Grundarfjörður

Grundarfjörður er fallegur bær við Breiðafjörð. Bærinn stendur við samnefndan fjörð nálægt miðri norðurströnd Snæfellsness. Staðurinn skartar óvenjulegri náttúru og veðurfari. Þéttbýli byrjaði að myndast á núverandi bæjarstæði um 1940.

Grundarfjörður hefur vaxið jafnt og þétt síðan og hefur fólksfjölgun verið stöðug. Sveitin sem bærinn stendur í hefur frá fornu fari heitið Eyrarsveit og eru íbúar tæplega 900 talsins.

Helsti atvinnuvegur Grundfirðinga er sjávarútvegur og starfar um helmingur vinnuafls við þá atvinnugrein. Ýmis þjónusta og iðnaður hefur verið vaxandi í Grundarfirði. Bærinn þykir einkar fallegur og snyrtilegur og hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi.

Náttúrufar

Jarðfræði Grundarfjarðar er óvenjuleg þar sem hún spannar alla jarðsögu Íslands. Setbergseldstöðin í miðju sveitarinnar er megineldstöð úr Snæfellsnesrekbeltinu sem var upphafsgosbelti landsins. Eldvirkni þess er talin hafa hafist fyrir um 18 miljónum ára en kulnað út fyrir um 6 milljónum ára. Fyrir um 2 milljónum ára hófst svo nýtt gostímabil á svæðinu sem hliðargosbelti og er sú gosvirkni enn til staðar.

Yngsta gos í Grundarfirði er talið í Rauðukúlu í Helgrindum um 3000 ára gamalt. Víða má greina skil þessara gosskeiða í Eyrarsveit þar sem hinn gamli bergstallur liggur hallandi undir láréttum stöllum seinni tíma gosvirkni. Jökull ísaldar hefur verið einkar vandvirkur þegar hann tálgaði til fjöll þessarar sveitar og þykir skarðið milli Kirkjufells og Mýrarhyrnu og reyndar fjöllin sjálf eitthvert glæsilegasta merki jökulrofs á Íslandi. Á jarðfræðikortum má glöggt sjá að hvergi á Íslandi finnast jafn margar bergtegundir á litlu svæði eins og í Eyrarsveit.

 

Veðurfar

Veðurfar í Grundarfirði er einnig óvenjulegt. Ríkjandi er innfjarðarveðrátta sem einkennist af blíðviðri dögum saman og hinum frægu sunnan hvassviðrum með mikilli úrkomu. Hvassviðrisdagar í Grundarfirði eru taldir vera um 30 – 40 á ári. Annarra vindátta en suðlægra gætir lítt eða ekki í Grundarfirði sem gerir hann að einum veðursælasta stað á Vesturlandi. (Sjá upplýsingar um veður í Grundarfirði). 

„… þessi byggð er ein af hinum fegurstu um gervalt land, einkum í kyrru og björtu veðri". P.E. Kristian Kålund um Eyrarsveit í „Íslenskir sögustaðir" 1877.

 

Saga

Eyrbyggja er eitt öndvegisrit Íslendingasagna og segir sögu landnáms og byggðar á Snæfellsnesi. Sagan er kennd við sveitina sem dregur nafn sitt af landnámsjörðinni Eyri þar sem landnámsmaðurinn Vestarr valdi sér bólstað. Vestarr var forfaðir þeirra Eyrbyggja sem hvað mestan óskunda gerðu á Þórsnesþingum. Á Eyri eða Öndverðareyri má sjá rústir mikilla víkingaskála í frá landnámstíma.

Grundarfjörður hefur um aldir verið mikilvægur verslunarstaður og kemur þar bæði til einkar góð höfn frá náttúrunnar hendi og lega staðarins miðsvæðis á Snæfellsnesi. Elstu heimildir um verslun eru frá landnámsöld er skip komu í Salteyrarós. Salteyrarós er að öllum líkindum þar sem nú er kallaður Hálsvaðall vestan Kirkjufells. Þar ná Krossneslönd milli fjalla og hefur þar verið höfðingjasetur frá upphafi.

