Málsnúmer 1808012

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 219. fundur - 16.08.2018

Lokaður dagskrárliður
Umræða um störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu og helstu áherslur í starfinu.

Bæjarstjórn - 220. fundur - 13.09.2018

Fyrir liggur vinnuskjal frá bæjarstjóra um áhersluverkefni bæjarstjórnar, í samræmi við fyrri umræðu. Á þessum hluta bæjarstjórnarfundar, sem er vinnufundur, fer bæjarstjórn yfir skjalið og ræðir um áherslur í starfi sínu. Byggt á vinnu á síðasta bæjarstjórnarfundi.
Lokaður dagskrárliður.

Farið yfir áhersluatriði bæjarstjórnar á kjörtímabilinu.

Bæjarstjórn - 221. fundur - 18.10.2018

Lokaður dagskrárliður.

Umræða um störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu.

Bæjarstjórn - 222. fundur - 12.11.2018

Lokaður dagskrárliður
Umræður um störf bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn - 223. fundur - 13.12.2018

Lokaður dagskrárliður.

Umræður um störf bæjarstjórnar, m.a. eftirfylgni með verkefnum og framkvæmdum fjárhagsáætlunar 2019.

Bæjarstjórn - 224. fundur - 10.01.2019

Lokaður dagskrárliður.

Umræður um störf bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn - 225. fundur - 12.02.2019

Lokaður dagskrárliður.

Boð hefur borist frá SSV um fræðsluferð sveitarstjórnarmanna til Danmerkur 23.-26. apríl nk. Lagt til að Grundarfjarðarbær sendi þrjá fulltrúa í ferðina.

Samþykkt samhljóða.

Jafnframt var kynnt að Lánasjóður ísl. sveitarfélaga óskar eftir tilnefningum í stjórn sjóðsins.

Þá var rætt um fyrirhugaðar stofnana- og fyrirtækjaheimsóknir á næstunni.

Bæjarstjórn - 228. fundur - 09.05.2019

Farið yfir ýmis atriði sem snerta störf bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn - 229. fundur - 13.06.2019

Liðir 1 og 2 voru ræddir saman.
Farið var yfir ýmis atriði sem snerta störf bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkir að framvegis verði liðir 1 og 2 opnir dagskrárliðir.
Bæjarstjóri ræddi um starfsmannamál bæjarins, en leitað er að starfsmanni í tæknimál bæjarins í stað aðstoðarmanns skipulags- og byggingarfulltrúa.

Bæjarstjórn - 230. fundur - 19.09.2019

Umræða um störf bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn - 231. fundur - 10.10.2019

Umræður um störf bæjarstjórnar.

Berghildur Pálmadóttir, varabæjarfulltrúi Samstöðu, hefur flutt úr sveitarfélaginu og er því hætt sem 1. varabæjarfulltrúi listans. Aðrir varabæjarfulltrúar Samstöðu færast því upp um sæti. Berghildur sat einnig í félagsmálanefnd á þessu kjörtímabili.

Berghildi er þakkað fyrir störf sín í bæjarstjórn á síðustu árum og nefndarstarf á þessu kjörtímabili.

Bæjarstjórn - 232. fundur - 28.11.2019

Rætt m.a. um fundi sem haldnir verða á næstunni, þróun útsvars og samtal við ríkisskattstjóra um upplýsingagjöf og Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól.

Bæjarstjórn felur bæjarráði að óska eftir fundi með stjórn Dvalarheimilisins Fellaskjóls til að ræða stöðu byggingarframkvæmda heimilisins.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 233. fundur - 12.12.2019

Rætt m.a. um fundi sem haldnir verða á næstunni. Þann 19. desember er fyrirhugaður vinnufundur Capacent með bæjarstjórn. Stefnt er að fundi bæjarráðs með stjórnendum Dvalarheimilisins Fellaskjóls og með fulltrúum íþróttafélaga, í janúar nk. Ekki er gert ráð fyrir fleiri fundum bæjarráðs á árinu, að óbreyttu.

