Grill hjá vinnuskóla

Í gær, 20. júlí, var haldin grillveisla fyrir starfsmenn vinnuskóla í góðviðrinu. Þessu síðara tímabili líkur nú um mánaðarmótin. Mikið hefur verið að gera hjá vinnuskólanum og starfsmönnum áhaldahúss undanfarna daga við hirðingu grænna svæða og þökulagningu meðfram Grundargötu. Bæjarhátíðin „Á góðri stund í Grundarfirði“ nálgast óðum og vinna starfsmenn af kappi að því að gera ásýnd bæjarins sem besta fyrir hátíðina. Meðfylgjandi myndir voru teknar í grillveislu vinnuskólans, en öllum starfsmönnum áhaldahúss var boðið.   Starfsmenn vinnuskóla á seinna tímabili

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga, forstöðumaður

Staða forstöðumanns Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga er laus til umsóknar.  Í starfinu felst yfirumsjón með félagsþjónustu og barnavernd auk þjónustu við grunn- og leikskóla.  Forstöðumanns bíður spennandi starf og stórt hlutverk við rekstur og áframhaldandi uppbyggingu félags- og skólaþjónustu á Snæfellsnesi.  

Skemmtiferðaskip í Grundarfjarðarhöfn

Skemmtiferðaskipið Columbus lagðist upp að í Grundarfjarðarhöfn kl. 8 í morgun. Á skipinu eru um 350 farþegar, flestir frá Þýskalandi, og 170 manna áhöfn. Á bryggjunni biðu farþeganna rútur sem keyra með þá út fyrir Snæfellsjökul í dag. Áætlaður brottfarartími skipsins er kl. 14 í dag.   Skemmtiferðaskipið Columbus í Grundarfjarðarhöfn í morgun  Sjá fleiri myndir í myndabankanum!

Berserkur 2006

Mánudaginn 24. júlí n.k fer sveppurinn í loftið. Götur, torg og önnur bæjarprýði verða hvergi óhult fyrir sköpunarkrafti ungra listamanna. Ef þú hefur áhuga á að virkja unga ferska orku taktu þá upp tólið og hringdu núna í síma 891-7802 (Þóra Magga) eða 690-9601 (Sonja). Smiðjurnar eru ætlaðar ungmennum á aldrinum 16 – 25 ára (´81-´90).Eftirfarandi smiðjur eru í boði: 

Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri lætur af störfum

Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri lét af störfum sl. föstudag, þann 14. júlí eftir 11 ára starf sem bæjastjóri/sveitarstjóri í Grundarfirði. Björg tók við starfinu af Magnúsi Stefánssyni, núverandi félagsmálaráðherra, árið 1995. Bæjarstjórn færði Björgu málverk að gjöf og voru henni þökkuð vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins.   Sigríður Finsen og Friðgeir V. Hjaltalín, sem var oddviti þegar Björg var ráðinn, afhenda henni málverkið á kveðjuhófi sem henni var haldið á dögunum.  

Sorphirða og rekstur gámastöðvar á Snæfellsnesi

Í síðustu viku auglýsti Ríkiskaup, f.h. Grundarfjarðarbæjar, Stykkishólmsbæjar, Snæfellsbæjar, Eyja- og Miklaholtshrepps og Helgafellssveitar, útboð á sorphirðu og rekstri gámastöðvar á Snæfellsnesi. Útboðsgögn eru til sýnis og sölu hjá Ríkiskaupum í Borgartúni 7 og verða tilboðin opnuð á sama stað þann 30. ágúst nk. kl. 11 að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska. Sjá auglýsingu hér.

Skúturnar komnar í var

Á vefsíðu Brokeyjar, Siglingaklúbbs Reykjavíkur, www.brokey.is er að finna frétt um að allar skúturnar, nema Kayam og Armor Crustaces, í Skippers D' Islande keppninni séu flúnar í var í höfnum í Keflavík og Grindavík vegna leiðindaveðurs. Einnig séu tvær skútur í Reykjavík, m.a. fjörtíufetari nr. 11 Azawakh III sem er með bilaða sjálfstýringu. Í fréttatímum í dag var einmitt greint frá því að skútuna hefði tekið niðri við Akurey þegar verið var að lóðsa hana frá skerjum á Kollafirði, þar sem hún hafði vikið af hefðbundinni siglingaleið. Skipstjórinn var einn á ferð.

Skúturnar kveðja

  Og Grundarfjörð gefst mér að lítaog grösuga Melrakkaeyog víkur og vogana hvítaog velbúin siglandi fley.   Getur verið að franskar fiskiskútur hafi verið á meðal þeirra fleyja sem Jónas J. Daníelsen orti um í Minni Eyrarsveitar á síðari hluta 19. aldar? Í það minnsta var það afar tilkomumikil sjón þegar skúturnar nítján lögðu af stað frá Grundarfirði í síðasta hluta leiðarinnar í siglingakeppninni Skippers d´Islande. Ferðinni er nú heitið beint aftur til Paimpol í Frakklandi og er áætlað að hún taki um 7-10 daga. Á fimm skútum af nítján eru skipstjórarnir einir í áhöfn, en það er sérstök raun sem þeir leggja á sig, að sigla einir í a.m.k. 1000 mílur og vinna sér inn stig til að öðlast þátttökurétt í öðrum keppnum.

Minni Eyrarsveitar

Jónas J. Daníelsen var fæddur að Kverná í Eyrarsveit 25. des. 1850. Jónas fluttist til Ameríku og saknaði ávalt heimaslóðanna eins og segir í formála lítils kvers sem Kvenfélagið Gleym mér ei gaf út árið 1933.Kverið inniheldur „Minni Eyrarsveitar“ sem eru 25 erindi. Til gamans eru hér birt tvö þeirra:   Og Grundarfjörð gefst mér að lítaog grösuga Melrakkaeyog víkur og vogana hvítaog velbúin siglandi fley.   Ó fögur er sveitin mín fríða, hinn fegursti blettur á grund, með grænar og grösugar hlíðarog glampandi voga og sund. 

Frá Gámastöð Grundarfjarðar

Borið hefur á því að viðskiptavinir gámastöðvarinnar séu að koma með rusl/sorp utan opnunartíma hennar, en það er ekki heimilt.  Viðskiptavinir eru vinsamlegast beðnir um að virða auglýstan opnunartíma. Opnunartími gámastöðvarinnar er sem hér segir. Mánudaga – föstudaga opið kl. 16:30 - 18:00 Laugardaga opið kl. 10:00 – 12:00. Lokað á sunnudögum.   Grundarfjarðarbær