Víða á þessu svæði má finna merkar fornminjar sem vitna til mikilla umsvifa á víkingaöld. Hinn forni Grundarfjarðarkaupstaður stóð á Grundarkampi við botn fjarðarins og eru þar merkilegar rústir frá ýmsum tímum. Ljóst er að verslun var þar veruleg strax á 15. öld. Eftir daga einokunarverslunarinnar óx vegur Grundarfjarðar nokkuð og með lagasetningu árið 1786 var hinn forni verslunarstaður löggiltur sem einn af 6 fyrstu kaupstöðum landsins. Grundarfjarðarkaupstaður var með lögum þessum gerður að höfuðstað vesturamtsins og skyldi verða miðstöð verslunar og þjónustu í amtinu. Þessi lög voru einstök sökum þess að engin mátti stunda verslun í vesturamti nema hafa borgarréttindi í Grundarfirði.

Fyrsti skipulagsuppdráttur á Íslandi er af þessum kaupstað sem er líklega sá eini hérlendis sem byggður er með borgarskipulagi þ.e í kring um torg. Franskir fiskimenn höfðu um skeið aðstöðu í kaupstaðnum og áttu þar hús og grafreit.

 

Höfn og sjávarútvegur

Höfnin er lífæð byggðarinnar. Myndarleg hafnarmannvirki og góð aðstaða frá náttúrunnar hendi hafa skapað sjávarútvegi góð vaxtarskilyrði. Öflug sjavarútvegsfyrirtæki eru starfandi í Grundarfirði og er aflasamsetning og útgerðarmynstur fjölbreytt. Sjávarútvegurinn hefur verið byggður upp af mikilli framsýni og dug og er Grundarfjarðarhöfn ein af 10 stærstu kvótahöfnum landsins og stærsta löndunarhöfn vesturlands í bolfiski.

Innsigling í Grundarfjarðahöfn er örugg og einföld, við hafskipabryggjuna er lámarksdýpi 6 metrar á stærstu fjörum. Sumarið 2001 var bætt við Norðurgarðinn nýju 140 metra viðlegu- og löndunarrými með 9 metra lámarksdýpi.

„…þá er Grundarfjörður að mínu áliti eitt besta skipalægi á landinu" skrifaði kapteinn Auguste Véron á franska herskipinu L´Artémise í bréfi til Franska flotamálaráðherrans 15. júlí 1858.

  

 

Skipaþjónusta

Samhliða öflugri uppbyggingu fiskiskipaflotans og aukinna umsvifa hafnarinnar hefur verið byggð upp öflug þjónusta við skip. Á Norðurgarði er staðsett ísverksmiðja. Þegar verksmiðjan var tekin í notkun haustið 2000 var hún sú fullkomnasta í heimi. Ís er dælt um borð í skipin og eru 3 afgreiðslustútar á Norðurgarði. Ragnar og Ásgeir ehf. er öflugt flutningafyrirtæki sem sérhæft hefur sig í fiskflutningum. Löndurarþjónusta er starfandi við höfnina og við Nesveg er Mareind ehf. sérhæft fyrirtæki á sviði siglinga-og fiskileitartækja.

 

Mannlíf og menning

Grundarfjörður hefur lengi búið við stöðugt ástand í atvinnulífi sem skapað hefur jákvætt hugarfar og félagslegan styrkleika. Menningar- og félagslíf blómstrar, þorps- og sveitamenning nýtur sín með öflugri þátttöku íbúanna. Íþróttastarf hefur verið öflugt og geta íbúar jafnt yngri sem eldri notið góðrar aðstöðu til íþróttaiðkunar; á íþróttavelli, í íþróttahúsi, sundlaug og skíðalyftu rétt við bæjardyrnar. Hestamenn hafa byggt upp glæsilega aðstöðu í myndarlegu hesthúsahverfi í jaðri bæjarins. Öflugur golfklúbbur er starfandi og nýtir góðan 9 holu golfvöll í Suður-Bár.