Forseti lagði til að á nýju ári verði leitað eftir kynningu fyrir bæjarstjórn á starfsemi stofnana og félaga í sameiginlegri eigu sveitarfélaga, eins og t.d. Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga. Einnig verði leitað eftir samtali við þjónustufyrirtæki eins og Íslenska gámafélagið hf. vegna ýmissa atriða sem snúa að framkvæmd sorpmála og flokkunar. Að sama skapi verði á nýju ári rýnt vel í þjónustu ýmissa annarra, s.s. sýslumannsins.

Rætt um framlagða tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi. Lagt til að haldið verði opið hús á vegum skipulagsnefndar og bæjarstjórnar um miðjan janúar nk. þar sem gefinn verði kostur á umræðu um tillöguna.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 234. fundur - 16.01.2020

Rætt var m.a. um eftirfarandi:
- Stefna; drög frá Capacent - og næsti fundur stýrihóps.
- Snjómokstur. Fyrirkomulag innanbæjar og á þjóðvegum í sveitarfélaginu.
- Fjölmiðlaskýrsla Creditinfo.

Bæjarstjórn - 235. fundur - 13.02.2020

Rætt um snjómokstur og snjómokstursþjónustu á þjóðvegum. Jafnframt rætt um næstu fundi bæjarstjórnar, bæjarráðs, skipulags- og umhverfisnefndar og með fulltrúum Capacent.

Bæjarstjóri sagði frá ferð til Finnlands á vegum Svæðisgarðsins Snæfellsness vegna lokafundar í evrópsku verkefni. Fram kom að bæjarstjóri sótti ráðstefnu og fundi á vegum Svæðisgarðsins Snæfellsness, ásamt fleirum, í Juensuu í Finnlandi, dagana 4.-6. febrúar sl.

Bæjarstjórn - 236. fundur - 12.03.2020

Rætt um fundi framundan og fyrirkomulag þeirra.

Bæjarstjórn - 237. fundur - 07.04.2020

Bæjarstjóri upplýsti um fundi sem haldnir hafa verið, en fundur hafnarstjórnar var haldinn í gær, þar sem lögð var fram afkoma ársins 2019, farið yfir stöðu hafnarframkvæmda, viðhaldsverkefni o.fl. Á morgun mun menningarnefnd funda og ræða um menningu á tímum Covid-19.

Fljótlega eftir páska muni liggja fyrir áætlun um næstu fundi skipulags- og umhverfisnefndar, til að ljúka aðalskipulagsvinnunni, og fund í nefnd um stefnumótun, en vinna hennar hefur verið í bið síðustu vikur vegna anna.

Bæjarstjóri sagði frá því að HLH ráðgjöf sé farin af stað með sína vinnu, sbr. afgreiðslu bæjarstjórnar á fundi í mars.

Fundartíma næstu funda bæjarráðs og bæjarstjórnar þarf að skoða nánar m.t.t. ársreiknings.

Bæjarstjórn - 238. fundur - 14.05.2020

Forseti vakti athygli á fundi með fulltrúum ferðaþjónustu og þjónustu, sem auglýstur hefur verið á vef bæjarins og fram fer á morgun. Fundurinn byggir m.a. á samtali bæjarstjórnar við fulltrúa ferðaþjónustufyrirtækja, sem fram fóru seinnihlutann í apríl sl.

Bæjarstjórn - 239. fundur - 11.06.2020

Árlegt umhverfisrölt skipulags- og umhverfisnefndar og bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar fór fram 26. maí og 9. júní sl. Gengið var um bæinn og bæjarbúum boðið í spjall um það sem þeim liggur á hjarta um umhverfi bæjarins. Ýmsar góðar ábendingar komu fram, sem m.a. verður unnið úr í sumar.

Gerð verður grein fyrir afrakstrinum í skýrslu um röltið, sem skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarráð munu fara yfir á fundum á næstunni. Auk þess verður leitast við að kynna umhverfisframkvæmdir bæjarins á vef- og samfélagsmiðlum.

Bæjarstjórn þakkar þátttakendum kærlega fyrir röltið og spjallið og öðrum sem sent hafa ábendingar eða komið þeim á framfæri. Auk þess lýsir bæjarstjórn ánægju með nýjan möguleika - hnapp á bæjarvefnum, sem gerir fólki enn auðveldara að senda inn ábendingar sem snúa að umhverfinu okkar.

