Sundlaugin

Það er farið að kólna í veðri og það þýðir að styttast fer í að sundlauginni verði lokað. Síðasti opnunardagur þetta haustið verður föstudagurinn 19. október. Opið verður til kl. 20.00. Þannig að það er um að gera að nýta þessa örfáu daga sem eftir eru og drífa sig í sund í góða veðrinu.

Ný gönguleið í grunnskólann fyrir skólabörn frá Hjaltalínsholti

Útbúin hefur verið ný gönguleið í grunnskólann fyrir skólabörnin sem búa á Hjaltalínsholtinu og þar í grennd.  Gönguleiðin liggur meðfram Ölkelduvegi að Hrannarstíg og svo meðfram Hrannarstígnum að Smiðjustíg.  Reiknað er með að börnin gangi svo meðfram Smiðjustígnum í skólann og sömu leið til baka.  Settar hafa verið gangbrautir á Ölkelduveginn og Hrannarstíginn þar sem eðlilegast er að fara yfir þessar götur á gönguleiðinni.  Þetta er gert núna til þess að börnin þurfi ekki að ganga alla leiðina eftir og meðfram Ölkelduvegi sem nú er illa fær vegna bygginga- og gatnaframkvæmda.  Framkvæmdirnar gera það að verkum í vetur að ekki verður unnt að leggja varanlega gangstétt meðfram Ölkelduveginum fyrr en næsta sumar í fyrsta lagi.  Foreldrar eru eindregið hvattir til þess að leiðbeina börnunum og vísa þeim á gönguleiðina.

Síldveiðar hafnar í Grundarfirði

Síldveiðiskipið Krossey SF 20 frá Hornafirði fékk 650 tonn af síld rétt fyrir utan Grundarfjörð í gærkvöldi og í dag. Jón Þorsteinsson háseti á Krossey sagði í samtali við Skessuhorn að þetta væri fín síld og fer hún öll til manneldis. “Við tókum fimm köst og í fyrsta kastinu voru einungis 50 tonn en í síðasta kastinu fengum við 200 tonn.” Segir Jón að Krosseyin sé nú á leið með aflann til vinnslu á Hornafirði. ,,Það er mikið minna af síld núna í Grundarfirðinum en í janúar síðastliðnum þegar við vorum þar síðast á veiðum. En við erum líka mikið fyrr á ferðinni. Við höfum einnig orðið varir við síld út af Vestmannaeyjum,” bætir Jón við. Hann segir óvíst um hvort skipið taki næsta túr á Grundarfjörð. “Ætli við prófum ekki að finna síld fyrir sunnan landið. Það er mikið styttra stím fyrir okkur á miðin,” sagði Jón.   Á myndinni er Krosseyin að taka síðasta kastið og dælir síldinni um borð. Í því voru 200 tonn af úrvalssíld sem öll fer til manneldis.   Sjá greinina á www.skessuhorn.is

Umsóknir til Grundarfjarðarbæjar um styrki á árinu 2008

Vakin er athygli þeirra sem hyggjast sækja um styrki af einhverju tagi til Grundarfjarðarbæjar á næsta ári, að umsóknarfrestur hefur verið auglýstur og er til og með 24. október n.k.  Ekki eru sérstök eyðublöð fyrir umsóknir.  Unnt er að senda umsóknir ásamt skýringum í bréfi til skrifstofu Grundarfjarðarbæjar, Grundargötu 30, 350 Grundarfjörður. 

Doris Lessing - Nóbelsverðlaun 2007

Bókasafn Grundarfjarðar á þær 7 skáldsögur eftir Doris Lessing sem þýddar hafa verið á íslensku og að auki bókina Vinter in July á ensku. Lessing skrifar um reynsluheim kvenna og þykir hafa mjög sérstakan húmor. Bækur Doris Lessing og myndverkið Sýn eftir elstu börn Leikskólans Sólvöllum vorið 2001 en þá flutti bókasafnið í nýtt húsnæði ofan á vélaverkstæði Bærings. 

Fleiri mættu í Grundarfirði en í Reykjavík

 Af vef Skessuhorns: 12. október 2007 Í gærkvöldi hélt sautján manna stórsveit Samúels Samúelssonar fjölmenna “funk” tónleika í Fjölbrautaskólanum í Grundarfirði. Mikil stemning myndaðist meðal áhorfenda sem voru vel með á nótunum allt kvöldin og ekki spillti spilagleði stórsveitarinnar fyrir og var því sannkölluð ,,Fnyk” stemning í skólanum. Stórsveitin lék tónlist af nýútkomnum diski sínum sem heitir einmitt Fnykur. Samúel Jón Samúelson sagði í samtali við Skessuhorn að hann væri virkilega ánægður með viðtökurnar í Grundarfirði. “Hér komu miklu fleiri til að hlusta á okkur en á tónleikunum sem við héldum í Reykjavík kvöldið áður og þá er óþarfi að vera að vitna í neinar höfðatölur,” sagði Sammi.  

Tónleikar á fimmtudag.

Stórsveit Samma mætir til Grundarfjarðar og heldur tónleika í sal framhaldsskólans á fimmtudagskvöld. Samúel Samúelsson, kenndur við Jagúar, er stjórnandi þessarar sveitar sem hefur á að skipa 20 mjög svo færum hljóðfæraleikurum og leika þeir lög úr ýmsum áttum.   Tónleikarnir hefjast 20:00 og kostar aðeins 2000 kr. inn en framhaldsskólanemar og grunnskólanemar fá miðann á 1500 kr.

Laus staða slökkviliðsstjóra

Grundarfjarðarbær auglýsir eftir umsóknum um starf slökkviliðsstjóra.  Starfið er hlutastarf sem getur hentað vel með öðru starfi.  Ekki er um fastákveðinn vinnutíma að ræða en starfinu er sinnt eftir því sem þörf er fyrir hverju sinni.  Slökkviliðsstjóri þarf að hafa reynslu af starfi í slökkviliði.  Iðnmenntun eða vélstjórnarréttindi eru æskileg.  Slökkviliðsstjóri sér um að tæki og búnaður slökkviliðsins sé ætíð tiltækur og tilbúinn til notkunar.  Slökkviliðsstjóri sér um að slökkviliðið fái nauðsynlegar æfingar og að nægilegt lið sé tiltækt hverju sinni til þess að sinna útköllum.  Slökkviliðsstjóri er æðsti yfirmaður slökkviliðsins og stjórnar því á æfingum og í útköllum.  Helstu samráðsaðilar eru skipulags- og byggingafulltrúi og varaslökkviliðsstjóri.   Launakjör fara eftir kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Svar við spurningu vikunnar

 Rétt svar við því hvenær íþróttahúsið var vígt er 14. október 1989. 132 svöruðu að þessu sinni og voru 54  eða 40,9% með rétt svar.

Er lögheimili þitt rétt skráð?

Þeir sem hafa flutt til Grundarfjarðar en ekki tilkynnt aðsetursskipti, eru hvattir til þess að gera það. Eyðublöð fást á bæjarskrifstofunni og einnig á vef Hagstofunnar, hagstofa.is   Atvinnurekendur eru jafnframt hvattir til að brýna fyrir utanbæjarfólki, sem þeir ráða til starfa, að tilkynna aðsetursskipti ef búseta þeirra er í Grundarfirði.   Nánari upplýsingar fást á bæjarskrifstofunni