Umsóknir um húsaleigubætur

Húsaleigubætur 2008 Þeir sem ætla að nýta sér rétt sinn til húsaleigubóta árið 2008 eru vinsamlegast beðnir um að skila inn umsóknum fyrir 20.janúar nk. Athugið að fyrri umsóknir runnu út um áramót. Húsaleigubætur fyrir janúar 2008 verða greiddar 1.febrúar, ef fullnægjandi gögn liggja fyrir.   Skilyrði húsaleigubóta eru m.a. eftirfarandi: · að umsækjandi hafi lögheimili í Grundarfirði að umsækjandi hafi þinglýstan húsaleigusamning til a.m.k. sex mánaða. · að umsækjandi leigi íbúð, en ekki herbergi.   Umsóknareyðublöð og upplýsingabæklingar fást á Bæjarskrifstofu Grundarfjarðar, Grundargötu 30, þar er einnig tekið við umsóknum.   Skrifstofustjóri 

Umsóknarfrestur framlengdur vegna styrkja Menningarráðs Vesturlands

Umsóknarfestur vegna styrkja Menningarráðs Vesturlands hefur verið framlengdur til 10. janúar n.k.  Allar upplýsingar um styrki og umsóknir Menningarráðs Vesturlands má nálgast á heimasíðunni www.menningarviti.is og er fólk eindregið hvatt til að sækja um til að auðga menningarlífið hér í Grundarfirði. 

Þrettándabrenna

Þrettándabrenna verður haldin n.k. sunnudag inn í Kolgrafarfirði á svipuðum slóðum og hún var haldin fyrir ári síðan. Vekjum athygli á breyttum tíma á brennunni en áætlað er að búið verði að kveikja í klukkan 17.30. Björgunarsveitin mun vera með flugeldasýningu og möguleiki er á að álfar, tröll og jafnvel Grýla og fleira skemmtilegt söngfólk mæti á staðinn. Einnig á að bjóða upp á heitt kakó og munu foreldrar barna á miðstigi sjá um það líkt og áður. Minnum því foreldra á að koma með einn kakóbrúsa fyrir sitt barn og koma með á staðinn. Vonandi sjáum við  sem flesta og fáum gott veður. Með bestu kveðju, Stjórn foreldrafélags grunnskólans. 

Áhaldahúsið sækir jólatrén

Boðið verður upp á það mánudaginn 7. janúar og þriðjudaginn 8. janúar n.k. að þeir sem vilja geti losnað við jólatrén með því að setja þau út fyrir lóðamörkin (á gangstétt eða götu).  Starfsmenn áhaldahússins munu fara um og taka þau jólatré sem sett hafa verið út þessa tvo framangreindu daga. 

Hugleiðingar bæjarstjóra við áramótin 2007-2008

 Við áramótin er hollt að líta um öxl og skoða atburði ársins.  Margt gott og jákvætt hefur komið fram á árinu en einnig er eitthvað sem hefði getað verið betra eins og gengur.  Bæjarstjórinn hefur sett á blað nokkrar hugrenningar á þessum tímapunkti sem má skoða hér.

Hreinsum upp skotköku- og flugeldaruslið

Þó veðurspáin sé ekki góð til flugeldaskothríðar á gamlárskvöld er við því að búast að margir muni reyna að koma púðrinu í loftið.  Það eru vinsamleg tilmæli bæjarstarfsmanna að allir hreinsi upp ruslið sem verður eftir skotkökur og slíkan búnað.  Það er miklu skemmtilegra að sjá bæinn hreinan á nýársdag heldur en alsettan pappakössum og drasli eftir gamlárskvöldið. 

Fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2008

 Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar þ. 18. desember sl. var tillaga að fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 tekin til síðari umræðu og afgreiðslu.  Fjárhagsáætlunin var samþykkt og hægt er að skoða rekstraryfirlit hennar með því að smella hér.

Nýr aðalbókari/ritari til starfa á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar

Nú í desember tók nýr aðalbókari/ritari til starfa á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar.  Nýi aðalbókarinn er Kristín Pétursdóttir sem starfað hefur um hríð sem þjónustufulltrúi á skrifstofunni.  Kristín er þ.a.l. ekki ókunnug vinnuumhverfinu og mun það nýtast henni vel í byrjuninni.  Kristín lauk námi til löggildingar sem bókari nú desember.  Kristín tekur við af Andrési B. Andreasen sem hefur gegnt starfinu í eitt ár, en hverfur nú til starfa hjá Reykjavíkuborg.  Um leið og Kristín er boðin velkomin í nýtt starf eru Andrési þökkuð góð störf í þágu Grundarfjarðarbæjar.  

Starf þjónustufulltrúa

Grundarfjarðarbær auglýsir starf þjónustufulltrúa á skrifstofu bæjarins laust til umsóknar.   Þjónustufulltrúi annast öll almenn skrifstofustörf, svo sem móttöku og afgreiðslu erinda, símsvörun, ljósritun, innskráningu reikninga, aðstoð við viðhald á heimasíðu sveitarfélagsins, aðstoð og upplýsingagjöf til íbúa og annarra,   meðferð fundagagna og aðstoð við undirbúning funda.  Vinnutími er á opnunartíma skrifstofunnar, þ.e. mánudaga til fimmtudaga kl. 09.30 - 15.30 og föstudaga kl. 09.30 - 14.00.  

Akstur á vélsleðum yfir íþróttavöllinn er óheimill

Nokkuð hefur borið á því eftir að við fengum snjóinn að vélsleðamenn aki yfir íþróttavöllinn á vélfákum sínum.  Því er eindregið beint til þeirra sem aka um á vélsleðum að láta íþróttavöllinn í friði.  Akstur á vellinum getur valdið skaða á honum og það er óþarfi að lenda í slíku.  Stöndum saman um að verja íþróttavöllinn fyrir öllum skemmdum.