Bæjarstjórn - 241. fundur - 10.09.2020

Umræða um Sögumiðstöð. RG sagði frá fundi sem fulltrúar bæjarráðs ásamt bæjarstjóra og formanni menningarnefndar áttu varðandi uppbyggingu á starfsemi í Sögumiðstöð, til að efla húsið sem samfélagsmiðstöð.

Forseti sagði frá því að fjármálaráðstefnan 2020 verði á netinu þetta árið og að aðalfundur SSV verði haldinn Búðardal síðar í september.

Bæjarstjórn - 242. fundur - 08.10.2020

Forseti minnti á að haustþing SSV færi fram þann 16. október nk. í fjarfundi, en ekki í Dalabyggð eins og áformað var. Aðalfulltrúar Grundarfjarðarbæjar með seturétt á fundinum eru Jósef Kjartansson, Hinrik Konráðsson og Unnur Þóra Sigurðardóttir.

Sama dag verður bæjarstjóri með erindi á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og talar þar um útsvar og upplýsingagjöf.

Bæjarráð stefnir að því að eiga viðræður við fulltrúa Félags eldri borgara í Grundarfirði varðandi aðstöðu og félagsstarf.

Rætt var um fjárhagsáætlunargerð framundan. Bæjarráð mun leggja niður tímaáætlun fjárhagsáætlunarvinnunnar. Í ljósi aðstæðna mun bæjarráð ekki fara í heimsóknir í stofnanir, heldur kalla fostöðumenn til samtals með fjarfundum.

Bæjarstjórn - 243. fundur - 26.11.2020

Forseti tók til umræðu eftirfarandi mál:

Birting gagna með fundargerðum bæjarstjórnar og bæjarráðs. Sveitarfélög sem ákveðið hafa að birta fundargögn undir fundargerðum sínum, hafa sum hver sett sér reglur um opinbera birtingu gagna, þar sem fram koma leiðbeiningar um það hvaða gögn sé heimilt að birta og hvaða gögn megi ekki birta, m.a. samkvæmt löggjöf um persónuvernd. Hann lagði til að bæjarráði verði falið að skoða umgjörð kringum slíka birtingu, m.a. reglur sem önnur sveitarfélög hafa sett sér og gera tillögu um hvort birta eigi gögn með fundargerðum bæjarins, og þá með hvaða skilmálum.

Samþykkt samhljóða.

Rætt var um fundi sem haldnir verða á næstunni;

- Hafnasambandsþing verður haldið á morgun, 27. nóvember. Fjarfundur. Okkar fulltrúar eru Hafsteinn hafnarstjóri og Björg bæjarstjóri.
- Fundur Breiðafjarðarnefndar með bæjarfulltrúum 30. nóvember nk. Haldinn sem fjarfundur.
- Skipulags- og umhverfisnefnd, miðvikudag 2. desember
- Bæjarráð, aukið, fimmtudag 3. des.
- Fulltrúaráðsfundur Svæðisgarðsins, fjarfundur, mánudag 7. des.
- Bæjarstjórn, fimmtudag 10. des.
- Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga, föstudag 18. des. nk. Fjarfundur.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn - 244. fundur - 10.12.2020

Lögð fram gögn um jöfnun dreifikostnaðar raforku í dreifbýli, um hækkun raforkuverðs á vegum Landsnets og frétt RARIK frá 27. nóvember sl. um aukið afhendingaröryggi raforku á Snæfellsnesi.

Í frétt frá RARIK í lok nóvember kom fram að RARIK og Landsnet hafi að undanförnu unnið að því að bæta afhendingaröryggi rafmagns á Snæfellsnesi. Fram kemur að Landsnet hafi keypt fimm færanlegar varaaflsvélar og að nýlokið sé prófunum á tengingu tveggja þeirra við kerfið á Snæfellsnesi. Bæjarstjórn fagnar því að unnið sé að því að bæta afhendingaröryggi rafmagns á Snæfellsnesi.