Í Grundarfirði starfar öflugt félag eldri borgara, skotveiðifélag, björgunarsveit og fjöldi annarra afþreyingar og líknarfélaga. Nokkur veitingahús eru starfandi í bænum, hvert með sínum brag og hafa vakið athygli fyrir afbragðs mat, þjónustu og ýmsar uppákomur sem krydda mannlífið í Grundarfirði. Síðast en ekki síst gerir hæfileg fjarlægð höfuðborgarinnar íbúunum kleift að njóta borgarmenningarinnar án þess að vera búsettir í skarkala borgarlífsins.

 

Ferðaþjónusta

Náttúran, mannlífið og sagan laða marga ferðamenn, erlenda sem innlenda, til Grundarfjarðar. Kostir þess að una í ró og fegurð náttúrunnar eru metnir sem forréttindi fyrir þá sem lifa við ys og þys stórborganna. Fólk sem nýtur um náttúru Grundarfjarðar og blandar sér í samfélag staðarins fagnar þeirri algjöru hvíld sem býðst á þessum friðsæla stað. Að geta á örskömmum tíma orðið sem einn íbúa bæjarins er kostur sem fólk frá fáskiptu borgarsamfélagi kann að meta og margir nýta sér.

Grundfirðingar hafa valið að búa í sátt og samlyndi við íbúa af öðrum víddum og er það án efa einsdæmi að í skipulagi bæjarins er sérstaklega afmörkuð álfabyggð. Bærinn er líklega sá eini í heiminum þar sem byggingaryfirvöld hafa úthlutað lóð til huldufólks.

Grundfirðingar halda árlega sumarhátíð sína „Á góðri stund í Grundarfirði" síðustu helgina í júlí. „Við hugsum oft um dvölina í Grundarfirði, sem var hámarkið í ferðinni. Einn góðan veðurdag erum við ákveðin í koma aftur", skrifa Pia Burkhalter og Ueli Räz frá Bern í Sviss.

  

 

Verslun

Saga verslunar er löng í Grundarfirði eins og fram kemur í sögu sveitarinnar. Englendingar, Þjóðverjar, Danir, Norðmenn, o.fl. komu nærri verslun í Grundarfirði fyrr á tímum. Eftir að veldi Grundarfjarðarkaupstaðar lauk um miðja 19. öldina var verslun um tíma fátækleg þangað til Kristján konungur IX. löggilti verslunarstað í Grafarnesi 1897. Verslun þar var þó óstöðug framan af, þangað til þéttbýli fór að myndast á núverandi bæjarstæði upp úr 1940. Í dag er verslunarrekstur blómlegur í Grundarfirði og eru þar starfræktar verslanir með fjölbreytt úrval vöru og þjónustu.

 

Þjónustuverktakar

Myndarleg og hraðfara uppbygging staðarins hefur skapað þörf fyrir aukna þjónustu. Því hafa byggst upp fjöldi stærri og smærri fyrirtækja með fjölbreytta þjónustu í byggingariðnaði og verktakastarfsemi. Verktakar frá Grundarfirði hafa ekki aðeins þjónað vel heimabyggðinni heldur hafa þeir sótt verkefni í önnur byggðarlög. Grundfirskir verktakar með fagmennsku og vönduð vinnubrögð að leiðarljósi hafa verið öflugir þátttakendur á útboðsmarkaði bæði heima og heiman. Mikill vöxtur hefur verið í þessum atvinnugreinum í Grundarfirði síðustu ár.

 

Opinber þjónusta

Í Grundarfirði er þjónusta við íbúa sveitarfélagsins góð, þar eru starfræktir öflugir skólar, Grunnskólinn í Grundarfirði með tæplega 100 nemendur, Tónlistarskólinn í kringum 50 nemendur og Leikskólinn Sólvellir sem er fjögurra deilda leikskóli með um 60 nemendur með sveigjanlegri viðveru. Fjölbrautaskóli Snæfellinga tók til starfa haustið 2004 og stunda þar liðlega 200 nemendur nám.

Í Grundarfirði er heilsugæsla, bókasafn og að sjálfsögðu vel búið slökkvilið og sjúkrabifreið er til taks ef eitthvað bjátar á.