Málsnúmer 2004003

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 237. fundur - 07.04.2020

Eftirfarandi er tillaga að fyrstu aðgerðum bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar vegna áhrifa Covid-19 á samfélagið.

a) Fasteignagjöld
Þann 30. mars sl. var samþykkt á Alþingi bráðabirgðaákvæði við lög um tekjustofna sveitarfélaga sem heimilar gjaldendum fasteignaskatta í C-flokki (atvinnuhúsnæði), sem eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða vegna tekjufalls, að óska eftir frestun á allt að þremur greiðslum fasteignaskatts sem eru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestun tekur til er 15. janúar 2021.

Í samræmi við þetta er lagt til að samþykkt verði heimild til frestunar greiðslna fasteignagjalda hjá Grundarfjarðarbæ sem hér segir:
- Fyrir gjalddendur sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna áhrifa Covid-19.
- Frestun þriggja greiðslna fasteignagjalda frá mars-desember 2020 sem lögð eru á skv. flokki C, þannig að þeir komi til greiðslu síðar.
- Á næstu þremur mánuðum verði metið hvort fresta þurfi gjalddögum enn frekar.
- Fyrirkomulag greiðslna verði ákveðið í samvinnu við hvert og eitt fyrirtæki.
- Sækja skal um frestun á netfangið grundarfjordur@grundarfjordur.is
- Að gjaldandi sé ekki í langvinnum vanskilum á opinberum gjöldum, sköttum og öðrum
greiðslum til sveitarfélagsins.
- Ef arði er úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2020 eða úttekt eiganda innan ársins 2020 fer umfram reiknað endurgjald þeirra er heimilt að synja umsókn um frestun gjalda.

b) Þjónustugjöld
Í samræmi við áður birta auglýsingu um fyrirkomulag gjaldtöku þjónustugjalda, þann 25. mars sl. á vef bæjarins.

Þjónustugjöld vegna Leikskólans Sólvalla, Eldhamra og fæðisáskriftar verði ekki innheimt þegar börn eru heima af ástæðum eins og sóttkví, veikindum eða vegna ákvörðunar foreldra, skv. neðangreindu:

Foreldrum leikskólabarna (Sólvellir og Eldhamrar) býðst að hafa börnin sín heima, á meðan auglýsing heilbrigðisráðherra um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar er í gildi. Gjöld falla þá niður fyrir þann tíma sem barn er heima og nýtir ekki þjónustuna. Miðað er við heilar vikur. Barn heldur leikskólaplássi sínu á meðan. Tilkynna þarf það til stjórnenda skólanna.

Tekið er tillit til þessa við reikningagerð strax um mánaðamótin mars/apríl, og gjöld maímánaðar lækkuð með hliðsjón af dvalartíma í mars/apríl, eftir atvikum.

Ekki verða sendir út reikningar vegna heilsdagsskóla, meðan sú starfsemi liggur niðri og inneign látin ganga upp í aðra reikninga.

Verði veruleg röskun á ofangreindri starfsemi og þjónustu, verður fyrirkomulag á útsendingu reikninga endurskoðað.

c) Viðspyrna í ferðaþjónustu og menningarlífi
Lagt er til að farið verði í sérstakar aðgerðir/verkefni til að styðja við frekari markaðssetningu svæðisins og undirbúning þess að taka á móti ferðafólki, bæði til skemmri tíma (síðar á árinu) og lengri (almennt) og styðja við menningu, með ráðstöfunum í fjárhagsáætlun bæjarins 2020 og með því að leita eftir samvinnu fyrir fyrirtæki og félagasamtök.

