Bæjarráð - 485Lagður fram kjörskrárstofn frá Þjóðskrá Íslands, vegna forsetakosninga 25. júní 2016. Kjörskrárstofninn miðast við þá sem skráðir eru með lögheimili í sveitarfélaginu þremur vikum fyrir kjördag eða 4. júní 2016.
Bæjarráð samþykkir kjörskrána í samræmi við ákvæði 4. mgr. 32. gr. samþykktar um stjórn Grundarfjarðarbæjar og felur bæjarstjóra að undirrita hana og leggja fram í samræmi við ákvæði í 2. mgr. 24. gr. kosningalaga.
Bæjarráð - 485Gerð grein fyrir enn einum fundi fulltrúa bæjarstjórnar Grundarfjarðar með fulltrúum Orkuveitu Reykjavíkur/Veitum ohf., sem haldinn var í Ráðhúsi Grundarfjarðar þriðjudaginn 14. júní 2016. Tilefni fundarins var fyrst og fremst að kalla eftir efndum Orkuveitunnar (OR) á samningi við Grundarfjarðarbæ frá 20. sept. 2005 um kaup OR á Vatnsveitu Grundarfjarðar, ásamt uppbyggingu og rekstri á hitaveitu í Grundarfirði.
Grundarfjarðarbær afhenti Vatnsveitu Grundarfjarðar til OR frá og með 1. janúar 2006. Á móti skuldbatt OR sig til að hitaveituvæða Grundarfjarðarbæ. Grundarfjarðarbær hefur að fullu staðið við sinn hluta samningsins, en ekkert bólar á hitaveitu ennþá.
Á fundinum, líkt og á fyrri fundum, virtist ekki vera vilji af hálfu OR til að vinna að úrlausn þess að hitaveituvæða Grundarfjörð eins og samningurinn kveður á um.
Á grundvelli þess að OR virðist ekki ætla að standa við samninginn frá 2005 sér bæjarráð, sem nú starfar í umboði bæjarstjórnar, ekki aðrar leiðir færar en að fela bæjarstjóra að leita réttar bæjarins með aðstoð lögmanns.
Bæjarráð - 485Lagt fram bréf Fjölbrautaskóla Snæfellinga frá 8. júní sl., þar sem gerð er grein fyrir uppgjöri skólaaksturs vegna haustannar 2015. Rekstarhalli var á tímabilinu að fjárhæð 536.967 kr. Skólinn hyggst mæta þessum rekstrarhalla.