Forseti ber upp eftirfarandi tillögu:

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar vísar í frumvarp til breytinga á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, mál nr. 336 á 151. löggjafarþingi. Markmið frumvarpsins er að stuðla að jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda. Gert er ráð fyrir að 95% jöfnun verði náð árið 2025, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar telur mikilvægt að skrefið verði stigið til fullrar jöfnunar á kostnaði við dreifingu raforku og fari í 100% strax á næsta ári, eins og nú liggur fyrir í tillögu vegna málsins á Alþingi.

Bæjarstjórn lýsir jafnframt yfir áhyggjum af gjaldskrárhækkunum um 9,9% sem Landsnet hefur boðað frá og með 1. janúar nk. Slík hækkun mun, ef af verður, fljótlega gera að engu þann ávinning sem boðaður er af framangreindu frumvarpi. Sagan frá 2015 mun þá endurtaka sig þegar dreifbýlisframlagið var lækkað síðast en jöfnunarframlagið hvarf með gjaldskrárhækkunum Landsnets á þremur árum.

Bæjarstjórn hvetur ráðherra og atvinnuveganefnd Alþingis til að stefna að fullri jöfnun á dreifingu raforkukostnaðar strax á næsta ári. Það væri mikið hagsmunamál fyrir landsbyggðina/byggðirnar og stórt skref í áttina að jöfnun kostnaðar við húshitun á köldum svæðum.

Samþykkt samhljóða.

Rætt um störf bæjarstjórnar framundan, húsnæðismál og samtal við UMFG og fleira.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn - 245. fundur - 14.01.2021

Forseti sagði frá fundi með framkvæmdastjóra og þremur stjórnendum hjá Veitum ohf., sem haldinn var í gær, 13. janúar. Fundinn sátu þrír bæjarfulltrúar, bæjarstjóri, skipulags- og byggingarfulltrúi og verkstjóri áhaldahúss. Tilgangur fundar var að fara yfir framkvæmd mála í vatnsveitunni, fyrirhugaðar framkvæmdir og viðhald, heyra af áformum bæjarins um framkvæmdir og uppbyggingu almennt í bænum. Rætt var þar um veitumál, vatns- og hitaveitumál og um tækifæri í orkuskiptum á köldum svæðum.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjóri sagði frá því að hún hafi átt fund með fulltrúum UMFG vegna notkunar á húsnæðinu að Borgarbraut 18 fyrir rafíþróttir, sem UMFG hyggst bjóða uppá, en á bæjarráðsfundi 21. desember sl. var samþykkt að bjóða UMFG húsnæðið undir þessa starfsemi.


Bæjarstjórn - 246. fundur - 11.02.2021

Forseti leggur til að dagskrárliðir 2 og 3 verði ræddir saman.

Forseti ræddi um fund sem haldinn verður 15. febrúar nk. með fulltrúum Stykkishólmsbæjar, Helgafellssveitar og Eyja- og Miklaholtshrepps þar sem farið verður yfir drög að samkomulagi um sameiginlegt embætti skipulags- og byggingarfulltrúa. Fulltrúar bæjarins verða Jósef og Hinrik, auk bæjarstjóra. Bæjarstjóri hefur sent bæjarfulltrúum til skoðunar nýjustu drögin, sem unnið hefur verið að.

Hann minntist einnig á fund sem verður haldinn 18. febrúar nk. í samræmi við bókun bæjarráðs þar sem óskað var eftir sameiginlegu samtali bæjarfulltrúa við fulltrúa nokkurra stofnana um stöðu og líðan fólks á tímum Covid - hvort og hvaða merki séu um breytingar vegna áhrifa Covid og hvort/hvernig ástæða sé til að bregðast við. Á fundinum verða fulltrúar lögreglunnar, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, Fjölbrautaskóla Snæfellinga og Félags- og skólaþjónustunnar, skólastjórar leik- og grunnskóla og forstöðumaður félagsmiðstöðvar sitja fundinn, auk þess sem fulltrúum Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Fellaskjóls og UMFG hefur verið boðið að taka þátt. Fundurinn verður fjarfundur.

Forseti minntist á að sveitarfélögin á Vesturlandi hefðu sent frá sér sameiginlega fréttatilkynningu um mikilvægi þess að hefja framkvæmdir við Sundabraut.

