Leik- og grunnskólabörn mynda hjarta við Fellaskjól og íbúðir eldri borgara við Hrannarstíg. Mynd: T…
Leik- og grunnskólabörn mynda hjarta við Fellaskjól og íbúðir eldri borgara við Hrannarstíg. Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson.

Kæru íbúar! 

Það er óbreytt staða á Vesturlandi hvað varðar smit; engin ný smit í Grundarfirði og þrír í sóttkví. Alls 42 hafa greinst með veiruna og 41 eru í sóttkví á Vesturlandi. Sjá nánar á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi. Tveir greindust smitaðir á landinu öllu í gær, en alls hafa þá greinst fjögur smit síðustu sjö daga. 

Skimun fyrir Covid-19

Íbúum í Grundarfirði stendur til boða að fara í sýnatöku á vegum Íslenskrar erfðagreiningar og HVE, í Grundarfirði á morgun, föstudag 8. maí. Slík skimun hefur farið fram á öðrum starfsstöðvum HVE á Vesturlandi. Ég hvet fólk til að nýta sér þetta tækifæri. Hér má finna upplýsingar og panta tíma.

Skólastarf fer vel af stað eftir breytingarnar 4. maí 

Óhætt er að segja að skóla- og íþróttastarf fari vel af stað eftir breytingarnar sem urðu mánudaginn 4. maí sl. 

Í hefðbundnu skólahaldi er mikið lagt uppúr því sem kallað er “uppbrot” í skólastarfinu; þ.e. að brjóta upp stundatöflu og rútínu skóladagsins og gera eitthvað nýtt eða óhefðbundið. Í þessari viku var það hins vegar svo að glöð börn fögnuðu því að komast aftur í stofurnar sínar og til baka í fyrra fyrirkomulag í grunnskólanum. Það fyrirkomulag felur í sér að allar greinar eru nú aftur kenndar, þannig að hægt er að fara í smíði, heimilisfræði og skólasund, sem hófst sl. mánudag. Grunnskólinn hugar nú að skólaslitum með breyttu sniði og ýmislegt ánægjulegt er á döfinni. 

Leikskólabörn eru nú aftur sameinuð í húsnæði leikskólans, en ein deild hefur starfað í samkomuhúsinu síðustu vikurnar. 

Tónlistarskólinn býður nú öllum nemendum aftur í kennslustofurnar, reynslunni ríkari af fjarkennslu og fleiri nýjungum síðustu vikurnar. Tónlistarskólinn mun ekki halda hefðbundna vortónleika í maí og munu nemendur fagna liðnu skólaári með öðrum hætti í ár.

Starfsfólk þarf áfram að gæta að tveggja metra smitbili og hreinlæti og þrif eru í hávegum höfð áfram. 

Halló harðsperrur! 

Sirrý formaður UMFG segir mér að það sé mjög góð mæting hjá börnum og unglingum á íþróttaæfingar sem hófust aftur á mánudaginn, eftir sjö vikna hlé. Börnin eru ánægð og nú eru það harðsperrur sem gera vart við sig, þegar byrjað er að æfa aftur! 

Fótboltaæfingar eru úti við, sömuleiðis æfingar hjá yngstu iðkendunum í stubbaboltanum, sem eru 4-5 ára börn. Fimleikar, karfa og blak eru inni, en frjálsar eru bæði inni og úti við, eftir atvikum. Notkun á sameiginlegum áhöldum er haldið í lágmarki.

Íþróttaskóli yngstu barnanna fór ekki af stað aftur, þar sem ekki er hægt að tryggja 2ja metra bil milli foreldra í æfingafyrirkomulagi skólans og með því að hreinsa áhöld á milli nemenda. 

Fundir og önnur starfsemi

Sl. þriðjudag fundaði skipulags- og umhverfisnefnd í samkomuhúsinu. Sá fundur er sá fyrsti sem haldinn er með öllum nefndarmönnum á sama staðnum, frá því bærinn tók upp fjarfundi fyrir rúmum átta vikum. Nefndarmenn eru fimm og starfsmenn tveir og ekki er hægt að tryggja 2ja metra bil fundarfólks í sal Ráðhússins. Þess vegna fór fundurinn fram í samkomuhúsinu. 

Starfsfólk í Ráðhúsi er nú aftur allt á sama stað, eftir að hafa starfað í tveimur aðskildum hópum í nokkrar vikur. Eins og hjá fjölmörgum vinnustöðum var það varúðarráðstöfun, til að minnka áhættu á að starfsemi myndi raskast verulega, kæmi til smits á vinnustaðnum. Áfram er 2ja metra varúðarreglan að sjálfsögðu virt.