Bæjarráði og bæjarstjóra falin nánari útfærsla, með hliðsjón af eftirfarandi:
- Fjárhagsáætlun 2020 - framkvæmdir/viðhald; skoða og útfæra mögulega flýtingu
framkvæmda eða viðbótarfjárframlög á árinu, s.s. við tjaldsvæði, opin svæði o.fl.
- Sögumiðstöð: leita samstarfs við félagasamtök og fyrirtæki, um starfsemi til skemmri tíma.
- Svæðisgarðurinn Snæfellsnes; leita eftir upplýsingum um framgang áhersluverkefna, sem samþykkt voru 2. desember sl. í fulltrúaráði, einkum verkefnis um branding/ferðaleið á Snæfellsnesi og matarverkefnis (sælkeraferðir á Snæfellsnesi), sem ætti að koma ferðaþjónustu og framleiðendum á svæðinu verulega til góða.
- Samstarf við ferðaþjónustuaðila og félagasamtök; sjá einnig lið d) en leita eftir
hugmyndum um viðburð/viðburði, til að þjappa íbúum enn frekar saman og til að laða fólk til bæjarins þegar samkomur og ferðalög verða heimil og örugg.

d) Samtal við fulltrúa fyrirtækja
Bæjarstjórn bjóði fulltrúum fyrirtækja til samtals (í fjarfundum) á næstunni, um stöðu mála og horfur, vegna ástands af völdum Covid-19, og um frekari aðgerðir.

e) Greining á þróun tekna
Í framhaldi af lið d) - og í samræmi við óskir Grundarfjarðarbæjar og fundi bæjarstjóra, Sambandsins og SSV með RSK, sem og erinda til RSK í kjölfarið, um betri upplýsingagjöf um útsvarstekjur sveitarfélagsins/sveitarfélaga, verði rýnt í þróun útsvarstekna á síðustu misserum og reynt að greina mögulegt tekjutap nú, m.v. stöðu atvinnugreina, sérstaklega ferðaþjónustunnar.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu um viðbrögð Grundarfjarðarbæjar vegna Covid-19.

Bæjarráð - 544. fundur - 30.04.2020


Verkstjóri áhaldahúss og umsjónarmaður fasteigna sátu fundinn undir þessum lið.

Rætt um helstu skilaboð sem fram komu á fundum með fulltrúum fyrirtækja í ferðaþjónustu í síðustu viku. Jafnframt lagðar fram til kynningar hugleiðingar um stöðuna sem Marteinn Njálsson sendi í tölvupósti í framhaldi af fundinum.

Bæjarstjóri sagði frá fundum og vinnu stjórnar Svæðisgarðsins Snæfellsness.

Rætt um viðbragðsáætlun vegna Covid-19 og þörf á breytingum á fjárhagsáætlun 2020 hvað varðar fjárfestingar.

Verkstjóri áhaldahúss kom inn á fundinn sem gestur.

Farið yfir verkefni áhaldahúss, götur, umhirðu opinna svæða og grassvæða. Jafnframt rætt um mögulega uppsetningu frisby golfvallar.

Farið yfir ástand gangstétta og framlagða greinargerð áhaldahúss um þær gangstéttar sem verst eru farnar. Verkstjóri áhaldahúss mun vinna áætlun vegna gangstéttaviðgerða, sem verði tekin fyrir á næsta fundi bæjarráðs.

Verkstjóri áhaldahúss yfirgaf fundinn og var honum þakkað fyrir komuna.

Umsjónarmaður fasteigna kom inn á fundinn sem gestur.

Farið var yfir ýmsar framkvæmdir eignasjóðs.

Rætt um vaðlaug, sem þörf er á að lagfæra með dúkklæðningu.

Rætt um tjaldsvæði og viðhald þess. Þörf er á að setja fjármagn í að endurbæta rafmagn, hreinlætisaðstöðu/vatnsaðstöðu ferðavagna og veginn að tjaldsvæði og í gegnum það.

Umsjónarmaður fasteigna yfirgaf fundinn og var honum þakkað fyrir komuna.

Gestir

  • Gunnar Jóhann Elísson, umsjónarmaður fasteigna - mæting: 17:45
  • Valgeir Magnússon, verkstjóri áhaldahúss - mæting: 17:00

Bæjarráð - 545. fundur - 12.05.2020


Til viðbótar við tillögur bæjarráðs þann 30. apríl sl., aðgerðir vegna Covid-19, er lagt til við bæjarstjórn að í viðauka við fjárhagsáætlun verði gert ráð fyrir viðbótarfjármagni í eftirfarandi verkefni:

- Að mála búningsklefa íþróttahúss/sundlaugar nú í vor.
- Til menningarmála verði lagt fjármagn sem varið verði í ýmsa menningarviðburði á árinu. Menningarnefnd verði falin umsjón.
- Í brýnustu endurbætur á gangstéttum verði varið fjármagni, sbr. fyrirliggjandi samantekt verkstjóra áhaldahúss og kostnaðaráætlun skipulags- og byggingarfulltrúa.
- Til orkuskipta í íþróttahúsi og sundlaug, mótframlag við styrk úr Orkusjóði.
- Grundarfjarðarbær fékk í dag vilyrði fyrir 15 sumarstörfum frá Vinnumálastofnum. Eftir er að áætlað kostnað Grundarfjarðarbæjar vegna þeirrar viðbótar.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 238. fundur - 14.05.2020

Bæjarstjóri vísaði í fyrri umræður bæjarráðs og bæjarstjórnar um þennan lið.

Samantekið felast helstu aðgerðir bæjarstjórnar og viðbrögð vegna áhrifa af Covid-19, í eftirfarandi:

Ýmsar ráðstafanir í rekstri og framkvæmdum:
- Umbreyting á starfsemi og þjónustu, til aðlögunar að fyrirmælum stjórnvalda
- Skólar náðu að bjóða þjónustu alla daga fyrir öll börn og gekk mjög vel
- Sérstök áhersla á upplýsingagjöf og opnun á nýjum bæjarvef flýtt

Gjaldtaka:
- Fasteignagjöld - frestun gjalddaga, í takt við lög um breytingu á tekjustofnum sveitarfélaga og það sem önnur sveitarfélög hafa gert
- Þjónustugjöld - í samræmi við áður birta auglýsingu um fyrirkomulag gjaldtöku þjónustugjalda, þann 25. mars sl. hafa verið gerðar ýmsar tilslakanir á fyrirkomulagi þjónustu og þjónustugjalda.
- Breytingar gerðar á fyrirkomulagi innheimtu sveitarfélagsins

Viðspyrna fyrir atvinnulíf og samfélag:
Farið er í sérstakar aðgerðir og verkefni til að styðja við frekari markaðssetningu svæðisins og undirbúning þess að taka á móti ferðafólki, bæði til skemmri tíma og lengri og styðja við menningu, með ráðstöfunum í fjárhagsáætlun bæjarins 2020, einnig með því að leita eftir samvinnu fyrir fyrirtæki og félagasamtök.

Viðbætur eru gerðar í fjárhagsáætlun 2020 með flýtingu framkvæmda og viðbótarfjárframlögum á árinu, við:
- Tjaldsvæði, endurbætur
- Sundlaug, endurbætur og aukið viðhald
- Opin svæði, afþreying
- Gangstéttar, aukið fé í endurbætur
- Sumarstörf, framlag til fjölgunar starfa fyrir námsmenn
- Menningarmál, aukið rekstrarframlag til menningarmála og viðburða
- Gatnagerðargjöld, lengdur tími sem afsláttarkjör gilda, til 31. desember nk. í stað 31. ágúst

Samstarfsverkefni
Ýmiss konar samstarf á sviði atvinnumála, gegnum Svæðisgarðinn Snæfellsnes, Markaðsstofu Vesturlands og SSV-atvinnuráðgjöf.
Samtal við fulltrúa fyrirtækja í bænum; bæjarstjórn bauð fulltrúum fyrirtækja til samtals í fjarfundum um stöðu mála og horfur, vegna ástands af völdum Covid-19, og um frekari aðgerðir.

Annað:
Af hálfu bæjarins hefur verið ýtt á að haldbetri upplýsingar fáist frá RSK um útsvar til sveitarfélaga, til að hægt sé að meta áhrif tekjutaps í einstökum greinum, einkum ferðaþjónustu. Auk þess hefur bæjarstjóri leitað eftir samstarfi og betri upplýsingagjöf frá stofnunum, m.a. Vinnumálastofnun.

Bæjarráð - 552. fundur - 19.08.2020

Bæjarráð ræddi um stöðu mála vegna áhrifa Covid, á fyrirtæki, tekjur sveitarfélagsins og fleira.

Bæjarráð - 557. fundur - 22.10.2020

Umræður um líðan og félagslega stöðu bæjarbúa í Covid-ástandinu.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir samtali við fagaðila um stöðuna.

Samþykkt samhljóða.