Þá sagði hann frá því að fyrirhugaður væri fundur með Íslenska gámafélaginu um þjónustumál. Rætt um fundartíma og fundarefni. Stefnt er að því að fá fulltrúa Íslenska gámafélagsins inn á næsta fund bæjarráðs í febrúar.

GS ræddi um framför í snjómokstri, hraðahindranir, tímabundna ráðningu á bæjarskrifstofu og styrki til íþróttafélaga. Hann hvatti til þess að stefnumótun í íþróttamálum verði hraðað.

Allir tóku til máls undir þessum lið.

Bæjarstjórn - 247. fundur - 11.03.2021

Forseti sagði frá því að hann hefði ásamt bæjarstjóra tekið þátt í rafrænum samráðsfundi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi um stöðu samgöngumála á Vesturlandi, áskoranir og tækifæri, miðvikudaginn 3. mars sl. Fjögur erindi voru flutt af Vestlendingum og síðan var fundarfólki skipt upp í hópa sem svöruðu spurningum um ávinning af bættum samgöngum og sýn á framtíðartækifæri.

Fundurinn var hluti af fundaröð um allt land nú í mars vegna undirbúnings útgáfu "grænbókar um stöðu samgöngumála" - sjá nánar hér:
https://www.stjornarradid.is/verkefni/samgongur-og-fjarskipti/samgonguaaetlun/graenbok-um-samgongumal/

Grænbók er umræðuskjal með upplýsingum um samgöngur, stöðu, tölfræði, samanburð við önnur lönd og umfjöllun um ólíkar leiðir eða áherslur til að mæta þeim áskorunum sem við blasa. Grænbók er ætlað að meta stöðu samgöngumála og vera grundvöllur fyrir endurskoðaða stefnumótun í samgöngumálum til fimmtán ára (samgönguáætlun).

Hér síðar á fundinum liggja fyrir gögn og upplýsingar frá SSV teknar saman í tengslum við þennan fund.

Forseti sagði frá því að hafnarstjórn og skipulags- og umhverfisnefnd hefðu fundað sameiginlega í gær um tillögu að óverulegum breytingum á deiliskipulagi lóðar 4a á hafnarsvæði.

Bæjarstjórn - 248. fundur - 15.04.2021

Forseti sagði frá því að hann, Hinrik, Unnur Þóra og bæjarstjóri hafi sótt aðalfund SSV, Sorpurðunar Vesturlands hf., Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Símenntunar og Starfsendurhæfingar Vesturlands, sem var haldinn 24. mars sl. á Hótel Hamri í Borgarnesi.

Hann sagði frá því að bæjarstjóri hefði verið með erindi á fundi um fjarskipti í gærmorgun, en um var að ræða samráðsfund með Vestlendingum sem er liður í undirbúningi að gerð Grænbókar um fjarskiptamál. Grænbók er mat á stöðu fjarskiptamála, en í undirbúningi er stefnumótun ríkisins um málaflokkinn.

Bæjarstjórn - 249. fundur - 11.05.2021


Liðir 2 og 3 ræddir saman.

Rætt um fund bæjarstjórnar og nokkurra starfsmanna bæjarins með fulltrúum frá Veitum ohf., sem haldinn var fyrr um daginn. Rætt um vinnu við heildarstefnu fyrir Grundarfjarðarbæ, sem í gangi var 2019-2020. Vinnan var lögð til hliðar á síðasta ári vegna Covid-anna, en ljúka þarf þeirri vinnu. Jafnframt rætt um markaðsmál og mögulega aukningu stöðugilda í þeim málum.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn - 250. fundur - 10.06.2021

Forseti ræddi um fjarfund með bæjarfulltrúum á Snæfellsnesi, sem haldinn var í gær. Þar kynnti HLH ráðgjöf útreikninga sem unnir voru fyrir stjórn FSS vegna nýs íbúðakjarna að Ólafsbraut, Ólafsvík, fyrir fatlað fólk.
Um er að ræða bæði rekstraráætlun fasteignar (fimm íbúða) og þjónustuhlutans, en þessu tvennu verður haldið aðskildu í reikningum FSS. Forseti leggur til að bæjarráð fái þessi gögn til frekari skoðunar og yfirferðar.
Bæjarfulltrúar minntu á að mikilvægt er að vanda vel til undirbúnings starfseminnar og þeirra rekstrarákvarðana sem taka þarf, þannig að ná megi að veita góða þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Fylgjast þurfi vel með þróun mála fyrstu misserin og vera á varðbergi hvað varðar útgjöld og kostnað.

