofnunar, sbr. viðmið í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Niðurstöður eru þær að fyrirhuguð framkvæmd hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif og sé því ekki matsskyld.

    Skipulags- og umhverfisnefnd hefur kynnt sér fyrirliggjandi gögn. Niðurstaða nefndarinnar er sú að áætlunin uppfylli kröfur sem gerðar eru til gagna sem leggja þarf fram til ákvörðunar um matsskyldu sbr. lögin um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð nr. 660/2015. Framkvæmdin er einnig í samræmi við Aðalskipulag Grundarfjarðar 2019-2039.

    Það er niðurstaða skipulags- og umhverfisnefndar að framkvæmdin eins og henni er lýst í fyrirliggjandi gögnum, sbr. einnig hvernig hún fellur að skipulagi og á grundvelli leiðbeininga Skipulagsstofnunar um forsendur til ákvörðunar um matsskyldu, að hún hafi ekki umtalsverð áhrif á umhverfið. Það er því ákvörðun tekin í samræmi við 4. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

    Ákvörðunin verður kynnt almenningi í samræmi við lokamálslið 3. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

    ---

    Ákvörðun um framkvæmdaleyfi:

    Vísað er til þess sem að framan er lagt til, á grunni tilkynningar og ákvörðunar nefndarinnar um matsskyldu framkvæmdar.

    Skipulags- og umhverfisnefnd hefur kynnt sér fylgigögn sem vísað er til í umsókn um framkvæmdaleyfi. Það er mat skipulags- og umhverfisnefndar að framlögð gögn lýsi framkvæmdinni á fullnægjandi hátt, að framkvæmdin sé í samræmi við ákvörðun um matsskyldu og gildandi skipulagsáætlun, sbr. 10. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Samræmi er á milli þeirrar framkvæmdar sem lýst er í tilkynningu framkvæmdar til leyfisveitanda og umsóknar um framkvæmdaleyfi, sbr. fyrirlagða “Áætlun um efnistöku í Hrafná".

    Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í Hrafná í samræmi við fyrrnefnda umsókn, með tilvísan í 13. gr. skipulagslaga.

    Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að kynna framangreind gögn og ákvörðun um fyrirhugað framkvæmdaleyfi fyrir forsvarsaðilum aðliggjandi jarða, sbr. ákvæði í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, þar sem um er að ræða framkvæmdaleyfi á svæðum sem ekki eru sérstaklega auðkennd sem efnistökusvæði í aðalskipulaginu, heldur efnistöku í árfarvegi. Fyrirliggjandi umsókn verður jafnframt kynnt fyrir lax- og silungsveiðisviði Fiskistofu og Umhverfisstofnun.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Landeigendur á Eiði í Grundarfjarðarbæ, sem framkvæmdaraðilar og eigendur þess lands sem um ræðir, tilkynna fyrirhugaða 25.000 m3 efnistöku af 17.000 m2 svæði, úr Gloppugili, í landi Eiðis í Grundarfjarðarbæ, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. nr. 106/2000, til ákvörðunar bæjarstjórnar um matsskyldu framkvæmdarinnar.
    Fyrirhuguð efnistaka fellur undir framkvæmdir í flokki C sbr. 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

    Jafnframt sækja landeigendur um framkvæmdaleyfi til 10 ára, á grunni stefnu Aðalskipulags Grundarfjarðar 2019-2039, sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 228 Bjarni Sigurbjörnsson vék af fundi undir þessum lið.
    Vignir Maríasson varaformaður tók við stjórn fundarins.

    Ákvörðun um matsskyldu vegna efnistöku í Gloppugili:

    Fyrirhugaðri framkvæmd, svo og umhverfisáhrifum og mati á þeim, er lýst í fylgigagni; Áætlun um efnistöku: Efnistaka í Gloppugili í landi Eiðis. Í 5. kafla áætlunarinnar liggur fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar, sem unnið er á grunni gátlista Skipulagsstofnunar, sbr. viðmið í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Niðurstöður framkvæmdaraðila eru þær að fyrirhuguð framkvæmd hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif og sé því ekki matsskyld.

    Skipulags- og umhverfisnefnd hefur kynnt sér fyrirliggjandi gögn. Niðurstaða nefndarinnar er sú að áætlunin uppfylli kröfur sem gerðar eru til gagna sem leggja þarf fram til ákvörðunar um matsskyldu sbr. lögin um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð nr. 660/2015. Framkvæmdin er einnig í samræmi við Aðalskipulag Grundarfjarðar 2019-2039, að hluta úr námu sem merkt er E-11 í aðalskipulagi og að hluta til efnistöku úr árfarvegi utan E-11, skv. ákvæðum aðalskipulagsins.

    Það er niðurstaða skipulags- og umhverfisnefndar að framkvæmdin eins og henni er lýst í fyrirliggjandi gögnum, sbr. einnig hvernig hún fellur að skipulagi og á grundvelli leiðbeininga Skipulagsstofnunar um forsendur til ákvörðunar um matsskyldu, hafi ekki umtalsverð áhrif á umhverfið. Það er því ákvörðun nefndarinnar, tekin í samræmi við 4. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, til endanlegrar staðfestingar í bæjarstjórn, að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
    Ákvörðunin verður kynnt almenningi í samræmi við lokamálslið 3. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

    ---

    Ákvörðun um framkvæmdaleyfi:

    Vísað er til þess sem að framan er lagt til, á grunni tilkynningar og ákvörðunar nefndarinnar um matsskyldu framkvæmdar.
    Í framlagðri efnistökuáætlun kemur fram, að ef haldið verði áfram að taka efni einungis innan marka efnistökusvæðis sem merkt er E-11 í aðalskipulagi, muni verða til djúp hola sem falla muni illa að landslaginu. Því sé talið heppilegra - og lagt til - að hnika efnistökusvæðinu, eins og efnistökuáætlun tilgreinir, og taka efni að hluta til úr árfarvegi utan E-11.

    Skipulags- og umhverfisnefnd hefur kynnt sér fylgigögn sem vísað er til í umsókn um framkvæmdaleyfi. Það er mat skipulags- og umhverfisnefndar að framlögð gögn lýsi framkvæmdinni á fullnægjandi hátt, að framkvæmdin sé í samræmi við ákvörðun um matsskyldu og gildandi skipulagsáætlun, sbr. 10. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Samræmi er á milli þeirrar framkvæmdar sem lýst er í tilkynningu framkvæmdar til leyfisveitanda og umsóknar um framkvæmdaleyfi, sbr. fyrirlagða “Áætlun um efnistöku í Gloppugili".

    Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í Gloppugili í samræmi við fyrrnefnda umsókn, með tilvísan í 13. gr. skipulagslaga.

    Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að kynna framangreind gögn og ákvörðun um fyrirhugað framkvæmdaleyfi fyrir forsvarsaðilum aðliggjandi jarða, sbr. ákvæði í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, þar sem að hluta til er um að ræða framkvæmdaleyfi á svæði sem ekki er sérstaklega auðkennt sem efnistökusvæði í aðalskipulaginu, heldur felst í efnistöku í árfarvegi. Að öðru leyti er efnistaka innan efnistökusvæðis merkt E-11 í aðalskipulagi, eins og nánar er lýst í gögnum umsækjenda.

    Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að kynna málið fyrir Umhverfisstofnun, sem og lax- og silungsveiðisviði Fiskistofu, þó að ekki sé talin fiskgegnd í árfarvegi þessum.
    Bókun fundar Bjarni Sigurbjörnsson vék af fundi undir þessum lið.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.