19. júlí 2007
Málverkasýning Kristínar Ýr Pálmarsdóttur stendur nú yfir í Hótel Framnesi í Grundarfirði. Kristín Ýr segir í samtali við Skessuhorn að hún sé með 10 málverk til sýnis og séu þau öll máluð með olíu. “Þetta eru landslagsmyndir og myndir tengdar sjónum, enda á ég mínar rætur að rekja til Grundarfjarðar. Tenginginn við sjóinn og vinnsluna er þemað hjá mér en eins og allir vita eru þessar greinar megin undirstaðan í atvinnulífinu hér,” segir Kristín. Sýningin er sett upp í tengslum við bæjarhátíðina “Á góðri stundu” sem fer fram í Grundarfirði helgina 27. til 29. júlí. Sýningin verður hinsvegar opin til 15 ágúst.
Frétt á vef Skessuhorns 19. júlí 2007.