Horft yfir Berserkjahraun, ofan af Seljafelli. Kothraunskúla til vinstri. Horn fjær, til hægri á myn…
Horft yfir Berserkjahraun, ofan af Seljafelli. Kothraunskúla til vinstri. Horn fjær, til hægri á myndinni. (Smella á mynd til að stækka).

Kæru íbúar! 

Í dag voru 13 manns í sóttkví í Grundarfirði, en voru 30 í gær. Alls eru 382 í sóttkví á öllu Vesturlandi og hefur því fækkað nokkuð. Alls voru 31 smit á Vesturlandi, einu fleiri en í gær, en óbreytt staða á Snæfellsnesi. Sjá nánar á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi.

Grunnskólinn 

Á morgun er síðasti kennsludagur í grunnskóla og Eldhömrum, skv. skóladagatali útgefnu fyrir skólaárið 2019-2020. Þar með lýkur þriðju viku skólastarfs undir takmörkunum. Í auglýsingu frá grunnskólanum segir: 

Föstudaginn 3. apríl ætlum við að hafa fínan föstudag í skólanum þ.e. að allir ætla að mæta í sparifötum. Einnig mega nemendur koma með sparinesti ef þeir vilja.

Grunnskólinn hefur haft íþróttahúsið til afnota fyrir skólastarfið. Nú þegar skólinn fer í páskafrí gefst tækifæri fyrir starfsfólk íþróttahúss til að dytta að og taka ýmislegt í gegn, en starfsfólk í íþróttahúsi/sundlaug hefur ekki haft mörg verkefni að undanförnu vegna lokunar hússins og heitu pottanna. 

Baðstofustemning á Snæfellsnesi

Hún Hjödda hélt áfram lestri úr sögunni Ofurefli eftir Einar Kvaran, sem streymt er yfir á Dvalarheimilið Fellaskjól. Lesturinn er jafnframt aðgengilegur hér. 

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes tók skorpu í að koma út 10 rafrænum fréttabréfum á 10 dögum, með 4 fréttapunktum í hverju bréfi. Lesa má fréttabréfin hér á vef Svæðisgarðsins, https://www.snaefellsnes.is/frettabref  

Í fréttabréfunum segir m.a. frá áskorun sem Svæðisgarðurinn setti af stað fyrir nokkrum dögum, sem gengur út á að tíu Snæfellingar deila með okkur sögum, ljóðum eða fróðleik, úr stofunni heima hjá sér. Það ætti að vera hægt að hlusta á þessi erindi með því að finna slóðir á þau inná miðlum Svæðisgarðsins, www.snaefellsnes.is og Facebook-síðu Svæðisgarðsins, hér.  

Föstudagskvöldið 3. apríl mun Elín R. Guðnadóttir verða í beinni útsendingu kl. 20 og tala um “matarminningar”. Elín ólst upp í Grundarfirði og er verkefnisstjóri matarverkefnis hjá Svæðisgarðinum Snæfellsnesi.

Í kvöld var það hins vegar Magnús A. Sigurðsson minjavörður Vesturlands, Stykkishólmi, sem fjallaði um sýnilegar minjar Eyrbyggja sögu á Snæfellsnesi og má hlusta á 10 mínútna fróðlega yfirferð Magnúsar hér.

Magnús sagði m.a. frá fyrstu “þjóðvegasjoppunni” á íslandi, sem var í Borgardal í austanverðum Álftafirði, hjá Geirríði, móður Þórólfs bægifótar og ömmu Arnkels goða. Geirríður bjó í þjóðleið, var mikill höfðingi heim að sækja og tók á móti gestum og gangandi sem leið áttu hjá.  

Magnús sagði líka frá berserkjunum, sem Berserkjahraun er kennt við. Þeir voru bræður, sænskir að ætt, og hafði Eiríkur hinn sigursæli Svíakonungur sent þá til Hákonar jarls sem réð í Noregi. Áttu þeir að vera hinir bestu vinnumenn, þó skap þeirra væri vissulega stirt og vandmeðfarið. Það kom líka á daginn þegar þeir voru komnir til Íslands - fengnir að láni - að það þurfti að fela þeim erfiðisverk, til að halda þeim góðum. Þeim var falið að leysa nokkrar þrautir sem fólust m.a. í að leggja Berserkjagötuna og landamerkjagarðinn milli Bjarnarhafnar og Berserkjahrauns, sem var mikil framkvæmd, um tveggja kílómetra langur stígur gegnum úfið hraunið. Á miðri Berserkjagötunni voru berserkirnir heygðir, eftir að þeir kláruðu þrautir sínar. Þjóðsagan segir að þurft hafi að heygja þá þar sem ekki sæist til fjalla, því annars myndu þeir ganga aftur. Og þannig háttar til í dældinni þar sem dysin þeirra á víst að vera. 

Ferðumst heima!

Ég vek athygli á stórgóðum vef um Íslendingasögurnar, þar sem hægt er að lesa hverja sögu og skoða kortlagningu á helstu sögustöðum hverrar sögu í vefsjá. Sjá hér: http://sagamap.hi.is/is/ 

Svæðisgarðurinn mun í sumar bjóða ferðir og leiðsögn um valda staði á Snæfellsnesi, en Magnús minjavörður hvatti fólk til að nýta tímann næstu daga í samkomubanni og fara í göngu á slóðir berserkjanna. 

Nú er páskafrí framundan og við erum hvött til að ferðast “innanhúss” eða í það minnsta halda okkur á heimaslóðum. Við erum svo heppin á Snæfellsnesi að við eigum magnað svæði, náttúru og landslag, og stutt í marga áhugaverða staði. Hver er þinn uppáhaldsstaður? 

Ferðumst heima! 

Björg