Forseti vakti athygli á bókun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá því í síðustu viku þar sem bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkir að óska eftir sameiningarviðræðum við Eyja- og Miklaholtshrepp.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn - 251. fundur - 22.09.2021

Forseti fór yfir fundi sem eru á dagskrá á næstunni, m.a. verður haustfundur SSV 29. september nk. í Dalabyggð og fjármálaráðstefna sveitarfélaganna 7.-8.okt. í Reykjavík.

Grundarfjarðarbær á þrjá kjörna fulltrúa á haustfundi. Verði forföll fulltrúa með atkvæðisrétt á haustfundi SSV hefur bæjarstjóri umboð til að fara með atkvæði viðkomandi bæjarfulltrúa á fundinum.

Umræða um sameiningarmál:

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps samþykkt boð Snæfellsbæjar um viðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Íbúafjöldi sveitarfélaganna tveggja er um 1.800 manns. Þá hefur Dalabyggð m.a. boðið Stykkishólmsbæ og Helgafellssveit til viðræðna um sameiningarmöguleika, eftir valkostagreiningu um sameiningarkosti sem fram fór sl. vetur. Íbúafjöldi sveitarfélaganna þriggja er um 1.900 manns.

Á Snæfellsnesi eru fimm sveitarfélög með rétt um 4.000 íbúa. Svæðið er afmarkað, atvinnulíf og samfélög eiga margt sameiginlegt. Sveitarfélögin hafa um langt skeið átt með sér farsæla samvinnu um mikilvæga opinbera þjónustu og um önnur verkefni sem styrkt hafa samfélögin og svæðið sem heild.

Ef Snæfellsnes yrði eitt sveitarfélag myndi það án efa hafa mikla þungavigt hvað varðar hagsmuni og þjónustu. Auðveldara væri fyrir svæðið að grípa og nýta tækifærin sem felast í svæðinu og auðlindum þess.

Með þetta í huga, býður bæjarstjórn fulltrúum hinna sveitarfélaganna fjögurra á Snæfellsnesi til óformlegs samtals/viðræðna um stöðu og valkosti í sameiningarmálum, horft til framtíðar. Samtalið er á engan hátt skuldbindandi fyrir sveitarfélögin eða fulltrúa þeirra og getur farið fram hvar sem er á Snæfellsnesi.

Bæjarstjóra er falið að senda sveitarstjórnum Eyja- og Miklaholtshrepps, Helgafellssveitar og Snæfellsbæjar, Stykkishólmsbæjar boð um samtal sem fram fari nú í haust.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 252. fundur - 14.10.2021

Í framhaldi af bókun bæjarstjórnar á síðasta fundi sendi bæjarstjóri bréf til hinna sveitarfélaganna á Snæfellsnesi, þar sem boðið er til óformlegs samtals/fundar um stöðu og valkosti í sameiningarmálum, til framtíðar. Borist hafa jákvæð viðbrögð við erindinu.

Stefnt er að fundi um næstu mánaðarmót.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn - 253. fundur - 18.11.2021

Forseti rifjaði upp, að fresta þurfti fundi sem fyrirhugaður var í lok október, með fulltrúum hinna sveitarfélaganna fjögurra á Snæfellsnesi, skv. boði Grundarfjarðarbæjar til að ræða um stöðu og horfur í sameiningarmálum á Snæfellsnesi.

Forseti leggur til að fundinn verði tímasetning fyrri hluta desembermánaðar, fyrir þetta samtal.

Bæjarstjórn - 254. fundur - 14.12.2021


Rætt um fyrirhugaðan fund um sameiningu sveitarfélaga á Snæfellsnesi sem haldinn verður nk. miðvikudag.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn - 255. fundur - 20.01.2022

Umræða um sameiningarmál á Snæfellsnesi.

