Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri situr fundinn undir þessum lið í fjarfundi og gerir grein fyrir starfseminni. Eydís Lúðvíksdóttir er nýr fulltrúi kennara og situr fundinn undir þessum lið í fjarfundi.
Skólastjóri mun auglýsa eftir fulltrúum foreldra, sem vilja taka að sér að sitja skólanefndarfundi í samræmi við heimildir grunnskólalaga.
Skólanefnd - 154Skólastjóri fór yfir minnispunkta sína. Þar kom eftirfarandi fram:
Í Grunnskóla Grundarfjarðar voru innritaðir 104 nemendur á skólasetningu. Kennarar og stjórnendur eru 15 í 14,3 stöðuhlutfalli. Aðrir starfsmenn eru 8 í 6,08 stöðugildum. Hluti þeirra starfsmanna starfa einnig á Eldhömrum við þrif og afleysingar. Hluti þessara starfsmanna er jafnframt í afleysingum á Eldhömrum en einnig eru kallaðir út starfsmenn ef þarf. Inn í þessari tölu eru einnig starfsmenn Heilsdagsskóla sem er lengd viðvera fimm daga vikunnar.
Við skólann í vetur verða fjórir leiðbeinendur. Allir eru þeir langt komnir með að klára kennsluréttindi. Einn nemandi/ leiðbeinandi er ráðinn eftir nýjum lögum og klárar sitt síðasta ár sem kennari við Grunnskóla Grundarfjarðar undir handleiðslu kennara.
Teymiskennsla verður áfram mikil en skólinn samanstendur af fjölmennu yngsta stigi og fámennu mið- og unglingastigi. Skólinn er í Erasmus verkefni en það hefur verið sett á ís í eitt ár vegna erfiðleika með ferðalög. Eins og staðan er núna eru mjög erfiðar takmarkanir í þeim löndum sem við vinnum með eins og t.d í Baskalandi.
Í smíðastofunni er glæsileg aðstaða fyrir snillivinnu og er það opinbert markmið skólans að nýta þá flottu stofu sem mest.
Áfram mun skólinn í samstarfi við hina skólana (og fleiri) á Snæfellsnesi fá gesti til að auka þekkingu nemenda. Skólinn fékk styrk til að styðja við forritunarkennslu frá Forriturum framtíðarinnar.
Í ár verður sérstakur dagur á dagatali sem tileinkaður er gróðursetningu en áherslur skólans þennan veturinn verða heilsuefling, grænfáni og fjölbreyttar kennsluaðferðir í stærðfræði.
Stærðfræðikennarar á yngsta- og miðstigi munu í vetur sækja námskeiðið Stærðfræðileiðtoginn - lærdómssamfélag, sem kennt er á vegum HÍ.
Útikennslunámskeiði, Stærðfræði undir berum himni, sem halda átti sameiginlega á Snæfellsnesi nú í haust var frestað vegna aðstæðna í þjóðfélaginu er verður vonandi síðar á árinu.
Skólinn fékk styrk til námskeiðs í útikennslu og mun fá leiðbeinanda til að halda námskeið á vorönn.
Í Grundarfirði er núna verið að taka upp sjónvarpsþætti og verður skólinn einn af tökustöðum innan sem utan.
Viðhaldsframkvæmdir voru miklar í sumar. Farið var í glugga og efri hæð skólans ásamt kennaraaðstöðu var máluð. Múrviðgerðir utanhúss og steiningu austan megin, ásamt því að gera upp hornstofuna NA-megin, sem nú er nýtt fyrir heilsdagsskólann. Á döfinni er að ljúka klæðningu suðurhliðar á elsta hluta skólans (Eldhamradeild).
--- Skólastjóri óskar eftir breytingu á skóladagatali grunnskóla, þannig að starfsdegi 4. janúar verði breytt í kennsludag og sá starfsdagur færist til föstudagsins 22.janúar, til að samræma starfsdaga með Eldhömrum og Sólvöllum. Sjá meðf. skóladagatöl fyrir og eftir.
Samþykkt samhljóða.
---
Bókun fundarSkólanefnd hefur staðfest breytingu á starfsáætlun grunnskólans (skóladagatali), í samræmi við 2. mgr. 29. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008.
Sigurður Gísli og Eydís sitja fundinn undir þessum lið í fjarfundi.
Skólanefnd - 154Sigurður fór yfir minnispunkta sína um starfsemina.
Á Eldhömrum eru þrír starfsmenn í 2,75 stöðugildum, en ræstingar eru þó ekki inni í þessari tölu.
Starfið fer vel af stað en 10 nemendur eru skráðir í deildina í haust.
Eins og undanfarin ár fá Eldhamrar tíma á skipulagi kennara í íþróttum, sundi, smíðum, heimilisfræði og lestrarkennslu. Hringekja með yngstu nemendum skólans hefst svo fljótlega og verður með vissu millibili í allan vetur.
Fyrir nefndinni lá ennfremur námskrá Eldhamra.
Hér vék Eydís af fundi og var henni þökkuð þátttakan.
Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri situr fundinn undir þessum lið í fjarfundi.
Skólanefnd - 154Sigurður Gísli skólastjóri fór yfir minnispunkta sína um starfið. Þar kom m.a. fram:
Tónlistarskólinn hefur farið vel af stað það sem af er hausti. Í haust eru skráðir 58 nemendur í nám við tónlistarskólann, en voru 61 á haustönn 2019. Sjö nemendur eru eldri en 16 ára. Nemendur úr 1. og 2. bekk eru ýmist í hóptímum eða 20 mínútna einkatímum. Nemendur Eldhamra koma niður í litlum hópum og eru í tónlistarstund í ca. 25 mín, einn hópur á viku í allan vetur. Kennarar eru fjórir í 3,4 stöðugildum. Alexandra kennir á tréblásturshljóðfæri, píanó, tónfræði og sér um tónlistarstund Eldhamra. Baldur kennir á málmblásturshljóðfæri, slagverk, trommur og stjórnar skólahljómsveitinni. Bent kennir á gítar, úkúlele og rafbassa. Linda María kennir söng og sér um faglega starfið innan skólans.
Starfið í vetur mun taka mið af ástandinu vegna Covid og sóttvarnaráðstafana, jólatónleikar verða miðvikudaginn 2. desember í Grundarfjarðarkirkju, með fyrirvara um sóttvarnir.
Elstu börn leikskólans munu koma í stutta heimsókn, á vorönn.
Íþrótta- og æskulýðsnefnd hefur unnið að hugmynd um uppbyggingu útivistarsvæðis og fjölskyldugarðs í Þríhyrningnum. Þar er jafnframt gert ráð fyrir útikennslustofu. Sigurður Gísli situr fundinn undir þessum lið í fjarfundi. Skólanefnd - 154Bæjarstjóri kynnti hugmyndir sem íþrótta- og æskulýðsnefnd hefur unnið að. Á svæðinu er gert ráð fyrir útikennslustofu, að beiðni leik- og grunnskóla, og í samræmi við nýtt aðalskipulag.
Nefndarmenn lýstu yfir ánægju með hugmyndir um fyrirhugaða uppbyggingu svæðisins.
Hér vék Sigurður Gísli af fundi og var honum þökkuð koman og upplýsingarnar.
Lagt fram til kynningar fundarboð fyrir Skólaþing sveitarfélaga 2020, sem haldið verður mánudaginn 12. október nk. Fundurinn er morgunverðarfundur frá kl. 8:30-10:10 og verður í beinu streymi.