Á 200. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 16. maí 2019 var veitt tímabundið stöðuleyfi fyrir frístundahús í Látravík 2. Ennfremur var farið yfir stöðu máls vegna umsóknar um byggingarleyfi frístundahúss. Í umsókninni er sótt um að staðsetja frístundahús nær vatni heldur en skipulagsreglugerð gerir ráð fyrir, eða í um 40 m fjarlægð frá Lárvaðli. Skipulagsreglugerð gerir ráð fyrir 50 m fjarlægð.
Skipulags- og byggingarfulltrúi og formaður nefndarinnar áttu fund með umsækjanda um umsóknina þann 10. maí 2019, sbr. minnispunkta af þeim fundi. Þar óskaði framkvæmdaraðili eftir því að sótt yrði um undanþágu vegna staðsetningar frístundahúss, til umhverfis- og auðlindaráðuneytis vegna 5.3.2.14 gr. skipulagsreglugerðar þar sem fjallað er um fjarlægðir frá vötnum og sjó.
Í framhaldi af því og afgreiðslu málsins á 200. fundi nefndarinnar þann 16. maí 2019, skrifaði skipulags- og byggingarfulltrúi bréf til umhverfis- og auðlindaráðuneytis og óskaði eftir slíkri undanþágu, vegna staðsetningar frístundahúss í um 40 m fjarlægð frá Lárvaðli. Eftir meðferð málsins þar og umsögn Skipulagsstofnunar um erindið, óskaði ráðuneytið eftir því við Grundarfjarðarbæ að fá senda tilvísun í skýra bókun eða umsögn sveitarfélagsins um beiðni umsækjanda um slíka undanþágu. Auk þess vakti ráðuneytið athygli á, eftir ábendingu Skipulagsstofnunar, að staðsetning frístundahúss, skv. umsókn, sé ekki í samræmi við d-lið 5.3.2.5. gr. skipulagsreglugerðar, sem segir til um fjarlægð frístundahúsa frá stofnvegi.