Forseti sagði frá fundi sem bæjarstjórnin bauð til, fulltrúum hinna sveitarfélaganna fjögurra, til að ræða um stöðu og framtíðarsýn í sameiningarmálum á Snæfellsnesi. Fulltrúar allra fimm sveitarfélaganna á Snæfellsnesi sátu fundinn, sem fram fór í FSN, þann 15. desember sl.

Jósef Kjartansson forseti bæjarstjórnar, Sævör Þorvarðardóttir bæjarfulltrúi og Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri sátu fundinn fyrir hönd Grundarfjarðarbæjar.

Fulltrúar Snæfellsbæjar og Eyja- og Miklaholtshrepps lýstu forsendum fyrir sínum sameiningarviðræðum en þar verður kosið um sameiningu í lok febrúar. Hið sama gerðu fulltrúar Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar en þar fara fram kosningar um sameiningu í lok mars.

Fram kom að fundurinn hafi verið góður og upplýsandi. Fundarmenn töldu að þessar tvær sameiningar væru ekki endapunktur heldur þyrfti stærri sameiningu á svæðinu í framhaldinu. Ekki var þó tilgreint hvernig eða hve stór sú sameining ætti að vera.

Forseti lagði til að fundur bæjarstjórnar í apríl verði færður til vegna lögbundinna frídaga. Bæjarstjórnarfundur verður því 7. apríl. Maífund þarf líka að færa, en dagsetning verður ákveðin síðar.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn - 256. fundur - 10.02.2022

Liðir 2 og 3 ræddir saman.

Rætt var um heilbrigðisþjónustu. Síðastliðinn mánudag var ekki læknir á vakt í Grundarfirði, en vitað er um þrjú óhöpp/vinnuslys, sem urðu þann dag. Bæjarstjóri óskaði upplýsinga frá HVE um ástæður þessa og átti samtal við forstjóra, og sendi á þingmenn beiðni um að skoða þjónustustig. Fyrirtækið G.Run ehf. sendi erindi á þingmenn kjördæmisins um óviðunandi þjónustu og tóku þeir það upp, m.a. á þingi í gær. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að taka saman greinargerð um heilbrigðismálin og mun bæjarstjórn vinna áfram í málinu.

Allir tóku til máls.

Forseti lagði til að tilnefndir verði tveir fulltrúar úr bæjarstjórn í starfshóp um Barnvænt sveitarfélag. Lagt til að Unnur Þóra Sigurðardóttir og Garðar Svansson verði fulltrúar bæjarstjórnar í starfshópnum.

Samþykkt samhljóða.

Umræða um snjómokstur sem þykir hafa tekist vel til, þar sem bæði götur og gangstéttir hafa verið vel mokaðar.

Bæjarstjórn - 257. fundur - 10.03.2022

Dagskrárliðir 2 og 3 teknir og ræddir saman.
Allir tóku til máls.

Forseti vakti athygli á minnispunktum frá bæjarstjóra í tölvupósti til bæjarfulltrúa frá í gær, um samtal hennar við formann flóttamannanefndar. Fram kemur að sveitarfélögin eigi von á bréfi frá starfshópi sem stofnaður hefur verið um móttöku flóttamanna frá Úkraínu. Ennfremur hefur verið virkjuð "gátt" á vef Stjórnarráðsins þar sem hver og einn getur boðið fram og skráð sjálfur íbúðarhúsnæði á sínum vegum sem mögulegt húsnæði fyrir flóttamenn.

Sævör sagði frá fundi sem hún sótti á vegum RKÍ, um þetta verkefni og hvernig að því verði staðið.

Forseti lagði til að Grundarfjarðarbær myndi kanna með auglýsingu hvort hentugt húsnæði sé til staðar fyrir flóttafólk og halda utan um skráningu þess.
Samþykkt samhljóða.


Rætt var um sameiningarmál á Snæfellsnesi. Tillaga um sameiningu Snæfellsbæjar og Eyja- og Miklaholtshrepps var felld í kosningum þann 19. febrúar sl. Þann 26. mars nk. verður svo kosið um sameiningu Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar. Rætt um stöðuna og vænleg skref.


