Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson, 2020.
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson, 2020.

Kæru íbúar! 

(Uppfært) Um miðnætti höfðu ekki borist fréttir um ný smit, eftir sýnatökur dagsins og eru því enn níu í einangrun. Jafnframt hefur fækkað þeim sem eru í sóttkví og eru þau nú alls sjö. Við krossum fingur um að allt sé komið þennan daginn. 

Um kl. 22:00 í kvöld var ljóst að starfsfólk leik- og grunnskóla, sem beið niðurstaðna skimana, hafði fengið góðar fréttir. 

Leik- og grunnskóli

Þetta þýðir að á morgun, föstudag 12. nóvember kl. 8:00 opnar leikskólinn á ný eftir lokun síðustu þrjá daga. Grunnskólinn getur sömuleiðis haldið áfram starfsemi sinni. Þetta er sett fram með þeim fyrirvara að ekki komi fram ný smit síðar í kvöld eða nótt sem teygja sig inn í skólana.   

Vegna stöðunnar eins og hún leit út hjá okkur í dag, þá sendi skólastjóri grunnskóla skilaboð til foreldra um að nemendur þyrftu að koma með nesti á morgun, föstudag. Við höldum okkur við það og vonum að allir bjargi sér með það. 

Fyrirkomulag í leikskóla - auknar ráðstafanir

Í bréfi leikskólastjóra til foreldra nú áðan, segir að sama fyrirkomulag verði og sl. mánudag, að foreldrar fylgja börnum sínum að inngangi þar sem starfsmenn taka á móti þeim. Við biðjum foreldra að koma ekki inn í leikskólann. Ef sækja á börnin fyrr eða ef foreldrar þurfa að hafa samband við starfsfólk deilda, vinsamlegast hringið í símanúmer sem gefin eru upp fyrir hverja deild. 

Minnt er á það sem komið hefur fram, að ef upp koma minnstu einkenni hjá barni skal halda því heima og bóka tíma í sýnatöku.

Forráðamenn eru vinsamlegast beðnir að skrá forföll barna í Karellen, leikskólakerfið. Það auðveldar skipulagningu starfsins.

Sundlaug og heitir pottar

Íþróttahúsið hefur verið opið fyrir æfingar, en við lokuðum heitum pottum og sundlaug til öryggis. Við munum skoða með opnun á morgun, föstudag, út frá því hvernig staðan verður. Fylgist með á Facebook-síðu sundlaugarinnar eða aflið upplýsinga í síma 430-8564.

Aðstoð við aðföng 

Enn er rétt að minna á boð frá Grundarfjarðardeild Rauða krossins um að hægt er að fá aðstoð frá félögum deildarinnar við að ná í nauðsynjar, eins og mat og lyf, ef fólk kemst ekki sjálft. Hafa má samband við Sævöru formann deildarinnar í síma 869-5628. 

Upplýsingar eru gull! 

Verum dugleg að afla okkur upplýsinga. Hafið þið t.d. skoðað leiðbeiningar um þrif á covid.is? - Á fyrri stigum Covid var mikið talað um að kaffikönnur í sameiginlegu rými, hurðarhúnar og handrið væru algengir smitdreifingarstaðir. Þrífum þessa staði því oftar og/eða sprittum eftir snertingu. 

Á vefnum eru líka hentugt kynningarefni sem hægt er setja á vef eða prenta og hengja upp á vinnustöðum eða í almenningsrýmum. Og allt er þetta á ellefu öðrum tungumálum!  

Góð vísa er aldrei of oft kveðin ...  

Ef upp koma einkenni, höfum þá samband við heilsugæslustöðina í Grundarfirði (s. 432 1350) eða förum inná Mínar síður á heilsuvera.is og bókum okkur tíma í sýnatöku. Jafnvel þó við séum bólusett. Hér má lesa um hver einkenni Covid-19 eru

Og svo þetta: 

Covid-19 kallar á samstöðu og ábyrgð okkar allra! 

Stillum snertingu í hóf og þvoum okkur oft um hendurnar. Það er einfalt og mjög áhrifaríkt að spritta. Notum þessar grímur og forðumst margmenni!

Tökum á þessu saman. Við kunnum þetta og getum! 

Björg, bæjarstjóri