Hafnaríbúðir ehf. sækir um byggingarleyfi vegna nýbyggingar á fjölbýlishúsi með 9 íbúðum.
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að óska eftir nýjum teikningum sem uppfylla kröfur um fjölda bílastæða.
Skipulags og byggingarfulltrúa falið að setja fyrirhugaðar byggingar á lóðunum við Grundargötu 12 og 14 í grenndarkynningu.
Farið yfir umsögn Ívars Pálssonar hrl. og tillögu að afgreiðslu sem hann vann fyrir skipulags- og byggingarfulltrúaembættið vegna grenndarkynningar á Grundargötu 12 og 14.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir drög Landslaga, Ívars Pálssonar hrl., að umsögn um athugasemdir sem bárust í grenndarkynningu og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að svara umsagnaraðilum.
Lóðunum Grundargötu 12 og 14 var úthlutað til lóðarhafa með ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar á 185. fundi þann 1. febrúar 2018, eftir að samþykkt var í bæjarstjórn að fella tímabundið niður gatnagerðargjöld á íbúðarhúsalóðum. Umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi, sem lögð var fyrir nefndina þann 29. júlí 2019. ásamt teikningum, og samþykkt var á þeim fundi að grenndarkynna, gerði ráð fyrir 9 íbúðum á umræddum tveimur íbúðarhúsalóðum. Ekki var sótt um gististarfsemi í húsnæðinu þó nefndinni væri kunnugt um áhuga umsækjanda á að fá mögulega leyfi til slíkrar starfsemi síðar. Á fundi bæjarstjórnar þann 12. apríl 2018 hafði bæjarstjórn tekið fyrir erindi lóðarhafa sem óskaði eftir heimild til að starfrækja gistingu fyrir ferðamenn í húsnæðinu „ef húsin hvorki seljast né leigjast á almennum markaði“ eins og sagði í erindinu. Í afgreiðslu bæjarstjórnar sagði að bæjarstjórn teldi sér ekki fært að verða við erindinu, en benti á að í nýju aðalskipulagi yrði sett fram stefna um rekstur gistingar í íbúðarbyggð. Í grenndarkynningunni sem fram fór í október-nóvember sl. vildi nefndin hins vegar upplýsa hagsmunaaðila um áhuga umsækjanda á mögulegri gististarfsemi í húsnæðinu, þó ekki stæði til að grenndarkynna slíka starfsemi. Umsækjandi bætti þeirri fyrirætlan sinni inn á hina kynntu aðaluppdrætti, án samþykkis nefndarinnar.
Fyrirliggjandi athugasemdir lúta að langmestu leyti að starfseminni en ekki húsinu sem slíku. Skipulags- og umhverfisnefnd er því, þrátt fyrir athugasemdir, tilbúin til að samþykkja byggingu íbúðarhúss í samræmi við hina kynntu uppdrætti en tekur ekki afstöðu til heimildar til umsóknar um gististarfsemi. Er það í samræmi við fyrri afgreiðslu nefndarinnar. Nefndin fellst á umsóknina fyrir sitt leyti en án nokkurrar heimildar til gististarfsemi, enda er umsókn um slíkt háð leyfi sýslumanns, að fenginni umsögn bæjarstjórnar. Bæjarstjórn hefur mótað sér stefnu um grenndarkynningu rekstrarleyfa í nýju, ósamþykktu en auglýstu aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir umsókn Hafnaríbúða ehf. og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi vegna íbúðarhúss með 9 íbúðum á lóðunum Grundargötu 12 og 14, berist honum lagfærðir uppdrættir þar sem eingöngu er gert ráð fyrir íbúðum í húsinu og að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum.
Skipulags og byggingarfulltrúa falið að setja fyrirhugaðar byggingar á lóðunum við Grundargötu 12 og 14 í grenndarkynningu.