Forseti vakti athygli á orðsendingu sem hefði borist frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þann 18. febrúar sl. um að Sambandið hefði verið í viðræðum við mennta- og barnamálaráðuneytið um frestun á gildistöku barnaverndarlaga. Fram kemur að ráðherra hafi samþykkt að fresta gildistöku breytinga á barnaverndarlögum nr. 80/2002, sbr. lög nr. 107/2021, sem varða barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar, til haustsins. Jafnframt verði skipaður starfshópur með aðkomu ráðuneytisins og Barna- og fjölskyldustofu sem leggja eigi fram tillögur að skipan barnaverndarþjónustu og umdæmisráða, en það hefur einmitt verið í skoðun hjá sveitarfélögunum að undanförnu.


Forseti vakti athygli á eldvarnaátaki bæjarins, Starfsmannafélags Slökkviliðsins og Félags eldri borgara í Grundarfirði.
Eldri borgurum stóð til boða að fá aðstoð slökkviliðsmanns við að endurnýja eða setja upp nýja reykskynjara á heimilum sínum. Reykskynjarar voru gjöf frá Starfsmannafélaginu til eldri borgara og Grundarfjarðarbær greiddi fyrir vinnu slökkviliðsmanns við uppsetninguna.
Alls voru settir upp 82 nýir reykskynjarar á 28 heimili. Starfsmannafélagið hafði samband við alla íbúa sem voru á listanum (aldurstengt). Átakinu er nú lokið.
Bæjarstjórn færir samstarfsaðilum kærar þakkir fyrir þeirra framtak og aðkomu að verkefninu.

Bæjarstjórn - 259. fundur - 07.04.2022

Forseti sagði frá fundi sem bæjarfulltrúar áttu með starfsfólki leikskóla í gær og er það liður í uppbyggingarstarfi í leikskóla. Fundurinn var afar gagnlegur og upplýsandi, en þar var rætt um styrkingu leikskólastigsins, hvernig auka megi skilning á mikilvægi leikskólastarfs og um styrkingu starfsumhverfis leikskóla.

Forseti sagði frá því að á morgun sé hádegisfundur um íbúðamál, sbr. skilaboð bæjarstjóra, og á þriðjudag um fjarskiptamál, í framhaldi af ályktun bæjarstjórnar um bætt fjarskipti.

Hann sagði jafnframt frá því að HVE hefði staðfest móttöku á bréfi bæjarstjóra, í framhaldi af ályktun bæjarstjórnar um þjónustu HVE, frá síðasta fundi, og að svars HVE væri að vænta 13. apríl nk. Bæjarstjórn á einnig fund með heilbrigðisráðherra 20. apríl nk.

Bæjarstjórn - 260. fundur - 03.05.2022

Forseti sagði frá því að ekki hefði borist efnislegt svarbréf eða viðbrögð Heilbrigðisstofnunar Vesturlands við erindi bæjarstjórnar, sbr. bókun hennar á fundi þann 10. mars sl.
Svar hafði borist um að erindið yrði rætt en viðbragða væri ekki að vænta fyrir 13. apríl, en það hefur sem sagt ekki enn borist.

Fundur var með heilbrigðisráðherra þann 20. apríl sl. í ráðuneytinu. Jósef, Garðar og Björg sátu þann fund f.h. bæjarins. Rætt var við ráðherra um þjónustustig heilsugæslu í Grundarfirði, einkum lækna. Ráðherra tók erindinu vel og mun það verða skoðað í ráðuneytinu.

Bæjarfulltrúar, bæjarstjóri og byggingarfulltrúi áttu fund með framkvæmdastjóra Bjargs, íbúðafélags, þann 8. apríl sl. Rætt var um möguleika á samstarfi.
Bjarg er óhagnaðardrifið íbúðarfélag, sem byggir sjálft og leigir út íbúðir.
Byggingarfulltrúi og tæknifræðingur Bjargs hafa síðan átt fund og farið yfir lausar lóðir í Grundarfirði - með íbúðarbyggingar Bjargs í huga.
Bæjarstjóra er veitt umboð til að skrifa undir samstarfsyfirlýsingu við Bjarg um frekari skoðun á möguleikum til íbúðarbygginga á vegum Bjargs í Grundarfirði.