Sigurður Valur, skipulags- og byggingarfulltrúi, hefur tekið að sér aukið starfshlutfall fyrir Grundarfjarðarbæ og mun á næstu vikum koma að stjórn verklegra framkvæmda hjá bænum, tímabundið. Frá því í janúar 2019 hefur hann sinnt skipulags- og byggingarmálum með viðveru einn dag í viku. Nú hefur hann þriggja daga viðveru að jafnaði og bætir við sig tæknimálunum; þ.e. verklegum framkvæmdum á vegum bæjarins sjálfs. Við fögnum því og hlökkum til frekara samstarfs í þeim efnum.

Sumarstörf

Undanfarið höfum við verið að endurmeta forsendur fyrir ráðningu sumarstarfsfólks hjá Grundarfjarðarbæ. Ljóst er að við þurfum að breyta fyrirkomulagi einhverra starfa sem við auglýstum í byrjun mars sl. m.v. forsendur í dag. Meira um það síðar. 

Eins höfum við sett fram hugmyndir um ný sumarstörf og munum á morgun sækja um stuðning Vinnumálastofnunar, til að ráða námsfólk í sérstöku átaksverkefni ríkisins til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn í sumar. Vinnumálastofnun leitar samvinnu við stofnanir ríkisins og við sveitarfélög, en vonir standa til að með því verði til allt að 3.400 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn 18 ára og eldri sem eru sannanlega í námi. Við vitum ekki hvort eða hve mörg störf við eigum möguleika á að fá í sumar, en það ætti að skýrast strax í næstu viku. Bæjarstjórn mun síðan taka afstöðu til fjölgunar starfa út frá svörum Vinnumálastofnunar en einnig verður leitað eftir því hver þörfin er hjá ungu fólki.  Meira síðar.

Upplestur af kórloftinu

Stöllurnar í leshópnum Köttur úti í mýri hófu í dag lestur nýrrar “útvarpssögu”, sem send er út beint yfir í Fellaskjól og stendur okkur auk þess til boða að hlusta á, sjá nánar hér. Í dag var byrjað að lesa úr bókinni Vonarland eftir Kristínu Steinsdóttur. Takk fyrir framtakið kæru konur!

Hjartans kveðjur!

Í dag mynduðu nemendur Leikskólans Sólvalla og Grunnskóla Grundarfjarðar hjarta fyrir íbúa Fellaskjóls. Börnin fögnuðu þeim tímamótum sem urðu í vikunni þegar skólahald komst aftur í fyrra horf og félagar fengu að hittast, sem áður hafði verið skipt í hópa. Börnin sýndu með þessu samhug með eldra fólkinu okkar og sendu þeim sínar hjartans kveðjur. Fallegt hjá þeim. 

Mér finnst ástæða til að færa börnum og unglingum þakkir fyrir þeirra framlag á þessum veirutímum. Þó að börn á Íslandi hafi það gott, miðað við börn í ýmsum öðrum löndum, þá hafa þau - þegar vel er að gáð - þurft að laga sig að breyttum aðstæðum og fórna ýmsu úr daglegu lífi sem áður þótti sjálfsagt. Að hitta vini og kunningja, afa og ömmur, að stunda íþróttir, að fara á fótboltamót, að fara á Samfés-ball, að fermast og svo mætti áfram telja. 

Kannski finnst okkur fullorðna fólkinu þetta léttvægt, í samanburði við öll “fullorðins-vandamálin” sem nóg er nú af. En þegar maður er barn, þá lýtur tíminn allt öðrum lögmálum. Norski heilbrigðisráðherrann Bent Høie, skrifaði athyglisverða færslu í lok apríl á þessum nótum, á Facebook-síðuna sína. Færslunni hefur verið deilt meira en 9000 sinnum. “Þegar þú ert ungur þá skiptir bara máli það sem á að gerast í dag og á morgun. Þig dreymir um það sem á að gerast á þessu vori og þessu sumri. Ég vildi geta sagt við ykkur að brátt yrði allt eins og það var. En það get ég ekki. Þetta vor verður öðruvísi. Þetta sumar verður öðruvísi,” segir í færslu hans, þar sem hann þakkar norskum börnum og unglingum.

Og er það ekki einmitt þannig? Vika og heill mánuður er langur tími þegar maður er barn. Að gera eitthvað á næsta ári, sem ekki er hægt í ár, virðist ljósár í burtu. Þetta eru sérstakir tímar og krefjast þess að við skoðum vel hvernig börn og ungmenni upplifa þá. Hversu tíminn er afstæður og ræðst af skynjun okkar og aldri. Eitt ár er ⅙ hluti af ævi 6 ára barns, en 1/40 hluti af ævi fertugrar manneskju. Eðlilega upplifir barn tímann með öðrum hætti en fullorðinn. Tíminn virðist ekki bara lengri, hann er lengri - miðað við möguleika barns, á sinni stuttu ævi, til að skynja tímann. Þolinmæði er því án efa eitt það besta sem við fullorðna fólkið getum tamið okkur, þegar kemur að útskýringum og skilningi á upplifun barna á því sem að höndum ber við breyttar aðstæður. 

Björg